Eyjólfur Kolbeinn Vilhelmsson fæddist 10. júní 1956.
Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu, Fögrubrekku í Hrútafirði, 17. janúar 2016.
Foreldrar hans voru Vilhelm Steinsson, f. 31. mars 1909, d. 6. febrúar 1990, og Hólmfríður Þorfinnsdóttir, f. 18. nóvember 1921, d. 22. september 1980.
Systkini Eyjólfs samfeðra eru:
1) Valgeir, f. 1933, d. 2013, maki Sigurlaug Þorleifsdóttir f. 1935, d. 1999. 2) Þuríður Sveinbjörg, f. 1937, d. 2008, maki Baldur Hólmgeirsson, f. 1930, d. 1993. 3) Hrafnhildur, f. 1940, var gift Sigmundi F. Kristjánssyni, f. 1941. Þau skildu.
Systkini sammæðra eru Hjörtur, f. 1942, maki Auður Sigurbjörnsdóttir, f. 1943, og Hafsteinn Þorfinnur, f. 1946, maki Laufey Sigurrós Þormóðsdóttir, f. 1956.
Alsystkini Eyjólfs eru Guðmundur, f. 1955, maki Jóhanna Sigurða Ágústsdóttir, f. 1956, og Þórunn, f. 1959, d. 1960.
Eyjólfur var í sambúð með Önnu Maríu Egilsdóttur, f. 1954, d. 1995. Synir hennar eru Svavar Már, f. 1976, Sigfús, f. 1978, og Sigurbjörn, f. 1981, d. 1996.
Eyjólfur var búsettur á æskuheimili sínu Fögrubrekku, nánast alla tíð og tók við búi föður síns árið 1981. Hann var skólabílstjóri í Hrútafirði síðustu 20 árin. Einnig vann hann við akstur vörubifreiða mörg sumur.
Útför Eyjólfs Kolbeins fer fram frá Staðarkirkju í Hrútafirði í dag, 30. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.
Eyfi kynntist mömmu okkar bræðranna á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga þar sem hann var að jafna sig eftir aðgerð. Mamma vann þá við skúringar á sjúkrahúsinu. Höfðum við bræður búið á Hvammstanga ásamt henni í nokkurn tíma áður en þau kynntust. Það var ákveðið að Eyfi myndi flytja til okkar á Hvammstanga, en hann bjó þá á Fögrubrekku ásamt föður sínum. Það má segja að nokkuð hafi breyst við komu hans. Sá elsti taldi sig sennilega húsbónda þegar þarna var komið við sögu enn varð að sættast við breytingarnar. Við bræðurnir áttuðum okkur fljótt á að þarna væri kominn hinn vænsti maður og kunnum við fljótt að meta hversu góður hann var við móður okkar. Tíminn á Hvammstanga var að mörgu leyti ágætur, oft gat verið mikið fjör sem ekki þarf að koma á óvart á heimili með þrjá stráka. Eyfi tók stjúpföðurhlutverkið frá fyrstu stundu alvarlega og án hiks. Það gerði það að verkum að nærvera hans veitti öryggi og gaf vissan fyrirsjáanleika. Það varð fljótt ljóst að hann hefði hug á því að vera hjá okkur til lengri tíma. Áhugi Eyfa á hestamennsku var mikill og fór ekki fram hjá neinum sem hann þekktu. Sama má segja um Spaugstofuna sem hann hafði alla tíð mjög gaman af ásamt fjölbreyttu íslensku sjónvarpsefni. Þessum áhuga deildum við bræðurnir með honum, þá sérstaklega yngri bræðurnir. Átti Eyfi það til að herma eftir uppáhaldskarakterunum sínum úr Spaugstofunni og hlaust oft af því mikið gaman.
Árið 1991 flytjum við svo á Fögrubrekku í Hrútafirðinum. Þar var ekki búskapur svo Eyfi og mamma unnu við það sem til féll af störfum. Nóg var af plássi á Fögrubrekku og átti Eyfi marga hesta, þar af nokkra sem voru vel tamdir. Höfðum við búið í sveit áður og því ekki óvanir. Það er mér mjög minnisstætt þegar við Eyfi fórum saman til Ólafsvíkur að vinna við fiskvinnslu og bjuggum þar saman í verbúð. Eyvi hafði gaman af hljómsveitinni Creedence Clearwater Revival og ég einnig. Var oft spilað hátt í bílnum til og frá Ólafsvík og ekki ósjaldan sungið með. Kynntist ég honum betur í þessum ferðum okkar og veru í Ólafsvík. Það var auðvelt að ræða við hann og gaf hann sér tíma til að hlusta á hinar ýmsu hugmyndir unglingsins, tilbúinn að leiðbeina og aðstoða ef honum fannst þurfa. Þegar ég hóf nám í framhaldsskóla var ég minna á Fögrubrekku en kom þó ávallt heima í fríum. Vitneskjan um að öllum liði vel var dýrmæt. Gerðu þau vel í því að styðja mig við skólagöngu mína, þrátt fyrir oft erfiðan fjárhag. Það má segja að lífið hjá fjölskyldunni á Fögrubrekku hafi verið ágætt og margar góðar minningar urðu til. Man ég sérstaklega eftir fertugsafmæli mömmu minnar árið 1994, hvað þau Eyfi voru glöð og ánægð. Þeim leið vel saman og gagnkvæm væntumþykja leyndi sér ekki. Árin sem á eftir komu báru í sér mikla sorg og mikinn harm fyrir stjúpa minn og fleiri. Eyfi varð, að ég tel, aldrei samur aftur. Vorum við í sambandi næstu árin en samt of sjaldan. Í seinni tíð var þó komið á meira reglulegt samband og gott að geta heimsótt hann með konu og börn og þannig skapað nýjar minningar.
Það hryggir mig mikið að stjúpi minn sé fallinn frá. Þar var á ferðinni hjartahlýr og góður maður. Unglingurinn sem hann fékk upp í hendurnar fyrir svo mörgum árum síðan hefur í gegnum lífsreynslu og þroska áunnið sér getuna til að sjá það betur hversu vel það átti við Eyfa að eiga og ala upp börn. Síðasta sumar hitti ég stjúpa minn tvisvar, fyrra skiptið með fjölskyldu og hið seinna einn. Áttum við góðar stundir saman. Keyrðum við meðal annars á Hvammstanga þar sem ég ætlaði að hitta gamla bekkjarfélaga. Stoppuðum og skoðuðum vinnusvæði við Laugarbakka þar sem Eyfi vann. Þar vann hann um sumarið hjá Guðmundi bróður sínum og þótti honum gaman að segja frá áformum og þeim tækjakosti sem notast var við. Ekki fór leynt hversu stoltur hann var af bróður sínum. Í þessari ferð gátum við rætt um liðna tíma á einlægan og hispurslausan hátt. Opnað okkur um hugsanir og tilfinningar og rætt um þær mörgu minningar sem við áttum saman. Það veitir mér huggun nú að hafa átt þennan tíma með honum stjúpa mínum á sama tíma og ég verð leiður við þá tilhugsun að við ekki fáum meiri tíma saman næstu árin. Við vorum búnir að hugsa okkur enn meiri samskipti og hafði ég áhuga á því að hann gæti fylgst með stelpunum mínum vaxa. Það er með sorg og söknuði sem ég kveð þig, elsku Eyfi minn.
Svavar Már Einarsson.