Svavar Cesar Kristmundsson fæddist á Ísafirði 2. ágúst 1947. Hann lést á Landspítalanum 2. febrúar 2016.
Foreldrar hans voru Kristmundur Breiðfjörð Bjarnason bifreiðastjóri frá Ísafirði, f. 24. janúar 1914, d. 17. júní 2001, og Kristín Bjarney Ólafsdóttir ljósmóðir, f. 21. febrúar 1922, d. 2. september 1998. Systur hans eru Ólöf Guðmunda, f. 12. ágúst 1943, og Kristín Breiðfjörð, f. 18. september 1944.
Svavar Cesar kvæntist 26. desember 1967 á Ísafirði Guðnýju Helgu Kristjánsdóttur frá Húsavík, f. 1. mars 1947. Foreldrar hennar voru Kristján Gunnar Óskarsson vélstjóri frá Krossanesi, f. 25. september 1925, d. 7. nóvember 2014, og Guðrún Héðinsdóttir húsmóðir frá Húsavík, f. 20. janúar 1926, d. 14. apríl 2002. Börn Svavars Cesars og Guðnýjar Helgu eru: 1) Guðrún Kristín, f. 16.8. 1967, maki Ragnar Björn Hjaltested, f. 22.3. 1963, búsett í Reykjavík. Synir þeirra eru Svavar Cesar, f. 1992, Stefán Bjarni, f. 1997, Sverrir Páll, f. 2000, og Sindri Björn, f. 2004. 2) Birgitta Bjarney, f. 26.6. 1972, maki Geir Ívarsson, f. 14.3. 1969, búsett á Húsavík. Dætur þeirra eru Kristný Ósk, f. 2000, Guðrún Þóra, f. 2004, og Guðný Helga, f. 2010. 3) Kristján Breiðfjörð, f. 16.10. 1981, sambýliskona Sólveig Anna Þorvaldsdóttir, f. 8.4. 1981, búsett í Tromsø, Noregi. Synir þeirra eru Þorvaldur Kári, f. 2009, og Bjarki Rafn, f. 2015.
Svavar Cesar var virkur í íþrótta- og skátastarfi á Ísafirði. Vann þar við löndun og sjómennsku. Lærði bifvélavirkjun á Ísafirði og vélstjórn á Akureyri. Fluttist til Húsavíkur 1971 þar sem hann starfaði sem bifvélavirki og vélstjóri ásamt sjómennsku og vöruflutningum. Seinna stofnaði hann vöruflutningafyrirtæki þar sem hann starfaði lengst af.
Útför Svavar Cesars fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 13. febrúar 2016, klukkan 14.

Það er sárt að horfa á eftir tengdaföður sínum, Svavari Cesar, hann er horfinn á braut og kemur ekki aftur en minningin lifir.

Það er minningin sem gerir okkur þetta aðeins auðveldara fyrir og ekki skemma fyrir sögurnar sem maður hefur heyrt af honum undanfarna daga.

Svavar átti fjölda vina um allt land og bera allir honum söguna vel, það fer ekki framhjá manni að Svavar átti fjölda aðdáenda, það hafa komið kveðjur frá öllum landshlutum.
Ég kynntist Svavari í maí 1989 ekki löngu eftir að hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki þar sem unnið var myrkrana milli, aldrei slegið slöku við, það var eiginlega hans stíll, ég sjálfur sem vann, að ég taldi, myrkrana milli sem var hjóm eitt miðað við vinnuframlag Svavars. Ég skildi oft ekki hvernig hann fór að þessu, hvenær svaf hann hugsaði ég oft.
Þær voru tíðar ferðir okkar Guðrúnar til Húsavíkur á þessu tímabili og var það eiginlega þannig að Svavar var aldrei heima, hann var að vinna öllum stundum, hann lagði allt í fyrirtæki sitt.
Eini galli Svavars var að hann var alltof góðviljaður sem rekstraraðili það var nefnilega þannig að oft þegar fjölskyldan var að skrifa og senda út gíróseðla var hann mættur til að sortera út hverja ætti að rukka og hverja ekki. Það var nefnilega þannig að það mátti alls ekki rukka þá sem áttu erfitt þá og þá stundina, skipti þá engu máli hvort um fyrirtæki eða einstaklinga var að ræða.

Vestfirðingur og Ísfirðingur var Svavar í húð og hár og sagði hann oft að hann væri gestur á Húsavík.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna var ég inntur eftir því hverra manna ég væri og hvort ég hefði verið til sjós. Þegar ég gat frætt Svavar um það að ég ætti ættir að rekja í Dalasýslur og hefði farið eina ferð sem messagutti á Skógarfossi  þá fékk ég grænt ljós, allt í gamni sagt að sjálfsögðu.

Það var oft notaður svartur húmor hjá okkur þegar tal barst að Vestfjörðum.
Ég kom með eitthvað neikvætt um Vestfirði, holótta vegi, erfið flugskilyrði og sólarleysi en alltaf kom sama svarið, það er allt mest og best á Vestfjörðum. Og Ísafjörður, þau voru mörg sterk lýsingarorðin sem féllu um bæinn þann.
Vestfirðir voru í huga Svavars nafli alheimsins, hann gleymdi aldri uppruna sínum.
Á tímabili var það þannig hjá honum að hann lét ekki skerða hár sitt nema hjá einhverjum sérstökum ísfirskum rakara, fyrir vestan að sjálfsögðu, sem varð til þess að hann var kominn til baka á hippatímabilið á nokkrum stundum.

Eitt sinn söguðu strákarnir: Afi við skulum bara klippa þig! Viti menn jafnokar ísfirska rakarans voru mættir og afinn fékk að sjálfsögðu staðlaða bursta klippingu.

Það var eins með Svavar og aðra afa, honum þótti alveg óstjórnlega vænt um barnabörn sín og var virðingin gagnkvæm. Ekki spillti fyrir að fá að fara með afa í flutningabílnum og voru ferðirnar nokkrar sem strákarnir mínir fóru með afa sínum.
Mér er minnisstætt þegar Svavar yngri, þá tveggja ára, hoppaði upp í bílinn hjá afa sínum í Reykjavík og varð ekki hnikað, hann ætlaði með afa til Húsavíkur sem endaði með því að mamma hans flaug norður nokkrum dögum seinna til að ná í barnið.
Einnig þegar Sverrir Páll ætlaði að fara með honum 2-3 tíma ferð til Keflavíkur en endaði með því að hann var búinn að keyra landið þvert og endilangt með afa sínum og kom ekki heim fyrr en 14 dögum síðar.

Eins núna á haustmánuðum þegar þegar Svavar kom til Reykjavíkur í smá skoðun og ætlaði að dvelja í viku tíma, endaði sú dvöl í fimm vikna veru þar sem strákarnir voru ekki á því að hleypa afa sínum norður.
Svona var þetta alltaf hjá Svavari, hann gaf sig allan í verkefnið, hvort sem það var í starfi eða leik eða gangvart fjölskyldunni.

Það var virkilega athyglisvert hvað Svavar var víðlesinn, hann var hafsjór af fróðleik og þekkingu um sögu lands og þjóðar.

Allt sem snerist að báta- og skipaútgerð var Svavari mikið gleðiefni, hann vissi nánast allt um báta og skip þessa lands, hann barðist fyrir því meðal annars að varðveita einstaka báta eingöngu vegna uppruna þeirra, sumir þeirra voru meðal annars smíðaðir í Ísafirði.

Svavar lá ekki á skoðunum sínum og var rökfastur, hann var mikill jafnaðarmaður og þoldi ekki yfirgang og hroka.
Hann hafði sterkar pólitískar skoðanir sem féllu í misjafnan jarðveg, fyrirgreiðslupólitík  og fjölskyldutengsl innan hennar var eitur í huga hans enda hefur og eru þannig vinnubrögð að ganga að rekstri þessa þjóðfélags dauðu. Ég held að hann geti gengið hnakkreistur frá borði því hann varð aldrei keyptur.
Svavar slasaðist illa þegar hann var í sinni daglegu hjólaferð um götur Húsavíkur fyrir rúmum tveimur árum, féll við og lærbrotnaði, upp frá því tóku sig upp alvarlegri veikindi sem báru hann ofurliði 2. febrúar.
Alveg fram á síðustu stundu hélt Svavar reisn sinni og kvartaði aldrei, þvílíkur karakter.

Núna þegar komið er að leiðarlokum er hægt að hugga sig við það að minningin er svo sterk og greypt í huga manns að Svavar verður aldrei langt undan.

Hvíl í friði.



Ragnar Björn Hjaltested.

Elsku besti pabbi.
Mikið er leiðinlegt að skrifa þessi orð svona snemma á lífsleiðinni. Nú áttir þú loksins að fá að slappa af og njóta lífsins eftir að hafa sopið misjafna fjöruna og eytt kröftum í mikla vinnu gegnum tíðina. Þess í stað var bætt á þig nýju erfiðara verkefni, eins og þú sjálfur komst að orði, veikindi sem þú barðist hart við og tókst á við með miklu æðruleysi.


Þú spurðir eftir mér í tvígang morguninn sem ég var á leiðinni frá Noregi, því þú vissir að þetta var að fjara út. Ég var svo hræddur um að ná ekki til þín í tæka tíð og það var því viss sigur hjá okkur feðgum að hafa náð þessum fimm lokadögum saman. Öll fjölskyldan var komin til þín eða á leiðinni, og ég er nokkuð viss um að þú afþakkaðir sterkustu verkjalyfin í lokin því þú vildir vera með fulla meðvitund síðasta spölinn  máttir ekki missa af neinu. Alltaf svo harður, líka á síðustu metrunum.


Nú lítur maður yfir margar góðar liðnar minningar og standa sögurnar af þér sem litlum pjakki á Ísafirði upp úr. Þrjóskan þín kom snemma fram, og má nefna sagan þegar þú sem unglingur varst settur í fangaklefa fyrir að neita að hætta að spila fótbolta seint um kvöld og eins þegar þú, berfættur í fótbolta, gafst þig ekki þó allir meðspilendur voru fyrir löngu búnir að taka eftir að þú spilaðir með brotna tá. Tánna þurfti síðar að fjarlægja. Á skátafundaspjalli kom upp umræðan um hver í hópnum væri líklegastur til að vera fyrstur til byrja að drekka og allir bentu á Svavar Cesar. Aldrei var áfengi smakkað. Öll áramót voru því alltaf sérstök í barnsminningunni því þú réttlættir stórkaup þín á flugeldum vegna þess að peningum var aldrei eytt í áfengi.


Þú varst mikill prinsipp maður og fyrirleist spillingu og ættarelítupólitík og þó Framsóknarflokkurinn hafi verið lítilmagni í íslenskri pólitík síðustu ár þá var hann vægast sagt ekki hátt skrifaður hjá Svavari Cesari. Ef eitthvað kom þér á flug þá var það umræða um Framsóknarflokkinn. Allir sem þig þekktu vita hvað um ræðir og viðurnefni eins og Framsóknarhaugur fylgdu umræðuefninu oft á tíðum.


Þú varst sniðinn að þinni uppáhaldsbíómynd, Braveheart, en hana horfðir þú á tvisvar ef ekki þrisvar daginn sem þú sást hana fyrst. Þú sagðir alltaf að maður skyldi hjálpa minnimáttar og þeim sem veikir eru og varst mjög fornfús. Góðu gildi þín réðu alltaf ákvörðunum þínum og þú fylgdir hjartanu, sem í sumum tilfellum var ekki þinn besti hagur því stundum voru ekki full heilindi báðum megin borðs.


Þegar ég var lítill talaði ég oft um hvað við pabbi hefðum verið að gera. Við pabbi fórum margar ferðir í vörubílnum hans og ófáir bryggjurúntar voru farnir til að skoða bátana í höfninni. Þú vildir kynna mér fyrir báta- og bryggjumenningu, enda sannaðist áhugi þinn á bátum á lokadögunum þegar þú nefndir Bukh er við hlustuðum saman á bátahljóðin sem þú áttir á geisladisk. Tímaskynið þitt hvarf stundum á ferðalögum því undantekningalaust lentirðu á spjalli við fólk víða um land og því ófáar stundirnar sem ég beið eftir þér í bílnum. Flæðareyrarhátíðin á Hornströndum árið 1996 er í miklu uppáhaldi en þar urðum við feðgar vitni að trylltri náttúruupplifun þegar við gengum inn jökulfirðina í átt að Drangjökli og heyrðum ísinn bresta í fullkominni næturkyrrðinni.


Þú varst bóka- og sagnfræðigrúskari mikill og kunnátta þín um báta, pólitík og ættfræði virtist óendanleg. Allt var ritað niður í dagbækur dagsetningar, staðsetningar og klukkan hvað atburðir gerðust sama hversu ómerkilegir þeir voru. Bílferðir með þér voru uppspretta mikils fróðleiks því það var bókstaflega saga á hverjum kílómeter. Staðarhættir, atvik og sögu staðanna þekktir þú í þaula. Eftir að þú hættir að þræða landið á vörubíl var álag á textavarpssíðum 470-483 sem sýnir tölur yfir færð og umferð yfir vegi landsins. Oft hristi maður hausinn yfir þessu en þetta er minning sem mun lifa.

Þú varst aldrei langt í burtu þó svo að ég hafið búið erlendis síðustu ár. Það var alltaf stutt í skype-fund eða símtal og þú talaðir oft um að fá far með bát til Tromsö, því ekki varstu hrifinn af flugi. Þú varst með eindæmum barngóður og góður afi enda gantaðist þú með að gerast au-pair bara til að vera nær okkur. Íslandsferð okkar síðastliðið sumar mun lifa sterk í minningunni og lýsir ákveðni, þrjósku og ást þinni vel. Því ekki myndu margir krabbameinssjúkir afar á hækjum taka strætó frá Húsavík í Staðarskála, bíða þar í 10 klukkustundir og reyna að fara á puttanum á móti okkur þar sem við vorum að koma að vestan til þess eins að hitta okkur sem fyrst og sitja aftur í hjá strákunum á leið okkar norður á Húsavík. Þú varst einstakur.

Hvíldu í friði, elsku pabbi. Sjáumst í næsta stríði.

Kristján Breiðfjörð Svavarsson.