Sigurður Sigurðsson fæddist á Skálum á Langanesi 20. desember 1928. Hann lést á Skógarbrekku, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Húsavík, 8. febrúar 2016.
Foreldrar hans voru Svava Jóhannsdóttir, f. 6.4. 2010, d. 31.12. 2000, og Sigurður Hallsson, f. 12.4. 1902, d. 14.4. 1971. Þau slitu samvistum. Systkini Sigurðar eru: Guðbjörg Sigurðardóttir, látin, Hulda Björnsdóttir og Heiðar Halldórsson.
Árið 1962 giftist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni Hlín Einarsdóttur, f. 26.3. 1935. Börn Sigurðar og Hlínar eru: 1) Eiríkur, f. 1961, maki Guðrún Sæmundsdóttir og eiga þau fjórar dætur: a) Málfríður Anna, f. 1997. b) Hlín, f. 2000. c) Arna, f. 2002. d) Bryndís, f. 2005. 2) Arnar, f. 1963, maki Ásdís Brynja Jónsdóttir og eiga þau tvær dætur: a) Svava Hlín, f. 1987, maki Derri Paul Stephens, þeirra sonur er Arnar Derrick Stephens, f. 2014, b) Sólveig Ása, f. 1991, maki Davíð Þórólfsson. Dóttir þeirra er Kristín Heba, f. 2014. 3) Hafdís, f. 1968, maki Júlíus B. Benediktsson og eiga þau tvö börn: a) Elvar Smári, f. 1995. b) Emelía Karen, f. 2010. 4) Anna Íris, f. 1972, maki Sigmar Helgi Björgúlfsson og eiga þau þrjár dætur: a) Birta Hlín, f. 2001. b) Auður Embla, f. 2005. c) Júlía Ísold, f. 2009.
Sigurður fluttist 11 ára gamall til Húsavíkur. Þar lauk hann grunnskóla. Fiskimannapróf kláraði hann 1959 og árið 1965 útskrifaðist Sigurður frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Sjómennska var hans ævistarf og var hann farsæll og fengsæll skipstjóri á síldar- og loðnubátum. 73 ára gamall hætti Sigurður sínum skipstjórnarferli og hafði þá verið óslitið á sjó í 60 ár og þar af um hálfa öld sem skipstjóri. Þá snéri hann sér alfarið að trilluútgerðinni með bát sinn Vinur ÞH73. Sigurður veiktist árið 2013. Hann dvaldi á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Húsavík, til dauðadags.
Útför Sigurðar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 20. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.
Gamlir menn á Þórshöfn sögðu mér fyrir löngu að hann hefði strax reynst sérlega aflasæll sem kom sér vel því þröngt var í búi og lítið til að borða. Veikindi ungrar móður hans hjálpuðu ekki til þar.
Um ellefu ára aldur fluttu þau mæðginin með yngri systur hans, Guðbjörgu, til Húsavíkur en þar tók sama baslið við og fátæktin mikil. Eitt sinn var hann að reyna að afla í soðið með því að skjóta æðarfugl, sem var og er strangfriðaður, niðri í fjöru. Þegar hann var búinn að skjóta og sneri sér við stóð sjálfur sýslumaðurinn Júlíus Havsteen brúnaþungur að baki í fullum embættisskrúða, en sagði ekki orð og gekk burtu. Strákurinn þurfti ekki meiri leiðsögn eða refsingu og gerði þetta ekki aftur. Þetta hafði hann séð frændur sína í Kumblavík gera og salta æðarfugl í heilu ámurnar, sem var verulegur hluti þess að komast af og þaðan var hugmyndin komin.
Júlíus sýslumaður þekkti til heimilisins, vissi að þröngt var í búi og verðlaunaði sjálfsbjargarviðleitnina með því að líta undan.
Til að reyna að hafa eitthvað ofan í þau að éta fór pabbi að róa á árabáti með einsetukarli sem hét Páll Sigurpálsson. Páll reyndist honum vel og þetta skipti sköpum fyrir heimilið. Karlarnir í fjörunni fóru að kalla strákinn stýrimanninn hjá Palla, í gamansemi, sem svo styttist í stýrsa eða stýssa. Eftir það gekk pabbi alltaf undir þessu nafni á Húsavík og í flotanum. Siggi stýssi er kannski merkilegt uppnefni fyrir mann sem átti eftir að verða með mestu aflaskipstjórum þjóðarinnar, að vera kenndur við stýrimanninn, sem þó er mikil virðingarstaða um borð í fiskiskipi. En á Húsavík var það mikil íþrótt að reyna að finna uppnefni á allt og alla og menn uppnefndu jafnvel hundinn sinn.
Slarkið hélt á áfram á ýmsum bátum, þangað til nokkrir félagar á Húsavík ákváðu að fara saman í útgerð og keyptu bát sem hét Hrönn TH 36 og þótti nokkuð mikill bátur á þeim tíma. Það var stíft róið á Hrönn og einhverjar ákúrur fengu þeir fyrir að virða ekki daga sem öðrum þóttu heilagir.
Eftir nokkur ár á Hrönn þótti pabba kominn tími til að reyna sig á stærri vígvöllum og leiðin lá alltaf á stærri og stærri skip, en til þess þurfti réttindi. Hann fór því og aflaði sér skipstjórnarréttinda, fyrst á námskeiði á Neskaupstað en svo einn vetur í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, en fram að því hafði samanlögð skólaganga verið einn vetur í barnaskóla sem þó fór þannig fram að taskan var oftast falin undir steini á morgnana og frekar róið úr höfn á skektunni.
Á síldarárunum var pabbi að mestu á skipum Barðans h.f. sem var útgerð Stefáns og Þórs Péturssona, sem voru umsvifamiklir útgerðarmenn og síldarsaltendur. Þar af lengst á Dagfara ÞH 70. Í janúar 1973 bjargaði áhöfnin á Dagfara tveim skipshöfnum á sama sólarhringnum fyrir austan land sem er alveg einstakt í Íslandssögunni og vakti mikla athygli. Ég veit að pabba þótti mjög vænt um að hafa getað komið öllum þessum sjómönnum til bjargar og var stoltur af afrekinu, en vildi aldrei ræða það mikið.
Árið 1974 tók hann við skipstjórn á Gísla Árna RE 375 á móti útgerðarmanninum Eggerti Gíslasyni, en seinna Magnúsi Þorvaldssyni. Gísli Árni var eitt af frægustu aflaskipum flotans. Þar var hann í mörg ár, en endaði síðan ferilinn á nótaskipinu Erni KE 13 með löngu og einstaklega farsælu samstarfi við útgerðarmanninn Örn Erlingsson. Þegar pabbi hætti á Erninum var hann kominn á áttræðisaldur en ennþá í fullu fjöri.
Þegar ég var strákur var pabbi lítið heima og merkisatburðir í lífi fjölskyldunnar, svo sem fæðing barna og fleira fóru gjarnan fram hjá honum og úthöldin stóðu mánuðum saman. Fjölskyldulífið lenti því alfarið á herðum móður minnar, Hlínar Einarsdóttur, sem sinnti því með sóma í alla þessa áratugi, en pabbi var sem gestur á heimilinu.
Þegar hann byrjaði á Gísla Árna RE 375 breyttist samt margt því þá voru í fyrsta skipti á hans ferli tveir skipstjórar sem deildu stöðunni. Við því varð að bregðast og hann keypti trillu, Vin ÞH 73, sem reyndist mikið gæfuspor og á honum reri hann til fiskjar í fríum og eftir að hann hætti skipstjórn á stærri skipunum.
Eins og lesa má gafst lengst af ekki tími fyrir önnur áhugamál, en um miðjan aldur byrjaði hann samt að stunda laxveiðar af kappi, einkum í Laxá í Aðaldal, sem voru honum til mikillar ánægju. Einnig stundaði hann rjúpnaveiðar mikið þegar hann var í landi á rjúpnatíma.
Við feðgarnir vorum saman í mörgu þessu og ég byrjaði mjög ungur að fara með honum á sjó og í annan veiðiskap. Samstarfið gekk oftast vel en við vorum ekki alltaf sammála. Ég var ungur, metnaðarfullur og vitlaus en taldi mig samt kunna og vita flest betur. Pabbi þoldi það ekkert alltaf enda var hann sjálfur þekktur fyrir að vera pallrólegur og yfirvegaður, sama hvað á gekk. Pabbi var laginn og vinsæll skipstjóri sem þurfti ekki að beita kröftum og öskrum úr brúarglugganum við veiðarnar eins og áður tíðkaðist mikið, en hefur sem betur fer minnkað. Það var alltaf létt skipsrúm hjá honum þó mikið fiskaðist oft.
Lengst af var pabbi við mjög góða heilsu en eftir heilablæðingu fyrir nokkrum árum fór smám saman að halla undan fæti og síðustu mánuðir hafa verið erfiðir, en starfsfólk sjúkrahússins á Húsavík hefur annast hann af einstakri natni og þolinmæði. Ég held að í því ljósi hafi hann verið tilbúinn til að yfirgefa þetta líf núna og hefja í staðinn veiðar á hinum eilífu veiðilendum þar sem sólin aldrei sest. Þar mun veiðigyðjan alveg örugglega ekki bregðast honum frekar en fyrr, en spurning hvort veiðar eru ennþá frjálsar þar, sem mundi henta betur, eða hvort komið er kvótakerfi.
Ég valdi mér sama starfsvettvang og pabbi og er því við veiðar á fjarlægum miðum núna og kemst ekki í land til að fylgja honum síðustu skrefin. Það er erfitt en enginn hefði skilið það betur en pabbi.
Eiríkur Sigurðsson.