Barði Árnason fæddist í Hafliðakoti á Stokkseyri 25. febrúar 1932. Barði lést á Hjúkrunarheimilinu Eiri í Grafarvogi  23. janúar 2016.

Foreldrar Barða voru Árni Jóhannesson frá Sveinsströnd í Mývatnssveit, f. 19. nóvember 1890, d. 17. júní 1973, og Rebekka Jónsdóttir frá Víðikeri í Bárðardal, Bárðdælahreppi, f. 21. september 1890, d. 11. júlí 1962.

Systkini Barða Árnasonar voru Ásta Árnadóttir, f. 1918, d. 1991, Vikar Árnason, f. 1921, d. 1993, Atli Árnason, f. 1923, d. 1982, Þráinn Árnason, f. 1926, d. 2014, og Birgir Árnason, f. 1930. Birgir býr erlendis.

Fyrrverandi eiginkona Barða er Ingrid Maria Paulsen, f. 4. nóvember í Döubern í Þýskalandi 1936. Þau skildu 1999.

Foreldrar hennar voru doktor Jes Paulsen, f. 1897, d. 1983, og Helene Engel, f. 1905, d. 1937.

Börn Barða og Ingrid eru: Birgir Martin, f. 1961 og Heimir, f. 1963. Kona Birgis Martin er Marina Shulmina. Börn þeirra eru Tamara og Jakob. Kona Heimis er Sigríður Jónsdóttir. Börn þeirra eru Kolka og Urður.

Barði tók saman við Ethel M Bjarnasen árið 2000 en Ethel féll mjög sviplega frá 29. desember 2001.

Barði útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 með afbragðseinkunn og fékk námsstyrk til háskólanáms í þýsku.

Í fríum frá háskólanum í Hamborg vann Barði á sumrin sem handlangari í múraravinnu hjá Atla bróður sínum og einnig í póstdeildinni í Landsbanka Íslands.

Barði var aðstoðarbankastjóri alþjóðasviðs Landsbankans eftir að hafa stofnað deildina erlend viðskipti í Landsbankanum 1975. Barði starfaði í bankanum allan sinn starfsaldur, í 42 ár.

Barði var einn af stofnendum Wagner-félagsins á Íslandi.

Útför Barða fór fram í kyrrþey, að hans ósk 5. febrúar 2016.


Þá hefur sólsetur föður míns, Barða Árnasonar, hnigið niður við sjóndeildarhring í síðasta sinn. Kveðjustundin var friðsæl og falleg þegar hann flaug, vonandi á betri stað. Það er afskaplega sárt og erfitt að missa föður sinn og kveðja góðan mann sem var órjúfanlegur hluti tilveru minnar í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Pabbi var glæsilegur maður á velli, víðlesinn heimsborgari með mikla útgeislun og ávallt smekklegur. Hár og beinn, grannur, svipsterkur, hendur stórar og sterklegar, handtakið þétt. Vel gerður og einstaklega hjartahlýr maður. Betri föður er vart hægt að hugsa sér. Án hans væri ég ekki sá einstaklingur sem ég er, með veganesti  sem hefur  dugað vel og er enn eftir í skjóðunni.
Barði fæddist í Hafliðakoti á Stokkseyri 1932. Hafliðakot var torfbær með frekar rýra jörð og er nú kominn í eyði. Eflaust hefur verið erfitt fyrir þau Árna og Rebekku að láta alla enda ná saman með börnin sín sex og þrjár kýr, því takmarkaða vinnu var að fá á Stokkseyri.
Árni og Rebekka fluttu seinna í Nýja Kastala og þótti Nýi Kastali betri jörð, en henni fylgdu þó engar fastar engjar til að heyja svo þau heyjuðu á Foksengjum en Foksengjar tilheyrðu Letigarðinu. Það var fangelsið á Litla Hrauni kallað í daglegu tali á þeim tíma.
Árið 1944 fluttust þau Árni og Rebekka búferlum með börnin á Kambsveg í Reykjavík. Árni vann almenna verkamannavinnu í Reykjavík þegar einhverja vinnu var að fá, og þá helst við uppskipun við höfnina. Má því segja að pabbi Barði hafi ekki fæðst með gullskeið í munni. Barði útskrifaðist síðan sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 með afbragðseinkunn og fékk námsstyrkstyrk til háskólanáms í þýsku. Hann fer því til Hamborgar og leggur þar stund á þýsku og ensku en í Hamborg kynntist hann móður minni, Ingrid Maria Paulsen. Þau deildu saman miklum áhuga á óperum og klassískri tónlist og eitt fyrsta stefnumót þeirra var einmitt fimm klukkustunda tónverkið Parcifal með Richard nokkrum Wagner. Í fríum frá háskólanum í Hamborg vann Barði á sumrin sem handlangari í múraravinnu hjá Atla bróður sínum og  einnig í póstdeildinni í Landsbankanum.
Árið 1957 lauk Barði námi frá háskólanum í Hamborg og fluttu hann og Ingrid heim til Íslands. Ekki höfðu foreldrar mínir mikla peninga milli handanna á þessum tíma og því bjuggu þau fyrst á Kambsveginum hjá Árna, Rebekku og Ástu dóttur þeirra, sem bjó alla tíð með foreldrum sínum. Fljótlega eftir heimkomuna frá Hamborg fékk Barði fasta vinnu í Landsbankanum sem átti eftir að verða starfsvettvangur hans alla hans tíð. Einnig vann hann skamma stund sem leiðsögumaður þýskra ferðamanna. Barði og Ingrid gengu í hjónaband árið 1958 og bjuggu þá hjá Þráni bróður Barða og konu hans, henni Önnu, í kjallaraíbúð í Efstaleiti. Þau reyndust þeim Ingrid og Barða ætíð afar vel. Á þessum árum reyndu þau að spara eins og framast var unnt til að kaupa eigin íbúð, en á þessum árum var óðaverðbólga á Íslandi. Eitt dæmi um tíðarandann og útsjónarsemi pabba og mömmu var að flytja inn forláta bifreið, Ford Taunus. Ingrid var erlendur ríkisborgari og því þurfti ekki mat eða sérleyfi frá Bifreiðaverslun ríkisins til að fá formlegt leyfi fyrir slíkum innflutningi. Síðan var allt króm og prjál tínt af Tánusnum og hann gerður sem hrörlegastur í útliti til að villa um fyrir tollinum, því allar innfluttar bifreiðar voru metnar af matsmönnum í tollinum við heimkomu. Þessi viðskiptaflétta bankamannsins og konu hans var m.a. þess valdandi að árið 1960 var lítil blokkaríbúð keypt að Álfheimum 36.
1967 ræðst Barði með aðstoð bræðra sinna, Þráins og Atla, í að byggja raðhús að Móaflöt 25 í Garðahreppi og flytja þau þangað sama ár. Barði vann sig hægt og sígandi upp úr sumarstarfinu í póstdeildinni í  Landsbankanum og árið 1973 var honum falið að kynna sér erlend bankaviðskipti hjá Scandinavian Bank í London. Við fjölskyldan fluttum því þangað í rúmt ár og var það yndislegur tími.
Við heimkomu 1974  var fljótlega stofnuð deildin Erlend viðskipti í Landsbanka Íslands og varð Barði forstöðumaður deildarinnar. Þetta var fyrsta erlenda viðskiptadeildin í íslenskum banka og var Barði forstöðumaður þessarar deildar alla starfsævi sína. Flekklaus þýsku- og enskukunnátta ásamt góðri máltilfinningu og dómgreind pabba til að greina kjarnann frá hisminu hefur sannarlega átt sinn þátt í að koma á mörgum mikilvægum samböndum við erlenda kollega. Margir urðu hans persónulegu vinir sem aðstoðuðu við að veita Landsbankanum betri kjör en sumir miklu stærri bankar fengu aðgang að á þessum tíma.
Barði var afskaplega vel liðinn sem yfirmaður erlendra viðskipta í Landsbankanum. Hann var hreinn og beinn í samskiptum sínum við starfsfólk sitt og stétt og staða þeirra skipti litlu máli. Hann kom oft óbeðinn með gjafir handa starfsfólki sínu og var einstaklega bóngóður, svo eftir var tekið. Ef einhver starfsmaður bað hann að finna fyrir sig eitthvað sérstakt á fjölmörgum ferðum sínum til erlendra banka, þá var það auðsótt. Ein sterk æskuminning mín er þegar að  pabbi kom akandi heim úr ferðum sínum með einkabílstjóra með kaskeiti á höfði í gljáfægðum eðalvagni Landsbankans, þá hlupu margir krakkarnir á Móaflötinni með horið í nefinu á eftir vagninum og hrópuðu; Barði er að koma, Barði er að koma. Árið 1989 var Barða veitt stöðuhækkun og var hann eftir það aðstoðarbankastjóri alþjóðasviðs. Ég held ég fari rétt með að segja að pabbi sé sá eini eða einn af örfáum, sem náði svona langt innan bankans á tímum stjórnmálatilskipana og klíkuskapar í þessi störf, án þess að vera með og veifa flokksskírteini til réttra aðila, á réttum augnablikum. Og ekki var pabbi metnaðargjarn. En hann var réttsýnn og hreinn og beinn. Barði starfaði í Landsbanka Íslands í 42 ár. Pabbi hugsaði lítið um peninga eftir að vinnu lauk og  spekúleraði ekkert í fjármálamörkuðum eða ávaxtavöxtum. Hann hafði takmarkað álit á þeim sem söfnuðu fé og neyttu allra bragða til að fá væna tertusneið af óréttlátu gnægtarborði innherjaupplýsinga. Mér þótti þetta oft einkennilegt af bankamanni að vera en skildi það betur seinna. Pabba Barða fannst alltaf best að deila fé og hann styrkti nánast öll málefni sem hann var beðinn, eða ekki beðinn um.
Það fé sem pabbi fékk fyrir að sitja í stjórn bankans notaði hann til að fjárfesta í veiðileyfakaupum í Straumfjarðará, Svartá og Vatnsdalsá í Húnaþingi með okkur bræðrunum. Var það sannarlega hin allra besta fjárfesting!
Pabbi var formaður Lionsklúbbs Garðahrepps og lagði á stjórnartíð sinni mikið kapp á að félagsstarfið og fjáröflun væri með sem besta móti og var farið á dansskemmtanir og til útlanda til að þjappa mönnum og konum sem best saman. Var haft á orði að þegar Barði skipulagði ferð eða fjáröflun, þá væri ekkert vésen. Allt pottþétt.
Pabbi tók sannarlega virkan þátt í tónlistar-, veiði- og mótorhjólaáhuga mínum og hikaði ekki við að hringja beint í mótorhjólaverksmiðjur í Þýskalandi og Austurríki. Notaði hann þá lipra þýsku og enskukunnáttu sína til að landa slíkum dýrgripum í skúrinn á Móaflötina, þegar engin slík umboð voru til hérlendis og engin fordæmi að senda einungis eitt hjól í umboðslaust land. Allnokkrir félaga minna eiga honum slíkan gjörning að þakka.
Pabbi hafði ómældan áhuga á enska boltanum og ýmsir halda því fram að hann hafi verið stuðningsmaður Manchester United númer 1, a.m.k. í sveitarfélaginu Garðahreppi. Á laugardögum var heilög stund við gamla Telefunken lampaútvarpið. Langbylgjan var snurfusuð vandvirknislega fram og aftur með aðstoð vírahrúgu sem ferðaðist reglulega frá gólfi og upp í rjáfur og gegndi hlutverki háþróaðs loftnets, í leit að beinni útsendingu frá Old Traffold.
Pabbi hafði gaman að veiði og útivistinni sem henni fylgdi, en hann sá um skipulagningu Landsbankans á boðsferðum erlendra bankamanna í laxveiði á Íslandi og treysta þannig betur þau viðskiptasambönd sem hann og aðrir höfðu komið á. Mörg kvöldin fræddi hann gestina um Íslendingasögurnar og lá ekki á þeirri skoðun sinni að íslenskir sæfarar fundu Ameríku. Enda var pabbi víðlesinn maður. Einnig átti hann það til að þruma yfir gestunum ágæti tónskáldsins Richard Wagners hvort sem þeir vildu heyra það eða ekki. Og spilaði tóndæmi! Margir af þessum bankamönnun urðu nánir vinir pabba, og er gaman að segja frá því að nokkrir þeirra koma enn til veiða á Íslandi. Þessi veiðiáhugi hans smitaði okkur bræðurna og er pabbi  ástæða þess að ég hef unnið á sumrin sem leiðsögumaður í laxveiði frá 1984.  Uppáhalds veiðiá pabba var alla tíð Vatnsdalsá í Húnaþingi í Vatnsdal og þar leið honum vel, enda bæði áin og dalurinn allur einstök náttúrusmíð.
Aðaláhugamál pabba var þó alla tíð klassísk tónlist og átti hann mjög stórt safn bæði þekktra og óþekktra höfunda, í alls konar uppfærslum.  Hann hafði  sérstaklega gaman af því hin seinni ár að uppgötva lítt þekkt verk. Richard Wagner var í sérstöku uppáhaldi og pabbi hafði kynnt sér allt sem lá á prenti um þennan stórhuga tónlistarmeistara. Stóra verkið  hans Niflungahringurinn, sem tekur 16 klukkustunda í flutningi, var ósnertanlegt í huga pabba. Tristan und Isolde ásamt Parsifal voru einnig ekki langt undan. Voru þessi og önnur verk oft spiluð á fullum styrk í stofunni á Móaflötinni þannig að rúður svignuðu undan.
Pabbi var einn af stofnendum Wagner félagsins á Íslandi. Fóru hann og Ingrid nokkru sinnum  pílagrímaferðir til Bayreuth Festspielhaus þar sem heilt óperuhús var smíðað sérstaklega fyrir Wagner og hans tónlist.
Pabbi og mamma áttu saman gott hjónaband lengi, en með tíð og tíma skildi leiðir þeirra og árið 1999, eftir 42 ára hjónaband, ákváðu þau að skilja.
Barði tók saman við Ethel M. Bjarnasen en Ethel féll mjög sviplega frá 29. desember 2001. Gátu þau því ekki notið samvista lengi og tók fráfall Ethelar mjög á Barða. Má segja að pabbi hafi ekki orðið sami maður á eftir.
Síðustu árin voru pabba oft á tíðum erfið. Missir og hinir ýmsu sjúkdómar léku hann grátt. En pabbi var alltaf tær og skýr í höfðinu, allt fram í andlátið. Traustir vinir og við fjölskyldan heimsóttu hann eins og aðstæður leyfðu og gullmolarnir hans, Kolka, Urður,Tamara, og Jakob, veittu honum mikla gleði á allan hátt. Þau eiga öll hlýjar og yndislegar minningar um Barða, afa sinn, ásamt okkur hinum sem halda áfram lífsins veg með minningu pabba í koffortinu.
Pabbi Barði var hjartahlýr, bóngóður og  örlátur með eindæmum og mátti ekkert aumt sjá. Hann var mjög góður maður, yndislegur faðir, tengdafaðir og afi.


Hvíldu í friði, elsku besti pabbi minn.





Heimir Barðason.