Örn Jónsson fæddist í Reykjavík 11. maí 1952. Hann lést á heimili sínu 25. febrúar 2016.
Foreldrar Arnar voru Jón J. Haraldsson, f. 21.4. 1929, d. 3.5. 2009 og Guðrún S. Sigurðardóttir, f. 3.5. 1920, d. 29.1. 1996. Örn ólst upp hjá móðursystur sinni, Sigríði V. Sigurðardóttur ljósmóður, f. 17.1. 1922, d. 23.8. 2002, en hún tók hann að sér á fyrsta ári.
Systkini Arnar sammæðra eru Reynir Valgeirsson, f. 1943, og Þóra Valdís Valgeirsdóttir, f. 1946.
Systkini hans samfeðra eru Rósa Lillý, f. 1948, d. 1981, Gunnar, f. 1950, Guðrún, f. 1951, Þóra Berg, f. 1954, stúlka, f. 1956, d. 1957, Ingrid Herdís, f. 1959, Íris, f. 1962, d. 2012, Hrannar, f. 1963, Helga, f. 1964, og Auðunn, f. 1965.
Örn ólst upp á Þórsgötunni í Reykjavík en á sumrin var gjarnan farið austur á Seyðisfjörð þar sem hann dvaldi hjá móðurfjölskyldu sinni. Örn lagði ungur stund á sjómennsku, sem m.a. leiddi hann til Grundarfjarðar vorið 1971. Þar kynntist hann Sigríði Gísladóttur frá Grundarfirði, f. 17.7. 1955, og giftu þau sig 21. september 1974. Þau bjuggu fyrst á heimili foreldra Sigríðar, en síðar á Selfossi, þar sem Örn vann við pípulagnir, en hann hafði lagt stund á nám í greininni. Árið 1975 fluttu þau til Grundarfjarðar og byggðu sér hús að Sæbóli 38, þar sem þau bjuggu sér heimili.
Börn Arnar og Sigríðar eru: 1) Jóhann, f. 8.1. 1976, maki Margrét Lukka Brynjarsdóttir, f. 2.9. 1978. Börn þeirra eru Alexander, f. 2003, og Eva Karen, f. 2006. 2) Sigríður Guðbjörg, f. 10.11. 1979, maki Hinrik Konráðsson, f. 19.1. 1977. Synir þeirra eru Mikael Máni, f. 2007, og Sindri Snær, f. 2011. 3) Gísli Valur, f. 19.9. 1988, unnusta hans er Karen Ósk Þórisdóttir, f. 22.2. 1992.
Sjómennskan var ævistarf Arnar og öðlaðist hann skipstjórnarréttindi 1986. Hann var til sjós á fiskiskipum frá Grundarfirði, lengi á togaranum Runólfi SH, þá Fanneyju SH, og síðast á Farsæl SH samtals í tæpa tvo áratugi. Árið 2012 lét Örn gamlan draum rætast þegar hann keypti bátinn Val SH, í félagi við yngri son sinn. Bátinn gerði hann út á sumrin á strandveiðum.
Útför Arnar verður gerð frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 5. mars 2016, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag þegar ég er að kveðja litla bróður minn, finnst mér við hæfi að rifja upp hitt og þetta frá okkar ævi. Þó níu ára aldursmunur væri á okkur bræðrum kom okkur einstaklega vel saman svona yfirleitt.  Á unglingsárum mínum gat þó stundum fokið í mig við hann einkum þegar það sem ég taldi vera kæruleysi hans, olli mér ómældri aukafyrirhöfn. Eins og ósjaldan kom fyrir á síldarárunum en hann dvaldi hjá okkur austur á Seyðisfirði að sumrinu á þeim tíma. Ekki var annað betur fallið til að ergja skap mitt en að koma heim frá vinnu klukkan ellefu að kvöldi og vera þá sendur af stað til að leita á bryggjum og síldarplönum að Erni sem hafði gleymt sér í veiðigleði eða öðru skemmtilegu og alltaf var afsökunin sú sama: Það eru allir að vinna ennþá og ekki farið að dimma. Einhverju sinni þegar svona stóð á varð Örn var við mig og flýtti sér heim án þess að gera vart við sig, efalaust til að sleppa við skammir frá stóra bróður.  Þó nokkru seinna þegar ég kom heim argur og uppgefinn þá uppgötvaði ég að hann hafði komið heim á undan mér. Ég var æva reiður og hugðist leggja þá refsingu á litla bróður minn að þessar kúnstir yrðu aldrei endurteknar. Örn sá hvernig mér var innanbrjósts og lagði tafarlaust á flótta með mig á hælum sér. Öðru megin við stíginn heim að húsi okkar var vönduð girðing vel á annan meter á hæð. Viðskiptum okkar bræðra lauk með því að Örn sveiflaði sér yfir girðinguna og hvarf inn eftir Símstöðvarlóðinni. Nokkrum árum seinna þegar við vorum að rifja upp þennan atburð fór Örn allt í einu að brosa og sagði síðan: Þegar ég sá hvað þú varst orðinn ljótur á svipinn þá varð ég svo skelkaður að ég hefði áreiðanlega flogið yfir girðinguna þó að hún hefði verið helmingi hærri. Til marks um veiðigleði Arnar má geta þess að sem smástrákur á Bóndastöðum stundaði hann færaveiðar á Liverpolsbryggjunum og í Fjarðaránni með öðrum leikfélögum. Og hann setti ekki smámuni fyrir sig þegar veiðihugurinn greip hann. Einhverju sinni þegar hann kom í hádegismat og var mikið að flýta sér þá verður Sigríður móðursystir okkar vör við að eitthvað kvikt virðist vera að skríða upp úr buxnavasa hans. Henni varð að vonum illa brugðið, en hún var einstök snyrtimanneskja. Hún spurði því fósturson sinn nokkuð höstug: Hvað hann væri eiginlega með í vösunum.  Og Örn svaraði af bragði: Þetta er bara beitan okkar við erum að fara út á bryggju strax eftir matinn og fundum ekki dós undir ormana.  Þó að við bræður værum ólíkir í sjón þá áttum við margt sameiginlegt. Meðal þess var ósvikin ást okkar á brúnum svamptertum með þykku súkkulaðikremi. Einmitt svona voru terturnar sem Sigga frænka bakaði stundum þegar hún átti von á góðum gestum en þann vetrarpart sem ég bjó hjá þeim á Þórsgötunni fór hún að verða vör við áberandi rýrnun á gestatertunum.  Svo rammt kvað að þessum vanhöldum að stundum var ekki nema tæplega fjórði partur eftir af tertunni þegar til hennar átti að taka. Sigga tók því það ráð að baka tvær tertur og geymdi þær í þar til gerðum blikkílátum á hillu innst inni í súðarskáp í eldhúsinu. Það þurfti þó nokkra varkárni ásamt lipurð til að nálgast  tertuboxin á þessum stað. En einhvernvegin uppgötvuðum við bræðurnir um svipað leyti þennan nýja geymslustað og nældum okkur í tertusneið við og við úr sitt hvoru boxinu, með þeim afleiðingum að þegar gestaboð Siggu átti að fara fram á sunnudagseftirmiðdegi, þá reyndust bæði boxin galtóm. Aldrei gleymist mér vanþóknunarsvipurinn á móðursystur minni þegar hún uppgötvaði þetta og ekki síður skömmustu svipurinn á okkur bræðrum þar sem við sátum í öðrum enda eldhússins og fylgdumst með vinkonum Siggu þar sem þær nörtuðu af stakri kurteisi í súkkulaðihúðað tekex með kaffinu.

Örn var hrifnæmur sem krakki en vildi þó prófa hlutina sjálfur til öryggis. Eftir að hann, sex ára gamall, hafði séð teiknimynd með Stjána Bláa í Austurbæjarbíó þá krafðist hann þess af Siggu að hún keypti spínat handa honum því að nú ætlaði hann að verða sterkastur allra stráka við Þórsgötuna. Þegar spínatið kom þótti Erni það vera rammt á bragðið og ólystugt, en mikið skal til mikils vinna og að endingu lauk hann við skammtinn, en þar sem hann var ekki alveg viss um hvort kraftarnir væru komnir í raun og veru, þá bauð hann fósturmóður sinni í glímu á eldhúsgólfinu svona til að ganga úr skugga um virknina. Með svona hugdettum vakti Örn gleði hjá fólkinu sínu alveg frá barnsaldri. Seinna átti þetta glaða skap ásamt vinnusemi og vandvirkni eftir að gera hann að einhverjum besta vinnufélaga sem ég hef átt.

Strax á unglingsárum fór Örn að stunda sjómennsku á fiskibátum, sá atvinnuvegur leiddi hann fljótlega til Grundarfjarðar þar sem hann kynntist Sigríði Gísladóttur, stofnaði fjölskyldu, byggði þeim laglegt íbúðarhús og settist þar að til frambúðar. Ævistarf Arnar varð sjómennska á fiskibátum og togara sem gerðir voru út frá Grundarfirði og er þetta starfsval meðal annars til marks um þrautseigju hans því hann kvaldist af sjóveiki meira og minna mörg fyrstu árin. En Örn var aldrei á því að gefast upp við það sem hann ætlaði sér og það sýndi sig ljóslega þegar hann tók upp baráttuna við þann illvíga sjúkdóm sem nú hefur haft yfirhöndina. Í þeirri baráttu var öllum vopnum beitt, alþekktri þrjósku, hörku við sjálfan sig ásamt yfirveguðu mati á aðstæðum. Að öllum öðrum ólöstuðum var Sigga ötulasti og óeigingjarnasti liðsmaður hans, samhent háðu þau þetta stríð til síðasta augnabliks með styrk frá börnum sínum. Þegar nú er komið að kveðjustund þá er það huggun harmi gegn að hér er kvaddur góður drengur sem alltaf var samkvæmur sjálfum sér í daglegu lífi. Ég færi Siggu, Jóhanni, Sirrý og Gísla mínar innilegustu samúðarkveðjur en jafnframt vil ég vekja athygli á að Örn mun lifa áfram í góðum minningum okkar sem vorum svo lánsöm að þekkja hann.


Reynir.