Jónína J. Melsteð fæddist 2. júní 1929 á Langholtsparti í Flóa. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 8. mars 2016.
Foreldrar hennar voru Jón Steinn Bjarnason Melsteð, f. 8. janúar 1891, d. 22. janúar 1951, og Gestrún Markúsdóttir, f. 26. október 1892, d. 19. júlí 1958. Bróðir Jónínu var Bogi, f. 10. október 1930, d. 15. febrúar 2015, kona hans var Kristín Bjarnadóttir, f. 6. október 1936, búsett á S-Brúnavöllum, og uppeldisbróðir hennar var Hreiðar Jón Hallgeirsson, f. 27. desember 1942, en hann kom að Framnesi á fjórða aldursári. Hreiðar er kvæntur Margréti B. Bjarnadóttur, f. 14. júlí 1949, og eru þau búsett á Selfossi.
Dóttir Jónínu og Einars Sighvatssonar, f. 7. maí 1931, d. 11. mars 2007, er Guðrún Jóna Melsteð, f. 1970, í sambúð með Viðari Vilhjálmssyni, f. 1963. Börn þeirra eru: a) Eyberg Viðar Melsteð, f. 2002, og b) Sóley Ósk Melsteð, f. 2010. Þau eru búsett í Reykjavík. Fyrir átti Guðrún soninn Sigurjón Melsteð Brynjarsson, f. 1990, búsettur í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Barnsfaðir hennar er Brynjar Mikael Mikaelsson.
Jónína fluttist þriggja ára að Framnesi í Skeiðahreppi þar sem hún ólst síðan upp. Hún gekk í barnaskólann í Brautarholti og lauk þaðan barnaskólaprófi. Jónína tók þátt í búskapnum í Framnesi og eftir andlát föður síns bjó hún með móður sinni og bróður. Eftir að móðir hennar lést bjuggu Jónína og Bogi bróðir hennar félagsbúi í Framnesi til ársins 1963.
Fyrstu árin eftir að Jónína fluttist frá Framnesi vann hún á ýmsum stöðum sem ráðskona, m.a. Miklholti í Biskupstungum, Tryggvaskála á Selfossi og í Búrfelli, en árið 1970 flytur hún til Reykjavíkur. Vinnur þar við ýmis ráðskonustörf þar til hún byrjar hjá Gamla kompaníinu árið 1977. Síðan voru GK hurðir stofnaðar út úr Gamla kompaníinu og þeir sem unnu þar voru allir eigendur í fyrirtækinu. Þar vann Jónína til starfsloka.
Jónína var mikil hannyrðakona og eftir að hún hætti vinnu tók hún virkan þátt í starfi eldriborgara í Gerðubergi.
Árið 1984 kaupir hún íbúð í Torfufelli og bjó þar ætíð síðan þar til tvö síðustu árin sem hún dvaldi í Skógarbæ.
Útför Jónínu fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 17. mars 2016, klukkan 13.

Nú hefur föðursystir mín hún Jónína J. Melsteð eða Nína eins og hún var ávallt kölluð kvatt okkur og fjársjóður minninganna leita á hugann. Ein af fyrstu minningum mínum um Nínu var þegar hún kom heim að SBrúnavöllum en þá var ég u.þ.b. 5 ára, hvað ég var hrædd við hana - þorði ekki að líta framan í hana - faldi mig en þurfti þó að kíkja öðru hvoru á hana. Hún hafði lent í bílslysi nokkrum dögum áður og hafði víst sloppið ótrúlega vel þrátt fyrir svört og mikil glóðaraugu sem höfðu þau áhrif að ég varð dauðhrædd en ég man að Nína hafði gaman af þessum viðbrögðum mínum.
Nína var glaðvær að eðlisfari, hugsaði vel um útlitið og passaði sig á að borða ekki of mikið. Það mátti aldrei hafa neitt fyrir henni og við gerðum stundum grín að því að hún gæti borðað okkur út á gaddinn ef hún fengi sér meira. Hún var sjálf höfðingi heim að sækja, veitingarnar ekki af skornum skammti og aldrei var nóg borðað.

Nína eignaðist eina dóttur, Guðrúnu Jónu, sem hún ól upp ein og fyrstu árin hennar reyndi hún að haga vinnu sinni þannig að hún gæti haft hana með sér í vinnunni þar sem ekki voru dagmömmur eða leikskólar á þeim tíma. Þær mæðgur voru miklir félagar og síðar þegar Guðrún Jóna eignaðist börn þá voru þau sólargeislar ömmu sinnar. Nína var vakin og sofin yfir velferð þeirra og duglega að passa þau.

Þó svo að Nína byggi mestan part ævinnar í Reykjavík þá átti sveitin hennar alltaf stóran sess í huga hennar. Á sínum yngri árum hafði Nína gaman af skepnum og átti hesta sér til skemmtunar og yndisauka og hún fylgdist alltaf vel með hestunum mínum þó svo að hún hafi verið hætt að fara á bak. Oft bauð ég henni á bak hér áður fyrr og hún afþakkaði aldrei boðið heldur svaraði með því að segja: Ekki núna. Hún sótti alla tíð mikið austur til að heimsækja og rækta sambandið við sitt fólk og vinkonur í sveitinni. Staldraði oft stutt við því hún þurfti að koma víða við. Hún átti alltaf bíl og hafði gaman af að keyra. Var dugleg að skreppa það sem hana langaði hverju sinni, hvort sem það voru dagsferðir um nærumhverfið eða lengri ferðir á sumrin með dóttur sinni henni Guðrúnu Jónu. Einnig fór hún í nokkrar utanlandsferðir og fórum við eina ferð saman til æskuvinkonu hennar, Svölu í Flórída. Nínu fannst það mikil upplifun að sjá þennan framandi heim vinkonu sinnar, sem bar okkur á höndum sér þann tíma sem við dvöldum hjá henni en ekki hafði Nína samt áhuga á að búa þarna í landi sólar og hita.

Nína var lagin í höndunum og hafði gaman af ýmiss konar handavinnu, hún saumaði mikið og prjónaði lopapeysur í mörg ár til að drýgja tekjurnar. Þegar Nína hætti að vinna tók hún þátt í eldri borgarastarfinu í Gerðubergi og þar lærði hún m.a. að nota perlur og bjó til ótal myndir, skraut, dúka og fleira. Alltaf var hún að keppast við og klára enda einstaklega kappsöm í því sem hún tók sér fyrir hendur. Stundum var svo mikið að gera hjá henni að það þurfti að nánast að panta tíma til að fá viðtal.

Nína var einstaklega bóngóð og þegar ég byrjaði að vinna hér í Reykjavík þá hjálpaði hún mér oft með strákana mína ef þeir voru lasnir eða voru í fríi í skólanum.

Síðustu tvö ár Nínu voru erfið, heilsan dvínaði og minnið gaf sig og hún var hætt að geta sinnt handavinnunni eins og áður var. Hún var ekki sátt við að þurfa að flytja að heiman og þrátt fyrir minnisleysið var hugurinn alltaf í sveitinni og í Framnesi. Oft spurði hún mig hvort ég hefði komið ríðandi eða hvar ég geymdi hestinn á meðan ég staldrað við hjá henni. Eitt sinn hafði Nína dottið og rekið sig á eitthvað sem enginn vissi hvað var og fékk hún glóðarauga á bæði eins og forðum daga. Þegar hún var innt eftir því hvað hafði komið fyrir stóð ekki á svari: Hornið á Vörðufelli.

Síðasta árið átti Nína orðið erfitt með að tjá sig og þá dró ég oft upp símann og átti með henni góðar stundir við að skoða myndirnar í  símanum. Uppáhaldsmyndirnar hennar voru af hestunum mínum og af kindunum hennar mömmu, sérstaklega myndirnar af golsóttu gimbrunum hennar. Að jafnaði töluðum við saman einu sinni til tvisvar í viku og byrjuðu þessi símtöl þegar ég var við nám hér í Reykjavík 1983. Þá var ekki talað saman í 5 mínútur heldur í 50 mínútur um allt milli himins og jarðar. Ef samtölin urðu eitthvað í styttra lagi höfðu heimilismenn mínir orð á því. Þetta símamal okkar Nínu hélst allt til þess að heilsa hennar þvarr og hún fluttist á hjúkrunarheimili. Nú verða símtölin ekki fleiri að sinni né heimsóknir í þessari jarðvist og komið að ferðalokum. Með þakklæti fyrir samfylgdina kveð ég Nínu.
Við heyrumst.
Helga Bogadóttir

Helga Bogadóttir