Sigríður María Elísabet Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl 1923. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 19. mars 2016
Foreldrar hennar voru Bjarný Málfríður Jónsdóttir frá Fögrueyri við Fáskrúðsfjörð, f. 29. ágúst1896, d. 7. nóvember 2003, og Halldór Kiljan Laxness frá Laxnesi, Mosfellssveit, f. 23. apríl 1902, d. 8. febrúar 1998. Hálfbróðir samfeðra er Einar Laxness, f. 9. ágúst 1931. Hálfsystur samfeðra eru Sigríður, f. 26. maí 1951, og Guðný, f. 23. janúar 1954.
María giftist 30. desember 1944 Ragnari Ámunda Bjarnasyni járnsmið, f. 3. apríl 1917, d. 5. mars 1948. Foreldrar hans voru Bjarni Ámundarson frá Bjólu í Holtum, f. 13. apríl 1886, d. 20. apríl 1935, og Magnea Ingibjörg Magnúsdóttir frá Hólmfastskoti, Innri-Njarðvík, f. 4. júní 1894, d. 29. júní 1983. Börn þeirra eru: 1) Bjarni Már byggingatæknifræðingur, f. 5.5. 1945, sambýliskona Guðrún Fjóla Gränz viðskiptafræðingur, f. 18.2. 1949. 2) Ragna María framkvæmdastjóri, f. 12.1. 1948, eiginmaður Guðmundur Þ. Harðarson íþróttakennari, f. 10.2. 1946. Börn þeirra eru: a) Ragnar íþróttakennari, f. 2.4. 1968, b) Þórunn Kristín lyfjafræðingur, f. 28.5. 1969, c) Hörður flugstjóri, f. 10.2. 1974, og d) María Björk kvikmyndagerðarkona, f. 24.5. 1982.
María giftist 4. apríl 1954 Kolbeini Karli Guðmundi Jónssyni véltæknifræðingi, f. 30. ágúst 1925, d. 7. september 1975. Foreldrar hans voru Jón Bergsteinsson, f. 7. júní 1876 í Garðasókn, Gullbringusýslu, d. 6. janúar 1960, og Kristín Andrésdóttir f. 16. desember 1885 í Hafnarfirði, d. 26. maí 1953. Synir þeirra eru: 1) Halldór geðlæknir, f. 21.4. 1955, eiginkona Hildur Petersen framkvæmdastjóri, f. 2.8. 1955. Börn þeirra eru: a) Helga Huld læknir, f. 21.2. 1984, og b) Kolbeinn læknir, f. 23.12. 1987. 2) Kristinn viðskiptafræðingur, f. 3.4. 1957, eiginkona Gunnþórunn Geirsdóttir matráður, f. 20.9. 1955. Börn þeirra eru: a) Sigríður María læknanemi, f. 5.8. 1989, b) Kolbeinn viðskiptafræðingur, f. 27.11. 1990, c) Geir viðskiptafræðingur, f. 27.11. 1990. Börn Gunnþórunnar frá fyrra hjónabandi eru Auður lyfjatæknir, f. 27.12. 1978, og Haukur sálfræðingur, f. 14.4. 1975. 3) Þór húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur, f. 3.11. 1958, eiginkona Lucia Helena Jacques, f. 4.3. 1963. Dóttir þeirra er Irene María nemi, f. 26.3. 1998.
Barnabarnabörnin eru sex talsins.
María fæddist að Skólavörðustíg í Reykjavík og ólst upp hjá móður sinni, Málfríði Jónsdóttur, og móðurforeldrum. Hún gekk í Landakotsskóla og síðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur við Lindargötu, þá kallaður Ingimarsskóli, og lauk þaðan gagnfræðaprófi.
Eftir skólagöngu vann María ýmis störf, m.a. á saumastofu, við verslunarstörf og seinna á skrifstofu Vélsmiðjunnar Héðins í Reykjavík. Lengst af sinnti hún húsmóðurhlutverkinu meðan börnin voru ung. Árið 1971 stofnaði hún og rak Fatadeildina í Miðbæjarmarkaðnum í Reykjavík til ársins 1982. María bjó í Granaskjóli 17, Reykjavík, í 67 ár meðan heilsan leyfði, þar leið henni ávallt vel og átti þar traustar rætur.
Útför Maríu verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 31. mars 2016, klukkan 15.
Í móðurætt er María komin af Long ættinni sem er austan af fjörðum. Richard Long var fæddur 1783 og kom til Íslands rúmlega tvítugur og varð verslunarstjóri í Reyðarfjarðarkaupstað. Hann var breskur en ólst upp í Danmörku frá barnsaldri hjá héraðsdómara í Lemvig á Jótlandi.
Stór ættbogi er kominn frá Richard Long og mikið langlífi er í Long ættinni og ná konur í þeirri fjölskyldu gjarnan mjög háum aldri. María varð tæplega 93 ára og móðir hennar, Málfríður 107 ára en hún var næstelsti Íslendingurinn þegar hún dó. Þórunn Bjarnadóttir, móðir Málfríðar, varð rúmlega 101 árs gömul. Allar bjuggu þessar kjarnakonur í Granaskjóli 17 sem María byggði árið 1947 með Ragnari Á. Bjarnasyni fyrri manni sínum. Þegar ég kynntist Halldóri syni Maríu og seinni manns hennar Kolbeins Jónssonar heyrði ég fjölskyldusögurnar þar sem hver kynslóðin af annarri hlúði að þeirri eldri. Ekki væsti heldur um Halldór og systkini hans í faðmi ömmu sinnar Málfríðar. Hún dekraði við þá svo eftir var tekið. M.a. vöktu stífpússaðir skórnir athygli kennara í Melaskólanum. Heima við framreiddi hún sérrétta matseðla eftir dyntum barnanna.
Halldór Laxness var faðir Maríu og þó að hún hafi ekki alist upp með honum var ætíð gott samband á milli fjölskyldnanna. Sigríður móðir Halldórs bjó í Laxnesi þegar María fæddist henni var mjög annt um Maríu barnabarn sitt. Frá tveggja ára aldri bjó María í Laxnesi fjögur sumur þar til Sigríður móðir Halldórs lagði niður búskap og flutti til Reykjavíkur. Systur Halldórs Laxness, Sigríður og Helga litu á hana sem systur sína og góður vinskapur var með Maríu og föðurfólki hennar alla tíð. María var talin hafa svip af föður sínum og strax í upphafi var sagt að María hefði augun hans Dóra. María hafði tónlistarhæfileika og lærði á píanó hjá Helgu föðursystur sinni og börnin hennar líka. Helga Laxness var heimilisvinur hjá Maríu til æviloka. Ágætt samband átti María við Ingibjörgu fyrri konu Halldórs Laxness og son þeirra Einar Laxness og hans fjölskyldu. Seinni kona Halldórs, Auður Laxness hélt stórfjölskyldunni vel saman og voru þær góðar vinkonur. María hafði ávallt sæti við hægri hlið Halldórs föður síns í öllum þeim glæsilegu veislum í Gljúfrasteini sem Auður reiddi fram á afmælum og stórhátíðum. María bar líka mikinn hlýhug til systra sinna Sigríðar og Guðnýjar. Kolbeinn seinni maður Maríu og Halldór Laxness voru ágætir vinir og áttu góðar stundir saman og ræddu oft m.a. um praktísk viðhaldsmál Gljúfrasteins.
Sjálf átti María ekki alltaf auðvelda ævi og glímdi oft við erfiðar aðstæður. Hún missti tvo eiginmenn sína langt um aldur fram. Fyrri eiginmaður hennar Ragnar lést þegar hún var 24 ára gömul og Kolbein seinni eiginmann sinn missti hún þegar hún þegar hún var 52 ára. Þessi bitru örlög settu vissulega svip sinn á líf Maríu en hún spjaraði sig vel enda gefinn dugnaður og góð lund úr báðum ættum.
Hún hélt þétt utan um börnin sín fimm og öll barnabörnin og reyndist þeim firnavel því hún hafði hlýja nærveru og var fordómalaus og viðræðugóð. Verslunarstörf áttu líka vel við Maríu og hún naut sín mjög vel þegar hún rak Fatadeildina sína eigin verslun í Miðbæjarmarkaðnum í um áratug. Sú skemmtilega tilviljun átti sér stað í október 1981 að móðir mín Helga Petersen kom að versla hjá henni. Þær þekktust aðeins í sjón sem gamlir Reykvíkingar. En María sagði okkur að þarna hefðu þær tekið tal saman og farið svo vel á með þeim að það var eins og þær hefðu þekkst alla ævi og ættu eitthvað sameiginlegt. Það kom því á Maríu þegar hún heyrði viku síðar að Helga hefði látist skyndilega. Næsta sumar kynntumst við Halldór og þótti okkur afar vænt um þessa fallegu minningu.
María var mjög trúuð og fór reglulega í Hallgrímskirkju þar sem hún eignaðist góða vini og fann fyrir stuðningi og velvild. Séra Sigurður Pálsson og Jóhanna Möller kona hans voru góðir vinir hennar og samferðamenn. María hélt sérstaklega upp á einn sálm Hallgríms Péturssonar sem móður hennar Málfríður kenndi henni. Hún fór með þennan sálm reglulega og gjarnan þegar eitthvað bjátaði á alveg fram í andlátið.
Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má,
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna og sjá,
hryggðarmyrkrið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.
Okkur langar að þakka Maríu móður minni og tengdamóður fyrir langa og innihaldsríka samferð, við minnumst hennar með þakklæti og virðingu. Blessuð sé minning Maríu, megi hún hvíla í friði og Guð blessi hana
Hildur Petersen, Halldór Kolbeinsson.