Inga Hallveig Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 19. mars 1928. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. mars 2016.

Foreldrar Ingu voru Jón Kristmundsson, f. í Hjarðarnesi, Kjalarneshreppi 9. apríl 1886, og Magnea Tómasdóttir, f. í Hjarðarnesi, Kjalarneshreppi 2. júní 1889. Systkini Ingu voru Kristmundur, Gunnar Tómas, Halldóra, Jarþrúður Gréta og Auður Sigurbjörg og lifa Halldóra og Auður systur sína.

Inga giftist hinn 1. mars 1952 Erlendi Guðmundssyni, f. 5. apríl 1923, d. 12. janúar 2008. Foreldrar hans voru Guðmundur Jörgen Erlendsson og Guðrún Elín Finnbogadóttir. Inga og Erlendur eignuðust þrjú börn, átta barnabörn og barnabarnabörnin eru orðin tólf. Börn Ingu og Erlendar eru: 1) Gréta, f. 1.7. 1951, gift Hrafni Heiðari Oddssyni, f. 15.1. 1946. Sonur Grétu og Svavars Egilssonar, f. 19.5. 1949, er Erlendur, f. 1.6. 1972, kvæntur Auði Ýri Helgadóttur, f. 6.12. 1972. Þau eiga fjögur börn. Synir Grétu og Hrafns eru Tómas Oddur, f. 28.1. 1981, í sambúð með Margréti Helgu Jóhannsdóttur og eiga þau tvö börn, og Kristinn Friðrik, f. 19.9. 1984, í sambúð með Birtu Kristínu Helgadóttur og á hún einn son. 2) Jón Tómas, f. 7.12. 1952, kvæntur Guðrúnu Yrsu Sigurðardóttur, f. 30.9. 1951. Börn þeirra eru: a) Sigurður, f. 28.6. 1971, kvæntur Rebekku Gylfadóttur, f. 9.12. 1970, og eiga þau þrjú börn. b) Inga Dröfn, f. 12.7. 1978, gift Guðna Þ. Snorrasyni, f. 20.9. 1973 og eiga þau tvö börn. c) Gunnhildur, f. 24.4. 1985. 3) Guðmundur Rúnar, f. 26.4. 1954, í sambúð með Margréti H. Guðmundsdóttur, f. 16.11. 1955. Guðmundur var áður kvæntur Kolbrúnu Karlsdóttur, f. 7.8. 1959. Börn þeirra eru: a) Jóhanna Birna, f. 30.3. 1980, í sambúð með Erlingi Viðari Eggertssyni, f. 5.7. 1977, þau eiga tvö börn. b) Erlendur Ingi, f. 18.2. 1982.

Inga stundaði nám í hárgreiðslu við Iðnskólann í Reykjavík og vann þá á hárgreiðslustofu Kristínar Ingimundar í Kirkjuhvoli. Að námi loknu fór Inga til Kaupmannahafnar og vann þar við iðn sína í nokkurn tíma. Að Kaupmannahafnardvölinni lokinni kom Inga heim og hóf búskap á æskuheimili sínu, Eyvík á Grímsstaðaholti, með Erlendi og bjuggu þau þar allt til ársins 1968, en þá fluttu þau í nýbyggt hús sitt í Hjallabrekku 8, Kópavogi. Inga starfaði nokkur sumur í kringum 1960 á Sólheimum í Grímsnesi. Hún gekk í kvenfélag Kópavogs fljótlega eftir að hún flutti í Kópavog og starfaði þar í áratugi. Inga var í mörg ár í orlofsnefnd húsmæðra í Kópavogi. Hún starfaði einnig lengi við heimilishjálp í Kópavogi. Inga og Erlendur fluttust í Gullsmára 8 árið 1996 og bjó hún þar til dauðadags

Inga verður jarðsungin frá Digraneskirkju í dag, 31. mars 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Líf okkar allra er vandmeðfarið, og þau gildi er okkur finnst gefa því einhvern tilgang vilja oft týnast í fljóti tímans.  Nú er amma gengin á sporbaug eilífðarinnar, kona sem hefur verið fyrirmynd í svo mörgu, og hverrar gildi hafa með eigin þroska öðlast æ stærri sess og mótað lífsviðhorf einhvers sem eitt sinn var ungur maður.

Ef það væri leyfilegt þá hefði ég skilað inn krossgátu í stað minningargreinar, því fátt þótti ömmu skemmtilegra en að ráða slíkar gátur, enda orðsnilld ein af hennar mörgu kostum.  Ég man þegar ég fékk fyrst að taka þátt í að leysa krossgátu með henni.  Ég hef verið í kringum 6 ára aldur.  Ég bjó með foreldrum mínum á Húsavík.  Þau höfðu brugðið sér í bæjarferð og ömmu hafði verið dröslað norður til að líta eftir litla drengnum.  Ég, sem endranær, sat á gólfinu og föndraði við kubbana en amma sat í sófanum að ráða krossgátuna.  Hún var að vandræðast með þriggja stafa orð yfir bein og í rælni spyrði hún drenginn hvort hann vissi svarið.  Ég, ungur sem ég var, þekkti bara nafn á einu beini líkamans, rifbeininu, og sagði að sjálfsögðu rif.  Krossgátu dagsins var borgið!  Ég hef á tilfinningunni að eftir þetta hafi amma haldið að ég væri gæddur einhverjum einstökum gáfum, einhverri orðsnilld, því í næstum hverri heimsókn til hennar eftir þetta fórum við, fyrst að hennar frumkvæði, að setja saman allskyns sögur; sögur hvar öll orð byrjuðu á sama bókstaf, sögur hvar næsta orð byrjaði á sama staf og það síðasta endaði, sögur hvar lengd orða innan setningar jókst alltaf um einn staf, og svo mætti lengi telja.  Amma safnaði þessu öllu saman í bækur, og væntanlega eru þær enn til.  Orðsnilldina hafði ég ekki, enda var þetta með rifbeinin algjörlega byggt á vanþekkingu minni á öðrum beinanöfnum mannslíkamans, en þjálfunin sem ég fékk í þessum heimsóknum til ömmu hefur nýst mér þokkalega í gegnum tíðina.

Mörg minningarbrot eru til sem myndu fylla lárétta og lóðrétta dálka krossgátunnar.  Að sjálfsögðu myndu Eyvík og Hjallabrekka koma við sögu, eins rauða trérólan sem við öll barnabörnin fengum að dingla okkur í.  Nokkrar salíbunur í henni gátu breytt sorg í gleði, súru í sætt.  Margar aðrar minningar tengdar Hjallabrekkunni myndu fylla dálkana, hjónabandssælan sem alltaf var geymd í ofninum kæmi við sögu, píanóið í stofunni, sem glamrað var á í tíma og ótíma. Garðurinn og gróðurskálinn yrðu að fá að vera með, enda ekki fáir dagarnir sem fóru í að viðhalda ræktuninni. Annarri ræktun man ég líka eftir sem ekki má gleymast, en það er ræktun á sveppi sem mig minnir að sé ættaður frá Kákasus og átti seyðið af honum að vera allra meina bót, en sú ræktun yfirtók allan kjallarann og sinnti amma henni af sömu alúð og garðinum. Fyrst við erum komin niður í kjallara þá verð ég líka að bæta húsdraugnum í safnið. Í hluta af kjallaranum var óklárað rými og til að halda okkur krökkunum frá því tók amma upp á því að segja sögur, sem í hennar augum voru skemmtisögur, af húsdraugnum sem þar bjó.  Í mörg ár óttaðist ég þennan húsdraug og þótti mér meira að segja erfitt að skjótast niður í kjallara til að sækja ís eða gos þegar til hátíðabrigða átti að bjóða upp á slíkt.  Óttinn við að vekja húsdrauginn, lenda í klóm hans, varð oft löngun í sætindi yfirsterkari.  Ekki get ég sleppt því að nefna sjónvarpsherbergið, sem var miklu frekar bókaherbergi því aldrei var kveikt á sjónvarpinu svo ég muni eftir. Hins vegar var nóg til af bókum. Eitthvað segir mér að þetta hafi vakið hjá mér lestraráhuga og kveikt það dálæti sem ég hef á bókum enn í dag. Á tímabili gat ég næstum talið upp allar bækur ömmu og afa í þeirri röð sem þeim var raðað í hillurnar.

Eitthvað verður að týna til úr seinni tíð í þessa krossgátum eins og ótal margar sögustundir við eldhúsborðið, en amma kunni allra manna best að segja frá.   Fuglinn Polli, sem fékk kynleiðréttingu er hann komst af léttasta skeiði, er flutti inn til ömmu eftir að afi dó verður líka að fá að vera með.  Auðvitað yrði svo að minnast á afa þarna líka, því samband þeirra einkenndist af ást og virðingu og ætti að vera fyrirmynd allra sem hyggjast festa ráð sitt.  Hún verður fegin að hitta hann að nýju.  Að endingu yrði að koma orðum sem einkenndu ömmu: Sagnagleði, kímni (alveg frá hvítri niður í sót-svarta), orðsnilld, hnyttni, kærleikur og ódrepandi áhugi á fólkinu sínu.  Ég átta mig á því eftir að hafa barið þetta saman að mér yfirsást að nefna áhuga hennar á að setja saman vísur, en þar naut hún sín ekki hvað síst.  Það hafði því kannski verið einnig við hæfi að hafa þessa grein í bundnu máli, kannski verið meira í hennar anda.

Að lokum fékkst hvíldina fegin
Nú fetar þú eilífðarveginn
Það ferðina styttir
er fjöldan þú hittir
fyrir, þarna hinumegin



Við kveðjum þig með þökk í hjarta fyrir allt sem þú gafst.  Við kveðjum þig með sorg í brjósti því eftirsjáin er mikil.  Við kveðjum þig með söknuði, en yljum okkur við minningarnar.  Hvíldu í friði.

Sigurður (Siggi) og fjölskylda.