Ólafur Hilmar Ingólfsson fæddist í Eyjafirði 20. maí 1925. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 10. apríl 2016.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Þorláksdóttir, f. 11. ágúst 1896, d. 2. desember 1930, og Ingólfur Árnason, f. 12. nóvember 1889, d. 13. nóvember 1971. Bræður Hilmars eru: Árni, f. 21. mars 1918, d. 10. febrúar 2007, Kristinn Þorlákur, f. 31. ágúst 1923, Steinberg, f. 14. júlí 1928, d. 3. janúar 1977. Systkini Hilmars samfeðra eru: Gíslína Ingibjörg, f. 14. júlí 1933, og Haukur Heiðar, f. 5. ágúst 1942.
Hilmar kvæntist 26. júní 1965 Pálínu Magnúsdóttur, f. 27. maí 1929, d. 18. júní 1981. Sonur þeirra er Skúli Rúnar Hilmarsson, f. 13. febrúar 1964, kvæntur Brynju Helgadóttur. Dætur Pálínu, stjúpdætur Hilmars, eru: Sigurlín Guðrún Ágústsdóttir, f. 23. september 1947, gift Marijan Krajacic, Þóra Björg Ágústsdóttir, f. 23. desember 1951, gift Guðmundi Pétri Sigurjónssyni, Ágústa Ósk Ágústsdóttir, f. 6. nóvember 1957, gift Skúla Marteinssyni, og Valgerður Guðmundsdóttir, f. 10. október 1960. Afkomendur þeirra systkina eru 55 talsins. Hilmar ólst upp fyrstu árin hjá móðurforeldrum sínum Þorláki Einarssyni og Kristínu Pálsdóttur að Kotá í Eyjafirði en fluttist um 11 ára aldur til móðursystur sinnar, Lilju Þorláksdóttur, og ólst upp hjá henni og manni hennar Sigurði Eyvindssyni að Austurhlíð í Gnúpverjahreppi. Uppeldissystkini Hilmars í Austurhlíð voru börn þeirra Lilju og Sigurðar; Kristín, f. 5. nóvember 1929, d. 24. desember 1993, og Eyvindur, f. 30. mars 1931, d. 1. júní 1992.
Hilmar fékk sína barnafræðslu í Ásaskóla í Gnúpverjahreppi en sótti síðar nám í búfræði við Bændaskólann að Hólum. Ásamt hefðbundnum bústörfum í Austurhlíð vann Hilmar ýmiss konar vélavinnu í sveitunum þar eystra á vegum ræktunarfélagsins og á eigin vélum, sá bæði um jarðvinnu og snjómokstur. Um 1960 fluttist Hilmar til Reykjavíkur og vann eftir það við ýmis störf en lengst af sem verkstjóri hjá verktakafyrirtækinu Hlaðbæ hf. Hann byggði ásamt konu sinni og í félagi við Auðun Helgason og hans frú húsið að Hraunbraut 44 á Kársnesi í Kópavogi og bjó þar alla tíð síðan. Eftir Hilmar liggja margir smíðisgripir, bæði húsmunir og ýmiss konar amboð. Hilmar var mikill ræktunarmaður og sjást þess merki bæði á Hraunbrautinni og ekki síður á landskika fjölskyldunnar í landi Austurhlíðar þar sem þúsundir trjáa af ýmsum toga vaxa nú sem ævarandi minnisvarði um þrautseigju og dugnað þessa alúðar manns.
Útför Hilmars fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 22. apríl 2016, klukkan 15.
Mamma og pabbi fóru alltaf með okkur krakkana í Sunnudagsrúnt, það var farið niður á höfn og aðeins keyrt um bæinn svo var annað hvort farið á Hraunbrautina til Pöllu ömmu og Hilla afa eða í Vesturbergið til Elínar ömmu og Sigurjóns afa. Mínar fyrstu minningar um Hilla afa eru kannski meira minningar um spurningar því að í hvert sinn sem að við komum inn þá spurði ég: Hvar er afi? Og fékk svarið: Hann er úti í bílskúr. Með tímanum varð spurningin:"Er afi úti í bílskúr? Afi var alltaf að smíða eitthvað úti í bílskúr og íbúðin þeirra ömmu og afa er full af hlutum sem sanna það en ég held að hann hafi nú bara stundum stungið af þangað til að fá smá frið fyrir látunum í okkur krökkunum. Ég kíkti oft út um eldhúsgluggann til að athuga hvort að ég sæi afa eða hvort að hurðin á bílskúrnum væri opin ég held að ég hafi verið að vonast eftir því að hann væri á leiðinni inn. Mig langaði oft að fara til afa út í bílskúr en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma gert það nema þá bara þegar að ég fór að sækja afa í matinn eða kaffi, það lá einhver dulúð yfir bílskúrnum, þetta var afa staður.
Ég á lampa sem afi smíðaði handa mér í afmælisgjöf eitt árið eftir að ég varð fullorðin sem að mér þykir mjög vænt um og eins á ég tvo platta til að hengja puntskeiðarnar mínar á uppi á vegg sem að afi smíðaði fyrir mig sem að mér þykir líka einstaklega vænt um.
Flesta minningar mínar um Hilla afa eru frá Vindheimum, smá landskika á Austurhlíðarlandinu, ég er einstaklega fegin því að við skulum hafa þetta land. Þarna eyddum við strákarnir mínir mörgum helgum á meðan við bjuggum á íslandi og þarna fengu þeir að kynnast langafa sínum. Ég get séð afa fyrir mér ganga rólega um allt landið og athuga plönturnar. Ég held að ég eigi eftir að hitta hann þar aftur.
Það getur verið erfitt að fara í rúmið þegar að maður er staddur á Vindheimum, ef að þið hafið einhvern tíman eitt kvöldum þar eða á Austurhlíðarlandinu þá vitið þið um hvað ég er að tala, það bara dettur allt í dúnalogn og róin og kyrrðin umlykur mann. Eitt slíkt kvöld þegar að allir voru farnir í rúmið nema Hilli afi, mamma, Skúli frændi, Brynja og ég sjálf fór að rigna. Afi ákvað að fara í bælið en við hin vorum í kjaftastuði svo afi bauð okkur að koma inn í skjólið hans. Hjólhýsið hans afa var nú ekkert risa stórt en hann fullvissaði okkur um að við myndum ekki trufla hann þótt að við værum að spjalla, hann dró sængina bara vel upp að andliti og fór að sofa. Nú ef að þið þekkið til fjölskyldu minnar þá vitið þið að við erum allt annað en hljóðlát, já og getum bara hlegið nokkuð hátt jafnvel þegar að við höldum að við séum að hvíslast á. Við Skúli fórum eitthvað að tala um hvað við værum nef góð (nei þetta er ekki villa) og einhverra hluta vegna sjálfsagt af því að ég hafði búið í Bandaríkjunum vorum við að tala íslensku með mjög þykkum bandarískum hreim. Það runnu upp úr okkur hver raunarsagan af annar um okkar outstanding/framúrskarandi nef, mamma var farin að gráta úr hlátri svo allt í einu föttuðum við að það gæti nú kannski verið erfitt fyrir afa að sofna í öllum þessum látum svo við kíktum í áttina til hans. Haldið þið ekki að afi hafi ekki verið búinn að draga sængina yfir höfuðið og ekki til að kæfa lætin í okkur heldur var hann í hláturskasti þarna undir sænginni og var að reyna að fela það fyrir okkur en það fór ekki á milli mála að hann var skelli hlæjandi því sængin hristist og við gátum heyrt í honum þegar að við hættum að tala. Já og nei hann vildi ekki að við færum út, hann gæti alveg sofnað þótt að við værum áfram þarna inni hjá honum.
Ég var skírð Hrönn Ólöf, Ólöf í höfuðið á Hilla afa. Fyrstu árin mín tengdist ég Ólafar nafninu ekki mikið ég held að það hafi svolítið verið vegna þess að afi var Hilli afi en ekki Ólafur afi. Eftir því sem að ég eldist því vænna fór mér að þykja um Ólafar nafnið og þegar að afi kallaði mig nöfnuna sína eða skrifaði nafna mín í afmælis og jólakortin þá kom alltaf sól í hjartað mitt. Ég er búin að heyra afa segja nafnan mín oft síðustu daga, þegar að ég finn fyrir leiða yfir að komast ekki í jarðarförina hans þá segir hann við mig nafnan mín og ég veit að honum hefði bara fundist það vera bruðl ef að ég færi að koma í jarðarförina, Það er nú algjör óþarfi að fara að eyða peningum og tíma í það, ég er hvort sem er farin til hennar ömmu þinnar, ekki vera leið. þú þarft ekkert að fara til Íslands til að minnast mín. Og það er rétt ég þarf ekkert að fara neitt til að minnast afa míns hann er alltaf í hjarta mér.
Í rauninni er ég búinn að vera að kveðja afa í nokkur ár. Ég bý erlendis og í enda hverrar heimsóknar heim til Íslands fór ég að kveðja Hilla afa minn, með hverju árinu varð það erfiðara og erfiðara. Ég vissi að þetta gæti verið í síðasta sinn sem að ég fengi að knúsa afa minn. Ég var síðast hjá Hilla afa fyrir tæpu ári síðan, þá sagði hann við mig og Elínu systir að þetta væri komið gott, að líkaminn hans væri orðin það aumur að hann væri bara tilbúin að fara. Ég man ekki alveg orðin hans afa en þetta er það sem að hann sagði. Ég átti mjög erfitt með að kveðja afa áður en að ég fór aftur til Bandaríkjanna, ég var nýlega búin að kveðja hinn afa minn í hinsta sinn og ég var ekki tilbúin til að gera það sama við Hilla afa. Ekki strax. Bíddu í eitt ár í viðbót svo að ég geti komið heim næsta sumar með strákanna mína og við fengið að knúsa þig einu sinni enn. Ég ætlaði ekki að geta sleppt honum en um leið og ég gerði það þá hljóp ég út í bíl. Við vissum það bæði að þetta var síðasta knúsið okkar þetta var okkar hinsta kveðjustund.
Að kveðja og sleppa þeim sem við elskum er eitt það erfiðasta sem við gerum en ég mun gera mitt besta til að sleppa Hilla afa svo að hann geti fundið ró í faðmi Pöllu ömmu og litlu strákanna þeirra sem þau misstu.
Tenging líkama og sálar slitin.
Hvíldu í frið,i afi minn.
Hvíldu í ró og sælu.
Ég Hrönn Ólöf Guðmundsdóttir, eiginmaður minn David Wallach og synir okkar Michael Þór, Alexander Már og Christopher Ágúst sendum samúðarkveðjur til allra ættingja og vina hans Hilla afa nafna míns.
Hrönn Ólöf Guðmundsdóttir-Wallach.