Norðurlandaríkin hafa lagt sig fram um að tryggja stöðugleika og hagsæld með því að samræma þróunarstarf, greiða götu fríverslunar og taka þátt í friðargæslu og áhættustjórnun. Norræna nálgunin byggist á virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Ólögleg innlimun Rússlands á Krímskaga og aðgerðir Rússlands, sem skapað hafa óstöðugleika í Úkraínu og nágrenni, eru grundvallaráskoranir við öryggi Evrópu. Athæfi rússneskra stjórnvalda, sem felur í sér aukna hernaðarstarfsemi og spennu í umhverfi Eystrasaltsríkjanna, verður að umbreyta í uppbyggilega stjórmálaumræðu, í samræmi við alþjóðalög og sáttmála.
Evrópa hefur brugðist af festu við framferði Rússlands í Úkraínu. Beiting vopnavalds sem gengur gegn alþjóðalögum á hvorki heima í Evrópu né annars staðar. Við þurfum að þrýsta áfram á Rússa um ábyrgt framferði og halda opnum farvegi fyrir pólitísk skoðanaskipti. Það er öllum í hag; skoðanaskipti eru grundvöllur þess að finna lausn vandamála.
Nauðsynlegt er að friðhelgi landamæra, fullveldisréttur og friðhelgi yfirráðasvæða ríkja, friðsamleg lausn deilumála og virðing fyrir mannréttindum og grundvallarréttindum verði áfram kjölfestan í öryggi Evrópu, samkvæmt skilgreiningum sáttmálanna sem kenndir eru við Helsinki og París. Stuðningur Norðurlandaríkjanna við friðhelgi landamæra og fullveldi Úkraínu hefur verið ótvíræður og hafa þau stutt þvingunaraðgerðir Vesturlanda, sem verður haldið áfram þar til Rússland hefur uppfyllt öll skilyrði Minsk-samkomulagsins.
Við okkur blasir nýr veruleiki þar sem sameiginlegum viðmiðum okkar og gildum er ógnað. Hér áður náði norræn samvinna til alls nema öryggis- og varnarmála. Tímarnir hafa breyst. Við þurfum að auka samvinnu okkar á sviði utanríkis- og öryggismála til að auka stöðugleika, draga úr spennu og stuðla að friðsamlegum samskiptum manna í millum. Með því að gera diplómatíu að fyrstu varnarlínu aukum við öryggi í okkar heimshluta.
Samvinna á sviði netöryggis, hættustjórnunar og leitar og björgunar
Norðurlandaríkin hafa þegar kosið að treysta samvinnu sína á sviði utanríkis- og öryggismála og markaði Stoltenberg-skýrslan árið 2009 ákveðin tímamót í þeim efnum. Við höfum einnig hafið stórhuga samvinnu á sviði almannaöryggis, og öryggis- og varnarmála, bæði sem heild og með tvíhliða samstarfi. NORDEFCO-varnarsamstarfið hefur aukið samstarfshæfni okkar. Samvinna á sviði netöryggis, hættustjórnunar og leitar og björgunar er dæmi um árangursríkt norrænt samstarf.Við þróum utanríkis- og öryggisstefnu okkar í nánu samstarfi við stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Evrópuráðið, Samstarf í þágu friðar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandið. Þörf er á auknu gagnsæi og ráðstöfunum sem miðast að því að vekja traust og draga úr hættu í Evrópu, einkum innan ÖSE. Sameiginlegt markmið okkar er nánara norrænt samstarf til að viðhalda og verja skipan öryggismála í Evrópu, og að stuðla að svæðisbundnu öryggi.
Hlúð að svæðisbundinni samvinnu
Norðurlandaríkin hafa gegnt lykilhlutverki í því að hlúa að svæðisbundinni samvinnu; Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Norðurskautsráðið eru mikilvægar stofnanir sem Norðurlandaríkin eiga aðild að og Rússland tekur uppbyggilegan og virkan þátt í. Við munum halda áfram að byggja upp traust og hvetja til samvinnu og samskipta fólks og þjóða, ekki síst við Rússland. Svæðisbundið samstarf yfir, og þvert á, landamæri er mikilvægt og stuðlar að samvinnu og sambandi við ýmsa aðila í Rússlandi, þar með talið borgarasamfélagið.Þrjú Norðurlandaríkjanna eru aðilar að Evrópusambandinu og þrjú að NATO, en öryggisumhverfi okkar er hið sama og umfram allt búum við að traustum sameiginlegum gildum. Við getum nýtt okkur þá þætti sem skilja okkur að og jafnframt haldið á lofti sameiginlegum markmiðum, þar með talið stöðugleika og öryggi í okkar heimshluta. Við erum í góðri aðstöðu til að hvetja ESB og NATO til að þróa samvinnu sína enn frekar.
Mikilvægi Eystrasaltssvæðisins í öryggismálum Evrópu hefur aukist og um það þarf að fjalla á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í júní og leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í júlí. Leiðtogaráðið í júní mun styðja áætlun sem byggist á sameiginlegum evrópskum gildum og verður grunnur að starfi ESB til að vinna að stöðugleika og þróun. Leiðtogafundur NATO mun m.a. beina sjónum að öryggismálum á Eystrasaltssvæðinu. Öll Norðurlandaríkin styðja auknar viðræður og samstarf NATO, Finnlands og Svíþjóðar um svæðisbundið öryggi og að þær viðræður fari fram á hæsta stigi stjórnmálanna á fundinum.
Treystum böndin yfir Atlantshafið
Eftir tíu daga munum við halda samræðum okkar áfram ásamt Bandaríkjunum á leiðtogafundi Bandaríkjanna og Norðurlandaríkjanna í Washington. Við eigum mikilla hagsmuna að gæta í því að þróa enn frekar tengsl Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna. Samvinna Norðurlandaríkjanna og Bandaríkjanna á sviði utanríkis- og öryggismála verður styrkt og í sameiningu munum við treysta böndin yfir Atlantshafið.Norðurlandaríkin þurfa að beina sjónum sínum og athygli í ríkari mæli að Eystrasaltssvæðinu. Við, utanríkisráðherrar norrænu ríkjanna, höfum hér í Borgå í Finnlandi beint sjónum okkar að aðgerðum sem miðast að því að auka velmegun og öryggi í okkar næsta nágrenni sem og á alþjóðavettvangi. Við munum tryggja sameiginlega að sterk norræn rödd hljómi á vettvangi öryggismála í Evrópu, innan Sameinuðu þjóðanna, ESB, NATO, Evrópuráðsins og ÖSE.
Höfundar eru utanríkisráðherrar Norðurlandaríkjanna.