Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson
Eftir Helga Þorláksson: "Fáheyrt mun að grafinn sé upp kirkjugarður með beinum þekktra manna til þess eins að rýma fyrir veraldlegri byggingu, m.a.s. hóteli."

Þeim rökum er beitt fyrir að grafa upp og fjarlægja bein úr kirkjugarði við Kirkjustræti í Reykjavík að þegar sé búið að raska svo miklu í garðinum að lítið mál sé að fjarlægja það sem eftir sé. Þetta eru ónýt rök, bæði af því að fyrri mistök afsaka ekki að gerð séu ný og eins vegna hins að flest bendir til að fyrri röskun hafi einkum verið á yfirborði. Þá eru undanskildir grunnar húsa sem risið hafa í hinum gamla garði Víkurkirkju, þar sem eru Landsímahúsin við Austurvöll og e.t.v. var einhverju raskað þegar byggt var í Aðalstræti 9 og 11. Við uppgröftinn, sem núna fer fram við Kirkjustræti, hafa að sögn verið teknar upp frá 1. febrúar a.m.k. 32 heilar beinagrindur og mun fleiri óheilar og vera má að þarna og annars staðar þar sem framkvæmdir standa fyrir dyrum í Víkurgarði leynist enn meira af jarðneskum leifum Reykvíkinga. Hafa verður í huga að um tveir metrar eru víða niður á malargrunn (óhreyft) á umræddu svæði.

Annað sjónarmið er það að uppgröfturinn í Kirkjustræti sé mikilvægur, jafnvel brýnn, til að varpa ljósi á sögu Reykjavíkur. Í þessum röksemdum með uppgrefti er sneitt hjá því að nefna að þeir sem knýja á um gröftinn eru fjárfestar sem vilja reisa stórt hótel á sögulegum stað til þess að hagnast. Það rekur annars engar nauður til að grafa þarna í Kirkjustræti, nægar ættu að vera lóðir annars staðar fyrir hótel og fræðileg rök fyrir uppgreftinum eru engin.

Vönduð vinnubrögð og vísindaleg nálgun

Á fyrri tíð gengu menn ekki alltaf úr skugga um hvort væru minjar í jörðu þar sem framkvæmdir skyldu hafnar en fullyrt er að tvisvar sinnum hafi þó verið hætt við áform um stækkun Landsímahússins vegna þess að líklegt þótti að verið hefði kirkjugarður þar sem skyldi byggt. Á seinustu tveimur áratugum hefur verið reynt að vanda vinnubrögð frekar en áður með fornleifaskráningu út frá yfirborðskönnun og könnun ritheimilda og sagna. Þegar grunur leikur á að leifar séu í jörðu ber að kanna staðinn með varúð fyrst, svo sem með könnunarskurðum, og taka síðan ákvarðanir um framhaldið. Eitthvað hefur farið í handaskolum, árið 2016 er gengið lengra í spjöllum í Víkurgarði en mun hafa verið gert nokkurn tíma fyrr. Hvað varð um forkönnun og varúð? Hvað varð um ný viðhorf og betri vinnubrögð?

Meginviðmið gildir innan fornleifafræði á þá leið að ekki skuli fjarlægja fornleifar, eins og beinin við Kirkjustræti, nema mjög brýnar ástæður beri til. Slíkar ástæður geta verið vísindalegs eðlis en þá er valið á rannsóknarstað og afmörkun hans líka gerð á vísindalegum forsendum. Það á auðsæilega ekki við á Landsímareitnum. Ástæðan fyrir uppgreftinum er einungis sú að þarna á að byggja hótel. Engar aðkallandi rannsóknarspurningar leiddu til þess að kirkjugarðurinn er grafinn upp. Væru slíkar rannsóknarspurningar brýnar þættu aðrir staðir vafalaust hentugri til þess konar uppgraftar.

Er forsvaranlegt að grafa upp kirkjugarða?

Fornleifafræðingar grafa ósjaldan upp mannabein og því má spyrja hvar eðlilegt sé að gera það og hvar ekki. Engum mun finnast eðlilegt að grafa almennt upp bein í kirkjugarðinum við Suðurgötu þótt það gæti varpað ljósi á sögu Reykjavíkur. Þetta er kannski einkum af því að kirkjugarðurinn við Suðurgötuna er ekki gamall, miðað við það sem gerist um kirkjugarða, nöfn þeirra sem þar hvíla eru jafnan þekkt enda tók þessi garður við af Víkurgarði eftir 1838. En sama máli gegnir að mörgu leyti um Víkurgarð, ekki síst reitinn við Kirkjustræti. Við getum nafngreint fjölda manna sem grafnir voru í garðinum. Þar má nefna Geir Vídalín biskup, sem nefndur var Geir góði (d. 1823), og lifir enn í vitund margra. Enn fremur Gunnlaug Oddsson dómkirkjuprest (d. 1835) sem er þekktur fyrir Almenna landaskipunarfræði sína og orðabók sem var endurútgefin 1991; legsteinn hans er sagður hafa komið upp við rask. Flestum mun þykja sjálfsagt að þessir menn og margir aðrir, þekktir í sögunni, fái að hvíla í friði í gröfum sínum.

Stundum er leyft að grafið sé í gleymdum kirkjugarði sem finnst óvænt við framkvæmdir og reynist frá miðöldum og kann þó að þykja álitamál. En þá má líta til þess að fólkið sem þar hvílir er jafnan með öllu óþekkt og nafnlaust. Auk þess skiptir máli að bornar séu fram gildar rannsóknarspurningar. Eins ef þekktur kirkjugarður spillist eða skemmist af náttúrlegum ástæðum, þá er ástæða til að grafa upp beinin áður en þau verða eyðingu að bráð. En sjaldgæft mun að grafin séu upp bein þekktra manna nema þá að það þjóni sérstökum tilgangi, oft réttarlæknislegum. Og fáheyrt mun að grafinn sé upp kirkjugarður með beinum þekktra manna til þess eins að rýma fyrir veraldlegri byggingu, m.a.s. hóteli.

Við getum enn hætt við

Ef ekki ætti að reisa hótelbyggingu í Kirkjustræti fengju beinin þar að hvíla í friði. Engar fræðilegar ástæður eru fyrir uppgreftinum. Honum ber að hætta þegar í stað og koma beinagrindum fyrir að nýju, með viðeigandi minningarmörkum.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Helga Þorláksson