Mikið hefur verið rætt og ritað um peninga sem fluttir voru úr landi og hafa verið geymdir í skattaskjólum sem svo eru kölluð. Ætla ekki út í pælinguna hvað nákvæmlega gerist þegar peningar eru fluttir með þessum hætti til annarra landa, annað en eins og nafnið bendir til þá eru líkindi til þess að peningarnir séu fluttir þangað til þess að komast hjá eða lækka skattgreiðslur viðkomandi fjármagnseiganda. Sennilega væri nafnið eitthvað annað ef það væru háir vextir sem yllu fjármagnsflutningunum.
En það hefur sem sagt komið í ljós að við Íslendingar eigum sennilega enn eitt höfðatöluheimsmetið og í þetta skiptið í fjölda einstaklinga með verulegar eignir í skattaskjólum. Ekkert sérstaklega eftirsóknarvert heimsmet. Svo virðist sem enginn auðmaður hafi verið maður með mönnum, eða auðmönnum, nema eiga reikning í svona skattaskjóli og flutt þar með peningana sína úr landi. Sem óneitanlega bendir til þess að við hin, sem erum ekki menn með auðmönnum, sitjum uppi með sárt ennið að þurfa að greiða meiri skatta til að halda uppi okkar góða velferðarkerfi, menntakerfi, samgöngukerfi og hvað þau heita nú öll þessi kerfi sem við Íslendingar rekum saman. Í það minnsta notfæra allir Íslendingar sér þessi kerfi, burt séð frá því hvort og þá hversu mikið hver og einn greiðir í skatta.
Svo virðist sem flestir þeirra sem hafa notað og tjáð sig um notkun skattaskjólanna séu annað hvort búnir að gleyma öllum milljónunum, eða milljörðunum á erlendu bankareikningunum eða að þetta hafi allt saman bara verið kostnaður og vesen að hafa staðið í þessu. Hreint ótrúlegt hversu margt gott og vel gefið fólk hefur verið platað eða pínt af fjármálastofnunum til þess að stofna bankareikninga af þessu tagi og vonandi munu sagnfræðingar/mannfræðingar framtíðarinnar rannsaka hvað veldur.
Ég þekki engan sem á peninga á svona bankareikningi, hef í það minnsta ekki séð neitt kunnuglegt nafn ennþá í umfjöllun fjölmiðla. Enþekki til allmargra sem hafa með mikilli vinnu, útsjónarsemi og dugnaði byggt þannig upp eigin fyrirtæki og eftir atvikum auð. Minnist eldri hjóna í Hafnarfirði sem stofnuðu og ráku fyrirtæki sem þau seldu nýverið. Og eftir því sem ég best veit hafa greitt alla skatta og skyldur af þeim hagnaði sem þau fengu út úr sínum rekstri með stolti. Og hafa þannig lagt sitt stóra lóð á þær mikilvægu vogarskálar að byggja upp innviði íslensks samfélags. Við þurfum fleira svona fólk í íslensku viðskiptalífi.
Sýnist á viðbrögðum þeirra sem hafa tjáð sig um aðild sína að bankareikningum í skattaskjólum, að líklega séu það um það bil 1% þeirra sem eru á 600 manna listanum yfir slíka aðila sem hafa gerst sekir um að hafa gert þetta vísvitandi til þess að skjóta fjármunum undan íslenskum skattayfirvöldum. Skömm þessara sex er því mikil. Hinir 594, þessir plötuðu eða píndu, eru hins vegar rannsóknarefni fræðimanna framtíðarinnar.
Höfundur er forstjóri í Mörk, hjúkrunarheimili.