Konráð Karl Baldvinsson
Konráð Karl Baldvinsson
Eftir Konráð Karl Baldvinsson: "Væri ekki rétt að setja takmörk á setu alþingismanna?"

Mikið hefur verið rætt um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða sig fram til forseta þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu um að hann ætlaði ekki að gera það. Ólafur hefur fengið mikla gagnrýni fyrir þessa ákvörðun sína.

Gagnrýnt hefur verið hvað Ólafur verður orðinn gamall ef hann situr eitt kjörtímabil enn. Erum við búin að gleyma því þegar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipaði konu á áttræðisaldri í embætti umhverfisráðherra sem ekki var á þingi, var þá mikið rætt um aldur? Almennur starfsaldur hjá ríkisstarfsmönnum er 70 ár og var það þá ekki dálítið skondið að skipa konu í embætti ráðherra (hefði allt eins getað verið karlmaður) komna á áttræðisaldur þegar starfsmenn ráðuneytis, sem undir ráðherra heyra, urðu að hætta þegar 70 aldri var náð? Eru þingmenn/ráðherrar, sem komnir eru á áttræðisaldur, betur í stakk búnir að sinna sínum störfum en forseti sem kominn er á áttræðisaldur.

Á að takmarka kjörtímabil forseta við t.d. tvö kjörtímabil? Hvað má segja um þingmenn sem setið hafa í 25 ár á Alþingi – eða í 35 ár? Nýlega náðu tveir heiðursmenn á Alþingi 25 ára starfsaldri og var hampað sem sprækustu mönnum – og hvað þá sá ágæti maður sem náð hefur 35 ára starfsaldri? Væri ekki rétt að setja takmörk á setu alþingismanna?

Rætt hefur verið um að ekki sé mikil eftirspurn eftir núverandi forseta og hafa sumir þingmenn farið mikinn. Þingmenn ættu að líta í eigin barm og skoða hvað mikil eftirspurn sé eftir þeim sjálfum. Ef við landsmenn fengjum að kjósa menn en ekki flokka þá er ég viss um að margir þingmenn, sem nú sitja á hinu háa Alþingi, sætu þar ekki því þeir sitja þar í skjóli flokka. Og hvað skyldu vera mörg atkvæði bak við hvern þingmann, t.d. þingmenn Samfylkingar, sem mælist með svo lágt fylgi sem skoðanakannanir sýna?

Ólafur Ragnar hefur sýnt það og sannað að hann er mjög hæfur í embætti forseta Íslands, sem því miður er ekki hægt að segja um marga þá frambjóðendur sem nú hafa gefið kost á sér og bera ekki mikla virðingu fyrir embættinu. Meðan við breytum ekki um stefnu og leggjum embætti forseta niður eigum við að bera virðingu fyrir embættinu og þeim einstaklingi sem það skipar.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Konráð Karl Baldvinsson