Í tilefni af mæðradeginum sem er á morgun, sunnudaginn 8. maí, leyfi ég mér að nota tækifærið og minnast móður minnar með eftirfarandi orðum:
Þú varst alltaf svo góð við mig. Ég fékk athygli þína óskipta. Þú lifðir fyrir mig, hlustaðir á mig og talaðir við mig, leiðbeindir mér og lékst við mig. Þú sýndir mér þolinmæði, virtir áhugamál mín, skoðanir og þær leiðir sem ég valdi að fara. Þú föndraðir með mér, leyfðir mér að mála og smíða, búa til bíla og borgir, strætókerfi og heilu hand-, körfu- og fótboltavellina, allt innanhúss.
Ég og vinir mínir fengum rými og frið til að þróa hugmyndaflugið, búa til ævintýraheima, að sjálfsögðu innan víðra marka sem þú settir og við virtum af því að þú varst vinur okkar og mér og okkur þótti mikið til þín koma.
Þú agaðir mig í kærleika af móðurlegri umhyggju og reyndir að læra með með mér. Þú sagðir mér sögur, last fyrir mig, fræddir mig og baðst með mér.
Þú varst alltaf svo umhyggjusöm og hjartahlý. Þú varst mitt skjól og varnarþing. Við stóðum saman og vörðum hvort annað, vorum sannir vinir. Ég var drengurinn þinn og þú varst mamma mín. Mér fannst ég heppnasti drengurinn í öllum heiminum.
Þú varst alltaf allt í öllu, framkvæmdasöm og skipulögð, jákvæð, úrræðagóð og drífandi. Þú eldaðir og bakaðir, slóst upp veislum, málaðir, flísalagðir og veggfóðraðir eins og ekkert væri. Þú fórst áfram af dugnaði og ósérhlífni, elju, útsjónarsemi og kærleika. Alltaf svo passasöm, nákvæm og smekkleg. Sérlega þrifin, snyrtileg og glæsileg.
Minningin ein
Og þótt hún elsku mamma mín sé nú aðeins minningin ein mun ég ávallt minnast hennar með glöðu geði og dýpstu virðingu. Hugheilu þakklæti og hjartans hlýju, fyrir allt og allt.Elskum og virðum mæður okkar. Látum þær finna fyrir þakklæti og hlýju. Og Guð blessi minningu allra okkar mæðra sem nú hafa skilað sínu hlutverki og fengið hvíldina góðu.
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.