Svæðisuppdráttur Ásgeirs Magnússonar Eftir uppgröft járnhellnanna lét Landssíminn Ásgeir Magnússon gera uppdrátt af öllu svæðinu milli Aðalstrætis og Thorvaldsenstrætis og merkja inn á hann fógetagarðinn og hvar minnismerkin fundust. Ennfremur merkti hann inn vegginn sem þau voru fest á og leiði þeirra Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests og Marie (d. 1882) konu Krügers lyfsala og ungs barns þeirra. Ásgeir merkti líka inn apótekið, bragga, geymslur og söluturn á svæðinu.
Svæðisuppdráttur Ásgeirs Magnússonar Eftir uppgröft járnhellnanna lét Landssíminn Ásgeir Magnússon gera uppdrátt af öllu svæðinu milli Aðalstrætis og Thorvaldsenstrætis og merkja inn á hann fógetagarðinn og hvar minnismerkin fundust. Ennfremur merkti hann inn vegginn sem þau voru fest á og leiði þeirra Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests og Marie (d. 1882) konu Krügers lyfsala og ungs barns þeirra. Ásgeir merkti líka inn apótekið, bragga, geymslur og söluturn á svæðinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örnólf Hall: "Saga Víkurkirkjugarðs er merkileg fyrir það að þar hvíla jarðneskar leifar um þrjátíu kynslóða Reykvíkinga."

Við lögtöku kristni á Alþingi árið 1000 var Þormóður sonur Þorkels mána allsherjargoði.Talið er að hann hafi búið á ættarsetri sínu, Reykjavík. Sem allsherjargoði var hann æðsti embættismaður þjóðarinnar og skyldi hann helga Alþingi í hvert sinn. Á honum hefur því hvílt sú skylda að reisa kirkju við bæ sinn. Af þeim sökum má fastlega ætla að ein fyrsta kirkjan sem reist hafi verið í nýjum sið hafi verið kirkjan við ættarsetrið í Reykjavík. Ætla má að hún hafi verið reist fljótlega eftir kristnitökuna.

Frá upphafi var sá siður að hafa grafreit umhverfis kirkjur. Ekki hefur fundist annar forn grafreitur í Reykjavík en sá sem er við suðurenda Aðalstrætis. Það bendir sterklega til þess að þar hafi kirkja staðið frá upphafi.

Elstu heimildir um kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá því um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Torfkirkja var í kirkjugarðinum sem var gegnt Víkurbænum. Í Biskupaannálum segir að Stefán Jónsson, næstsíðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, hafi vígt Víkurkirkju 3. febrúar árið 1505.

Reykjavík 1789: Á mynd Sæmundar M. Holm, sem var prestur og málari, af Reykjavík frá 1789 sést að kirkjugarðurinn hefur verið ferhyrndur. Sennilegt þykir að kirkjugarðurinn hafi verið jafn á alla vegu, u.þ.b. 40 metrar, og kirkjan í miðjum garðinum. Garðurinn hefur smám saman stækkað til austurs. Söfnuðurinn stækkaði þegar Innréttingar Skúla fógeta komu til sögunnar og fólki fjölgaði í Reykjavík.

Þrír söfnuðir og ein kirkja: Sóknarkirkjurnar í Laugarnesi og Nesi voru lagðar af um aldamótin 1800 og við það varð til einn Reykjavíkursöfnuður. Árið 1798 var Víkurkirkja rifin. Þá átti Dómkirkjan, sem lokið var við 1796, að duga söfnuðunum þremur. Enginn kirkjugarður var við Dómkirkjuna og það þrengdist stöðugt í þeim gamla og jafnframt styttist niður á fast eftir sem austar dró. Kirkjugarðsstaður fannst svo sunnan Hólavallar – Hólavallargarður.

Tveir nafnfrægir sem hvíla þarna: Narfi Ormsson, síðasti óðalsbóndinn í Reykjavík, var jarðsettur í Víkurkirkjugarði árið 1613. Rótað var í leiði hans og legsteinn hans var færður að suðurvegg Dómkirkju árið 1820. Leiðið og legsteinninn eru nú týnd.

Geir Vídalín góði, Reykjavíkurbiskup, sem varð gjaldþrota sökum gjafmildis við snauða í Reykjavík, lét stækka kirkjugarðinn til austurs, þegar þrengja fór að greftrunarplássi. Hann lést í örbirgð 1823 og var jarðaður í þeim hluta sem hann lét stækka og vígði. Espólín greindi svo frá útför herra Geirs biskups: „Engum var boðið til hennar nema þeim sem honum skyldu fylgja. Embættismenn og stúdentar skiptust um að bera níðþunga kistuna gerða af þykkum plönkum með skrúfnöglum. Umgerðin vó nærri fjórum vættum.“ Gildur Geir vó fjórar vættir (fjórar vættir töldust um 160 kg) og biskup og kista vógu því saman um 320 kg. Það þurfti til heila tylft embættismanna eða stúdenta til burðar.

Skrúðgarður landlæknis

Árið 1883 fékk Schierbeck landlæknir garðinn leigðan með því skilyrði að hann myndi láta girða hann laglega. Hann lét svo gera fagran skrúðgarð með blómum og trjám. Eftir að landlæknir fór alfarinn af landinu fékk Halldór Daníelsson bæjarfógeti garðinn til umsjónar. Þá var hann kallaður Bæjarfógetagarðurinn. Skrúðgarðurinn var af svipaðri stærð og upprunalegi kirkjugarðurinn.

Fyrri framkvæmdir í Víkurgarði

Lyfsalinn O. Thorarenssen fékk leyfi til að reisa lyfjabúð við Austurvöll 1833. Síðar fékkst leyfi til að reisa vöruhús og efnarannsóknarstofu sem brunnu árið 1882. Árið 1915 fékk Christensen lyfsali leyfi til að gera vörugeymslukjallara þar. Bakhús Landsímastöðvarinnar var reist 1931 og var þá gerð akbraut inn í portið. Við gerð hennar fundust fjórar járnhellur með grafskriftum. G. Hlíðdal landsímastjóri spurði Matthías Þórðarson þjóðminjavörð hvað gera skyldi við hellurnar og vildi Matthías að þær yrðu geymdar sem næst leiðunum. Var síðan gerður múrveggur sem hellurnar voru festar á í röð. Við lagningu símakapals í gegn um garðinn komu upp mergð mannabeina. Einnig fannst legsteinn Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests (d. 1835).

Landsímahúsið (1967)

Í nýju skipulagi Landsímareits er gert ráð fyrir hótelviðbót við húsið. Víkurkirkjugarður fær svokallaða hverfisvernd samkvæmt því, sem yrði sama eðlis og gildir fyrir Hólavallagarð.

Fornleifauppgröftur og ný ásýnd Víkurkirkjugarðs

Tillaga um fornleifauppgröft á svæðinu var lögð fyrir borgarráð um aldamót.

Full ástæða þótti til að garðurinn yrði rannsakaður sem kostur væri og gengið yrði síðan frá honum með þeirri virðingu og fegrun sem kirkjugarði með aldagamla sögu þrjátíu kynslóða Víkverja sæmir.

Ungur fornleifafræðingur, Vala Garðarsdóttir, hefur hafið rannsóknir og fornleifauppgröft á svæðinu og segir hún að búast megi við að finna miklar menningarminjar frá elstu tíð.

Höfundur er arkitekt.

Höf.: Örnólf Hall