Jónas Ólafsson fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð 20. júlí 1929. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 27. apríl 2016.
Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson húsasmíðameistari, f. 12. maí 1892, d. 30. desember 1967, og Elínborg Sveinsdóttir, símstöðvarstjóri á Þingeyri, f. 12. október 1897, d. 11. maí 1955. Systkini Jónasar eru Yngvi, f. 1922, d. 2005, Sveinn, f. 1924, Björgvin, f. 1924, Þórey Hrefna, f. 1925, Höskuldur, f. 1927, Jónas, f. 1928, d. 1928, Sylvía, f. 1931, Ingibjörg, f. 1932, Sigríður, f. 1935, Ólöf, f. 1937, María, f. 1939, Guðrún, f. 1944, d. 1960. Hálfsystkini Jónasar, börn Ólafs og fyrri eiginkonu hans, Þóreyjar Sturlaugsdóttur, eru Hrefna, f. 1915, d. 1918, Kjartan, f. 1918, d. 1991. Ennfremur Þórir, f. 1931, d. 1990.
Jónas kvæntist Kristínu Nönnu Magnúsdóttur 7. nóvember 1954, foreldrar hennar voru Magnús Amlín Ingibjartsson og Ingunn Elín Angantýsdóttir.
Börn Jónasar og Nönnu eru
1. Magnús, f. 3. september 1953, hans börn eru: Hugrún, f. 1973, Nanna Kristín, f. 1974, Magnús Þór, f. 1978, Jónas Breki, f. 1980, og Sturla Snær, f. 1987. 2. Angantýr Valur, f. 19. apríl 1955, giftur Eddu Hafdísi Ársælsdóttur, f. 15. maí 1960, börn þeirra eru: Óttar, f. 1982, Ágúst, f. 1985, Elín Edda, f. 1987, Ingunn Ýr, f. 1993 og Víkingur, f. 1997. 3. Ingunn Elín, f. 11. febrúar, 1957, gift S. Vilhelm Benediktssyni, f. 1. ágúst 1955, börn þeirra eru: Kristín Nanna, f. 1976, og Stefán Benedikt, f. 1980. 4. Kristinn, f. 30. september 1965, giftur Helgu Valdísi Guðjónsdóttur, f. 5. febrúar 1969, börn þeirra eru Thelma, f. 1996, og Kristinn Jökull, f. 2002. 5. Steinar Ríkarður, f. 6. október 1966, giftur Nönnu Björk Bárðardóttur, f. 29. júní 1966, börn þeirra eru: Patrekur Ísak, f. 1996, Birna Filippía, f. 2000, og Dagur Ernir, f. 2000. Langafabörnin eru orðin 16.
Jónas fór ungur í sveit á Skarði á Skarðsströnd en lærði síðan vélvirkjun í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri og vann þar um skeið. Starfaði síðan við verslunarrekstur í nokkur ár. Var kjörinn í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps 1966 og sat í hreppsnefnd til 1996. Tók síðan við starfi sveitarstjóra á Þingeyri 1971 og gegndi því starfi til ársins 1996 eða í 25 ár. Sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar 1996-1998 og gegndi starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar síðasta árið. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga, átti sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sat í stjórn Hafnarsambands Íslands. Á yngri árum tók hann mikinn þátt í íþróttastarfi á ýmsum sviðum og keppti sjálfur. Í mörg ár hélt hann kindur sér til mikillar ánægju og var mikil áhugamaður um sauðfjárrækt allt til dauðadags.
Útför Jónasar fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag 7. maí 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.
Þegar ég lít til baka og hugsa um pabba minn og okkar samfylgd, þá koma
fyrst upp í huga mér kindurnar hans og öll sú vinna sem í kringum þær
voru. Pabbi var í um áratuga skeið með frístundabúskap sem gaf honum mikla
ánægju. Sem ungur maður fór hann í sveit á Skarði á Skarðsströnd og var
hann þar til fjölda ára eða fram á unglingsaldur og bar hann alltaf miklar
tilfinningar til þess staðar og fólksins þar. Þar hefur sjálfsagt áhuginn á
fjárbúskapnum kviknað og entist sá áhugi hans allt til dauðadags. Pabbi var
mjög natinn við kindurnar og hugsaði mjög vel um þær. Jafnframt var hann
góður ræktunarmaður og átt mjög gott sauðfé. Pabbi lagði áherslu á það við
okkur bræður að hugsa vel um dýrin og koma fram við þau af virðingu og
hlýju. Man ég það vel að á jólum fengu kindurnar alltaf besta heyið sem til
var og voru fjárhúsin þrifin hátt og lágt. Það var gaman að fá að taka þátt
í þessu, kenndi hann okkur bræðrum réttu handtökin og treysti okkur fyrir
hinum ýmsu þáttum í bústörfunum. Pabbi leyfði okkur að hafa skoðanir á
mörgu er varðar fjárbúskapinn og stóðum við í þeirri trú að við hefðum
einhver áhrif þegar kom að búrekstrinum. Það er ógleymanleg ferð er við
bræður fórum með pabba fyrir nokkrum árum norður á Strandir að sækja hrút
en afi hans Sveinn hafði verið prestur í Árnesi. Hann sagði okkur frá öllu
sem fyrir augu bar og gaman var að hlusta á frásögn hans og að sjálfsögðu
var það hann sem valdi hrútinn sem svo reyndist Steina bróður mikill
happafengur. Pabbi og mamma höfðu mikinn áhuga á garðrækt og ber garðurinn
í kringum húsið þeirra þess glöggt vitni. Pabbi lærði vélvirkjun hjá
Guðmundi J. Sigurðssyni á Þingeyri og vann við það í nokkur ár. Pabbi var
afar laghentur og sérstaklega snyrtilegur. Ekki var pabbi mikil
tilfinningavera og var mjög fámáll um allt slíkt, þó mátti sjá tár á
hvörmum þegar eitthvað hreyfði við honum. Verkaskipting milli hans og mömmu
var afar skýr og aldrei fór á milli mála hvert var hlutverk hvers í
heimilishaldinu. Pabbi var góður afi barna minna og fylgdist hann vel með
þeim og spurði alltaf um þau er við ræddum saman. Hann var sveitarstjóri á
Þingeyri um áratuga skeið og hafði mikinn metnað fyrir hönd samfélagsins.
Hann tilheyrir þeim hópi manna á Íslandi sem lengst hafa starfað að
málefnum sveitarfélaga á Íslandi. Á árunum frá 1966 til 1998 sem hann
starfaði í sveitarstjórnarmálum urðu gífurlegar breytingar í sjávarþorpum
um land allt. Mikil uppbygging átti sér stað, farið var í gatnagerð og
götur malbikaðar, hafnaraðstaðan betrumbætt, skólinn stækkaður, vatnsveitan
löguð, byggð sundlaug og íþróttahús og umhverfismálin tekin í gegn í
þorpinu svo eitthvað sé nefnt. Oft gekk mikið á í byrjun þegar farið var í
það að snyrta og taka til og fannst mörgum stundum nóg um. Pabbi var á
undan sinni samtíð er varðar þá hugsun að leggja mikla áherslu á að hafa
þorpið sitt snyrtilegt og hafði hann mikinn metnað hvað það varðar.
Samstarfsmaður pabba til margra ára í sveitarstjórn var Þórður Jónsson frá
Múla, þeir náðu vel saman þó ekki væru þeir samflokksmenn og höfðu báðir
mikinn áhuga á bússkap. Það var mikið áfall fyrir pabba þegar Þórður féll
frá langt um aldur fram því þar missti hann góðan vin og samstarfsmann.
Pabbi var mjög ráðagóður, lagði mikla áherslu á að maður færi vel með það
sem manni væri trúað fyrir, hefði trú á sjálfan sig og legði sig fram um að
ná settum markmiðum. Það var gott að leita ráða hjá pabba og hann fylgdist
vel með mínum störfum. Pabbi naut virðingar í stjórnsýslunni og fann ég það
er ég hóf störf á sama vettvangi. Þó það sé ef til vill skrýtið þá var
pabbi ekkert mjög pólitískur þ.e.a.s. ef ég tek mið af mömmu í þeim málum
en hann hafði mikinn áhuga á samfélagsmálum, þá sérstaklega samgöngumálum
og beitti hann sér mikið á þeim vettvangi fyrir svæðið og var m.a.
formaður hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þegar ákvörðun var tekin um
jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiði. Einnig sat hann í stjórn
Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnarsambands Íslands auk fjölda
annarra trúnaðarstarfa. Margs er er að minnast enda nutum við þeirra gæfu
að eiga marga áratugi saman og fyrir það er ég þakklátur. Nú er komið að
kveðjustund, gott er að eiga minningar um góðan föður sem reyndist mér vel,
blessuð sé minning hans.