Í fjölmiðlum nýverið fór Gylfi Magnússon, fyrrum ráðherra og sérstakur stuðningsmaður Icesave-samninga, hörðum orðum um aflandsfélög. Þessi félög hefðu skapað helsjúkt samfélag og haft mjög vond áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf. Þegar honum var bent á að hann sjálfur sem stjórnarmaður í Orkuveitunni hefði verið fylgjandi því að Orkuveitan stofnaði slíkt félag, sagði Gylfi að ekki væru öll aflandsfélög slæm. Svo væri ekki um það félag sem Orkuveitan hefði haft uppi hugmyndir um að setja á laggirnar. Þannig eru væntanlega öll aflandsfélög slæm nema þau sem Gylfi vildi stofna.
Tryggingafélög og dótturfélög
Skýringar Gylfa á því að aflandsfélagið sem hann vildi stofna á Guernsey væri ekki slæmt, voru að félagið ætti að tryggja eignir Orkuveitu Reykjavíkur með hagstæðari kjörum. Er látið að því liggja frá Orkuveitunni að „gjöld á alþjóðlegum markaði væru hagstæðari og var talið að árlegur sparnaður gæti numið tugum milljóna króna á ári“! Markmiðið var ekki að reyna að komast hjá sköttum. Nú hefði verið fróðlegt ef fréttamenn RÚV hefðu spurt hvernig það megi vera að aflandsfélag á Guernsey í eigu Orkuveitunnar geti fengið betri kjör heldur en Orkuveitan sjálf, sem á þó þær eignir og rekstur sem tryggja átti. Fyrirfram má gera ráð fyrir því að dótturfélagið fái lakari lána- og viðskiptakjör en Orkuveitan.Fyrirhugað aflandsfélag Orkuveitunnar er ekki hefðbundið tryggingafélag í skilningi laga um vátryggingafélög, heldur dótturfélag Orkuveitunnar, sem hefur í raun enga hefðbundna vátryggingastarfsemi með höndum samkvæmt skilgreiningu í íslenskum lögum. Hagræðið fyrir Orkuveituna felst í því að með stofnun félagsins greiðir Orkuveitan iðgjöld til „tryggingafélagsins“ sem dragast frá skattskyldum tekjum Orkuveitunnar og lækka skattgreiðslur á Íslandi. Skattgreiðslur (dóttur)tryggingafélagsins eru síðan í þægilegu skattaumhverfi.
Gylfi og skattahagræðing
Þessar fyrirætlanir Gylfa voru væntanlega innan ramma laga, en óneitanlega er gengið langt í að fella greiðslur til dótturfélags undir tryggingastarfsemi. Tryggingastarfsemi felur í sér iðgjaldagreiðslur til þriðja aðila (Vátryggingafélags) sem síðan greiðir vátryggðum tjón sem hann verður fyrir og fellur undir vátryggingasamning. Tryggingastarfsemi er ekki tilflutningur á fjármunum frá móðurfélagi til dótturfélags sem í þessu tilfelli er aflandsfélag.Í tilviki Orkuveitunnar fara greiðslurnar úr öðrum vasanum (móðurfélaginu) yfir í hinn vasann (dótturfélagið) en iðgjöldin dragast frá tekjum og lækka skattstofninn. Hér er því um að ræða skattasniðgöngu í sinni tærustu mynd.
Þannig liggur fyrir að Gylfi Magnússon, stjórnarmaður, vildi stefna að því að lágmarka skatta Orkuveitunnar með notkun aflandsfélags – þó Gylfi Magnússon, háskólakennari, finni aflandsfélögum allt til foráttu. Gylfi Magnússon, ráðherra, hafði ekki meira við aflandslögsögur að athuga en að hann ákvað að ráða guðföður aflandsfélaga Íslendinga, sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins!
Höfundur er alþingismaður.