Guðni Th Jóhannesson
Guðni Th Jóhannesson
Eftir Guðna Th. Jóhannesson: "„Er alveg sama hvað fólk kallar mig á netinu núna – nema kannski að maður sé sagður einhver kjáni í fræðunum. Þar dreg ég mörkin :)“"

Hér verður svarað þeim ásökunum að ég kunni ekki skil á einföldustu staðreyndum í stjórnmálasögu Íslands. Þessu var haldið fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina. Forsagan er sú að í viðtali hjá Ríkisútvarpinu rakti ég þau sannindi að Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, hefði notið stuðnings stjórnarflokka þegar hann var settur í embætti án atkvæðagreiðslu árin 1945 og 1949. Því miður skolaðist sú lýsing til í frétt útvarpsins og var haft eftir mér að Sveinn hefði „notið formlegs stuðnings beggja stjórnarflokka, árin 1944 og 1949“. Þessu tók ég ekki eftir fyrr en Vef-Þjóðviljinn gerði sér mat úr einni staðreyndavillunni, sem þarna kemur fram, með þessum orðum: „Því miður kemur ekki fram í þessari endursögn hvaða stjórnarflokkar það voru sem studdu Svein Björnsson árið 1944. Þá sat utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar.“

Ég sendi vefritinu að bragði þessi skilaboð: „Þarna er greinilega á ferð innsláttarvilla hjá RÚV. Þetta hefðu sanngjarnir menn séð og ekki gert veður út af. Setningin „Hann var hins vegar sjálfkjörinn“ ætti að hjálpa þar til. Hér er greinilega verið að vísa til endurkjörs SB 1945 og 1949. Þótt gaman geti verið að koma höggi á menn haldið þið þó varla að ég viti ekki hvaða stjórn sat við völd þegar SB var kjörinn á Þingvöllum 1944. Leyfi mér t.d. að benda á að í bók minni um Gunnar Thoroddsen er í fyrsta sinn neglt niður með nokkurri vissu hver kaus hvern þarna. Maður er bara of hógvær eða tímabundinn eða hvað sem á að kalla það til að leiðrétta allt sem misferst þegar eitthvað er haft eftir manni. Þannig hefðuð þið auðvitað líka getað bent á að þetta með „beggja stjórnarflokka“ er málum blandið 1945 og 1949 ef út í það er farið, og ekki frá mér komið.

Kær kveðja,

Guðni

PS: Ef það er of mikill pirringur í þessu hjá mér þá biðst ég afsökunar. Er alveg sama hvað fólk kallar mig á netinu núna – nema kannski að maður sé sagður einhver kjáni í fræðunum. Þar dreg ég mörkin :)“.

Vef-Þjóðviljinn birti svo hluta þessarar athugasemdar en ekki það sem sneri að stjórnarflokkunum þremur 1945 og 1949. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var því spurt: „Hvers vegna lét sagnfræðingurinn, sem gaf sér tíma til að „leiðrétta“ Vef-Þjóðviljann um eitt atriði, allar aðrar vitleysur Fréttastofunnar standa?“ Hér að ofan hafa lesendur Morgunblaðsins svarið. Ég gaf mér svo sannarlega þann stutta tíma sem þurfti en forsvarsmenn vefritsins vildu ekki birta athugasemdina í heild sinni. Ekki veit ég af hverju, hef hingað til þekkt þá að góðu einu. Kannski höfundur Reykjavíkurbréfsins gæti spurt þá að þessu. Hæg ættu að vera heimatökin.

Og heldur höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins virkilega að sagnfræðingur, sem hefur unnið við rannsóknir á stjórnmálasögu tuttugustu aldar um árabil, viti ekki hvaða flokkar sátu í stjórn hverju sinni? Mér finnst þetta vera illkvittni, að elta ólar við augljósan misskilning í löngu máli í Reykjavíkurbréfinu. Maður tekur allri sanngjarnri gagnrýni en þessi hrekkur bréfshöfundar var honum til lítils sóma. Lesendum Morgunblaðsins bendi ég á að öll þessi saga af afstöðu flokkanna til Sveins Björnssonar verður rakin nánar í væntanlegu riti mínu um sögu forsetaembættisins.

Höfundur er sagnfræðingur við Háskóla Íslands.

Höf.: Guðna Th. Jóhannesson