Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Eftir Pálma Stefánsson: "Eplasýra er efni sem myndast í líkamanum og getur inntaka þess reynst vel gegn gigt."

Lífefnafræði lýtur öllum sömu lögmálum efnafræðinnar og efnaeðlisfræðinnar, en er um lífsstarfsemina.Við viljum reyna að skilja allt þótt oft langsótt sé. Við niðurbrot orkuefnanna sykra, fitu og prótína í líkama okkar í CO 2 og vatn myndast mörg milliefni. En eitt sameiginlegt efni sem myndast við niðurbrot þessara þriggja orkuefna er ketomjólkursýra (CH 3 COCOOH), sem er einfalt efni. Svo til allar frumur þurfa að koma því í lóg til að geta unnið orku fyrir lífsstarfsemi sína og er því efninu veitt með hjálp hjálparhvata í margþrepa efnahvarfaferli í hvatberum frumanna sem nefnist sítrónsýruhringrásin eða þrísýruferlið og myndast a.m. kosti átta ný efni og fara raðhvörf þessi í hring eftir hring eða notast aftur og aftur til að taka stöðugt við meiri ketomjólkursýru. Þessi átta efni geta farið ýmist inn eða út úr hringrásinni eftir þörfum frumunnar fyrir þau. Stöðugt fer CO 2 og vatn út úr kerfinu og er þetta því orkuvinnslan á efnaorku (ATP) í frumunni. Einn galli virðist þó á þessu sem gæti hafa orðið í aldanna rás líklega við erfðabreytingar, því við sérstakar óþekktar aðstæður ræður líkaminn ekki við skort á einu efnanna sem heitir oxalediksýra og uppsöfnun verður á acetoediksýru (ketosýra smjörsýru) og myndun orkuberans ATP snarminnkar. Ástæðan er e.t.v. sú að frumurnar, einkum heilafrumur, eiga auðveldara með brjóta niður sykrur en fitu og þola illa skort á glúkósa.Þetta hefur því áhrif á fjöldann allan af lífefnahvörfum í líkama okkar sem þá mynda minna ATP sem rekur flest öll efnahvörfin.

Eplaedik er 5% súr vökvi, unninn með gerjun epla, og fæst í matvöruverslunum. Í honum er eplasýra sem er ein sýranna í sítronsýruhringrásinni en oxalsýran myndast af henni í frumunni. Þarna gæti verið skýring á virkni eplaediks á heilsuna. Ég sjálfur var orðinn ansi illa haldinn eftir 20 ár af verkjum í hnjám, liðagigt, og svo slitgigt í annarri öxlinni og gat ekki orðið lyft hendinni. Hélt þetta líka fyrir mér vöku og virtist bara fara vaxandi og engin bót fannst nema verkjalyf. Eftir lestur bókar eftir lækninn Jarvis um orkusjúkdóma fór ég að drekka blöndu af eplaediki og hunangi ( aðallega bragðbætandi) í vatni. Drakk ég 2-3 glös á dag með mat og eftir þrjá mánuði voru hnjáliðirnir orðnir verkjalausir og eftir fimm og hálfan mánuð var verkurinn algjörlega horfinn úr öxlinni. Síðan eru liðin 11 ár og hef ég alltaf síðan drukkið eitt glas af þessum heilsusamlega drykk á dag, því ekki vil ég fá verkina aftur. En fyrst eplaedikið getur læknað króníska gigt er ég sannfærður um að það kemur fleiru í lag og lagar líka sýrustig vefjanna til hins betra. Þá má nefna að Jarvis læknir ráðlagði að bera edikssýru á æðahnúta og nudda húðina þar til hún er orðin þurr. Þetta hef ég prófað og hurfu æðarnar á kálfa mínum inn aftur við þetta.

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Pálma Stefánsson