Því heyrist nú fleygt, að sálmabókarnefnd Þjóðkirkjunnar sé að hugsa um að fella úr bókinni sálminn nr. 256: Lát þennan dag, vor Drottinn, nú. Hann er snilldarþýðing sr. Valdimars Briem, vígslubiskups á Stóra-Núpi, á sálmi eftir norska biskupinn Johan Nordahl Brun (1745–1816).
Fyrsta erindið hljóðar svo:
Lát þennan dag, vor Drottinn, nú
oss dýran ávöxt færa.
Ó, besti faðir, blessa þú
vorn barnahópinn kæra.
Nú frammi fyrir þér,
vor faðir, stöndum vér,
þín eldri' og yngri börn,
þín elska líknargjörn
vor hjörtu virðist hræra.
Þessi sálmur er mörgum einkar kær og hefur lengi verið sunginn við fermingar í kirkjum landsins. Mun raunar erfitt að finna þá fermingarathöfn, að hann hafi þar ekki verið um hönd hafður. Það eru því ólítil tíðindi ef sálmurinn skal burt úr sálmabókinni; ég sel það ekki dýrar en ég keypti. En sé þetta rétt, er hætt við að fleira gott verði látið fjúka.
Nú er það engin nýlunda og raunar sjálfsagt, að sumir gamlir sálmar víki fyrir nýjum. Í nýrri Sálmabók íslensku kirkjunnar verður væntanlega fjöldi nýrra sálma.
En sporin hræða. Löngu látinn prófastur lét svo um mælt í æviminningum sínum:
„...harmaði ég það, hvernig tókst til með sálmabókina síðustu, að nefndarmenn ráku úr bókinni sumar perlur séra Matthíasar til þess að tylla glertölunum sínum í þeirra stað.“
Vinur minn gamall sagði við mig: „Ósköp er eitthvað lítill kristindómur í þessum nýju sálmum núna; þetta er mestallt um sólina, fuglana og blómin. Næstum, að manni detti í hug vísan eftir danska mjólkurfræðinginn:
Blessuð litla lóan
labbar út á tún.
Og ég labbar líka,
labbar eftir hún.“
Höfundur er pastor emeritus.