András Simonyi
András Simonyi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir András Simonyi: "Norðurlöndin hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar þegar ríki beggja vegna Atlantshafsins hafa reynt að leysa alþjóðlegar áskoranir, bæði innan Evrópu og utan. Þau ríki sem hafa getuna hafa aðstoðað við hernaðaraðgerðir."

Norðurlöndin hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar þegar ríki beggja vegna Atlantshafsins hafa reynt að leysa alþjóðlegar áskoranir, bæði innan Evrópu og utan. Þau ríki sem hafa getuna hafa aðstoðað við hernaðaraðgerðir. Þau eru í forystu þegar kemur að mannúðaraðstoð í sumum af erfiðustu krísupunktum veraldar.

Boð Obama Bandaríkjaforseta til leiðtoga Finnlands, Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um fund í Hvíta húsinu hinn 13. maí er vitnisburður um áhugann vestan Atlantsála fyrir „Norden“. Það að Bandaríkjaforseti hitti leiðtoga Norðurlandanna er ekki án fordæma, en það að bjóða þeim til Hvíta hússins í opinbera heimsókn... það hefur ekki gerst áður.

Og svala Íslandi ætti að líða vel með það. Bandaríkjamenn hafa stundum á orði að „það sé ekkert ríki nógu stórt til að leysa vandamál heimsins á eigin spýtur, og ekkert ríki svo lítið að það geti ekki lagt sitt af mörkum.“ Það passar vel við Ísland.

Sú spurning vaknar: hvers vegna vill Obama hitta leiðtoga Norðurlandanna saman? Það eru næg dæmi þess að forsetinn er mjög hrifinn af Norðurlöndunum, sem sýna sameiginleg einkenni, lausnir fyrir marga Bandaríkjamenn, sem vekja athygli í Bandaríkjunum á tímum þegar mikil spenna ríkir í alþjóðamálum og þegar Bandaríkin sjálf eru að leita að innblæstri að lausnum á þeim vandamálum sem bíða heima og heiman.

En þetta er einnig tími þegar lýðræðislegar stofnanir, stoðir velferðarríkisins og sjálfbærni hins norræna lífsstíls standa frammi fyrir áskorunum. Þær koma í kjölfar þeirra öryggisógna í hánorðri sem fylgja auknum fautaskap Rússa og ágengnum tilraunum þeirra til þess að trufla hin lýðræðislegu samfélög okkar. Öryggismál verða rædd á fundi Bandaríkjaforseta með leiðtogum Norðurlanda. En það er margt annað sem hvetur Obama til að boða til fundarins.

Obama vill að sín verði minnst sem forseta sem í gegnum valdatíð sína barðist fyrir þeim gildum sem í huga Bandaríkjamanna eru tengd Norðurlöndunum: velferðarríki, umhverfisvernd, umhyggja í loftslagsmálum, félagslegt réttlæti, jafnrétti, menntun, nýsköpun og hönnun og hin lága tíðni spillingar. Vitað er að Obama finnst mikil til þess koma hversu mikið traust ríkir þar.

Á hinn bóginn myndi jafnvel þessi mikla aðdáun ekki vera ein og sér talin næg ástæða fyrir opinberri heimsókn. Dagskrá forsetans er þéttsetin það sem eftir lifir kjörtímabilsins og allir fundir hans í Hvíta húsinu senda skilaboð um mikilvægi þeirra ríkja sem fundað er með fyrir Bandaríkin. Boð til Hvíta hússins hafa verið sjaldgæf á síðustu árum, en einungis hafa verið haldnir níu opinberir kvöldverðir þar á öllum þeim árum sem Obama hefur verið forseti. Í flestum tilfellum tengjast þessir fundir alvarlegum krísum eða vandamálum. En Norðurlöndin eru hluti af lausninni, ekki vandamálinu. Í þessu erfiða andrúmslofti alþjóðamála, þar sem spenna og brennipunktar eru víða, sumstaðar vegna vanrækslu og sumir óvæntir, hafa Norðurlöndin lagt mikið til málanna með framlagi sínu til alþjóðasamfélagsins við virka leit að lausnum. Í viðtali sínu, sem nú er vel þekkt, við The Atlantic Magasín í mars síðastliðnum, vísaði forsetinn til þess hversu erfitt væri að leysa vandamál Mið-Austurlanda og lýsti yfir því hversu mjög hann hrifist af hagnýtum lausnum þar sem tilfinningunum væri haldið í skefjum. Sagði hann við aðstoðarmenn sína: „Ef bara allir gætu verið eins og Skandinavarnir, þá væri þetta auðvelt.“

Norðurlöndin hafa lagt þung lóð á vogarskálarnar þegar ríki beggja vegna Atlantshafsins hafa reynt að leysa alþjóðlegar áskoranir, bæði innan Evrópu og utan. Þau ríki sem hafa getuna hafa aðstoðað við hernaðaraðgerðir. Þau eru í forystu þegar kemur að mannúðaraðstoð í sumum af erfiðustu krísupunktum veraldar. Hin hagnýta leið þeirra, sem byggist á því að snúa bökum saman til þess að setja pressu á Rússa ásamt því sem rætt er saman hefur unnið aðdáun og stuðning víða. Þau eru lykillinn að heimskautasvæðunum. Þau eru lykillinn að öryggi Eystrasaltsríkjanna. Þau eru stöðugur þáttur í Evrópu sem er að færast í sundur. Hafið þá einnig í huga þann kraft sem felst í „mjúku valdi“ Norðurlandanna (sem er ekki það mjúkt!). Það er eftirspurn eftir hönnun og listum frá Norðurlöndunum: byggingarlist, kvikmyndir, bókmenntir, sjónvarpsefni, frumleg matargerð, tónlist, tíska og form eins og prjónles. Þetta er allt hluti af „norræna genamenginu“ ef svo má að orði komast. Það er hluti af aðdráttaraflinu. Það er það sem skilar sér í væntumþykju.

Við í hugmyndabankanum okkar höfum verið að reyna að leiðrétta sumt af þeim misskilningi sem umlykur norræna módelið meðal sumra stjórnmálamanna og sérfræðinga í Bandaríkjunum, að Norðurlöndin séu nokkurs konar „sósíalísk útópía“. Við höfum lagt áherslu á það hvernig þeim svipar saman og hvaða mismunur er á þeim, en sú blanda er hluti af aðdráttarafli þeirra. Skilaboð okkar eru þau að löndin séu frjálslynd lýðræðisríki, með sterkan markaðsbúskap, en að þau hafi, svo til að segja, „tamið“ kapítalismann þeim til hagsbóta. Ríkin stunda „Kapítalisma með hjarta“, Hagkerfi þeirra hafi búið til sum af samkeppnishæfustu fyrirtækjum heims og snjöllustu leiðina til nýtingar náttúruauðlinda. Þau leyfa nýsköpun og sköpunargáfu að keyra stóran hluta af hagvexti þeirra. Að lokum, er ég einnig sannfærður um að mikið af áhuga Bandaríkjanna sé vegna þeirra áhyggna Bandaríkjaforseta um árásir á lýðræðisleg gildi víða um Evrópu. Mikilvægi heimsóknarinnar nær því langt út fyrir Norðurlöndin.

Förum nokkrum orðum um Ísland: Krísuástandið sem nýlega kom upp í stjórnmálum landsins hefur sýnt styrk og þrautseigju lýðræðisins á Íslandi. Íslenskt samfélag brást snöggt við uppljóstrununum í „Panama-skjölunum“ til þess að hreinsa nafn sitt. Mun hraðar en aðrir, svo að eftir hefur verið tekið í Washington. Kannski er við hæfi að segja: „Það sem ekki drepur þig, gerir þig sterkari.“ Það er einnig mikilvægt að hagvöxtur á Íslandi er nú með þeim meiri í Evrópu og landið er að verða ein mest skapandi miðstöð heimsins. (Undirritaður er mikill aðdáandi, og hefur unnið mjög náið með íslenskum erindrekum hjá NATO og í Washington um langa hríð, og heimsótt landið oft.)

Leiðtogar Norðurlandanna munu fá einstakt tækifæri í Washington til þess að undirstrika stöðu sína sem nokkrir af mikilvægustu bandamönnum Bandaríkjanna. Lönd sem eru vandlega fléttuð inn í samstarf Atlantshafsríkjanna. Glugginn er opinn. Því miður eiga gluggar þann skrítna eiginleika að vera haldið opnum eða lokuðum, og stundum skellt aftur. Það mun því mæða á forsætisráðherrum Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og forseta Finnlands, hvernig og hvort Norðurlöndin geti haldið glugganum opnum til langrar framtíðar.

Höfundur er sendiherra og framkvæmdastjóri Center for Transatlantic Relations við Johns Hopkins University þar sem hann stýrir verkefninu „Nordic Ways“.

Höf.: András Simonyi