Burðarþolshönnun háspennulína er mjög sérhæfð og ekki kennd í háskólum sem sérfag eins og til dæmis brúarhönnun. Markaður fyrir ráðgjöfina er líka mjög takmarkaður því oft getur liðið langt milli bygginga nýrra háspennulína í raforkukerfum. Hér á landi er umfangsmikil þekking á þessu sviði hjá þremur ráðgjafarfyrirtækjum; Eflu, Mannviti og ARA Engineering. Öll fyrirtækin eru með ráðgjöf erlendis.
Þau rúmu 40 ár sem ég hef fengist við hönnun háspennulína hér á landi hef ég lagt til ýmsar nýjar mastragerðir. Má þar sem dæmi nefna stöguð V-möstur, stöguð röramöstur og trémöstur með styrktarkrossi. Þessar tillögur tel ég hafa sparað ómældar fjárhæðir við línulagnir.
Ég hef tvisvar verið ráðgjafi við samkeppni um möstur. Þá fyrri hélt Landsnet 2008 og hina seinni hélt Statnett í Noregi 2010. Nokkrar tillögur voru þróaðar úr samkeppni Statnetts. Úr samkeppni Landsnets voru fimm tillögur þróaðar og tvær valdar til frekari vinnslu. Þegar ég hætti á verkfræðistofunni Eflu árið 2010 tóku starfsmenn þar við þróunarvinnu fyrir Landsnet og aðkomu minni að samkeppni Landsnets var þar með lokið.
Árið 2012 lagði ég fram hugmynd að þremur nýjum mastragerðum með súluformi. Eitt mastrið, sem er óstagað rör eða svonefnd Ballerína, hlaut brautargengi sem möstur Landsnets gegnum væntanlega byggð að álverinu í Straumsvík. Hugmyndin að mastrinu er algerlega ný. Engar tengingar í mastrinu eru sýnilegar. Hornsteinar arkitektar voru fengnir til að forma mastrið frekar ásamt því að þeir gáfu því lit sem á eftir að vekja athygli. Einar Þór Ingólfsson hjá Ingólfsson&Krabbenhøft í Danmörku reiknaði steyptar tengingar mastursins.
Magnús Rannver Rafnsson hjá Línudansi gagnrýndi Ballerínuna í sjónvarpsfrétt RÚV 17. apríl sl. og sagði hana lögverndaða hönnun fyrirtækisins. Ballerínan var í því sambandi sýnd við hlið stagaðs masturs frá Línudansi. Það er ekki hægt að bera saman ólíkari möstur og eiga þau ekkert sameiginlegt burðarþolslega. Ég hefur áður bent á í Morgunblaðinu að þessi tillaga Línudans virðist bæði burðarþolslega röng miðað við útlitið og virðist ekki standast raffræðilegar kröfur.
Ég hafna því algjörlega framangreindum fullyrðingum Magnúsar. Gagnrýni hans er ekki ný af nálinni. Það hefur margoft komið fram í skrifum hans að hann gerir ekki greinarmun á frístandandi og stöguðum möstrum. Einnig gerir hann ekki greinarmun á stöguðum stálgrindarmöstrum og stöguðum röramöstrum. Honum er tíðrætt um ryð í möstrum þótt það ryð hafi sjaldan áhrif á burðarþol og sé aðeins litarbrigði í yfirborði.
Í Morgunblaðinu 25. október 2012 gagnrýndi ég málflutning Magnúsar Rannvers og benti á að tillögur hans um möstur úr trefjaefnum virtust ekki standast nánari tæknilega skoðun. Magnús Rannver og félagi hans kærðu mig fyrir þessi ummæli til siðanefndar Verkfræðingafélags Íslands. Úrskurður siðanefndarinnar var eftirfarandi:
„Siðanefnd VFÍ hefur fjallað um þau gögn sem fyrir liggja í málinu. Það er skoðun siðanefndar að skrif Árna Björns Jónassonar séu í samræmi við síðustu grein siðanefndar VFÍ undir greininni samfélagsleg ábyrgð. Taka þátt í upplýstri, opinberri umræðu um samfélagsleg málefni þegar hún beinist að fagsviði verkfræðinga. Nefndin telur ávinning að því að verkfræðingar taki þátt í opinni faglegri umræðu um málefni á sviði verkfræði og telur varhugavert að leggja hömlur á þátttöku verkfræðinga í slíkri umræðu.“
Undirritaður er formaður alþjóðlegrar nefndar á vegum Cigre, sem eru alþjóðasamtök aðila sem starfa að framleiðslu og flutningi á rafmagni, háskóla, framleiðenda á rafbúnaði, rannsóknarstofnana og einstaklinga sem starfa á sviði er lýtur að háspenntu rafmagni. Nefnd þessi er að gera úttekt á notkun trefjaefna í möstur um allan heim og taka fjölmargir sérfræðingar þátt í þessu starfi. Safnað hefur verið miklu af gögnum um þróun trefjamastra og mun þetta verða birt í lok ársins 2017 í skýrslu sem verður öllum aðgengileg.
Það er von mín að slík skýrsla geri umræðu um trefjamöstur faglega, líkt og siðanefnd VFÍ leggur áherslu á í úrskurði sínum.
Höfundur er verkfræðingur