Steinþór Jónsson
Steinþór Jónsson
Eftir Steinþór Jónsson: "Ég hef oft á tilfinningunni að Alþýðusambandið kæri sig kollótt um að koma því til skila sem vel er gert eða að rétt sé staðið að hlutum."

Með reglulegu millibili kemur sú niðurstaða æðsta dóms Alþýðusambands Íslands(ASÍ) fram í fjölmiðlum landsins að tilfallandi lækkanir á sköttum eða gjöldum hafi ekki skilað sér til meðlima sambandsins. Eftir því sem ég kemst næst hefur Alþýðusambandið starfsfólk til að mæta í verslanir og kanna verð og haldi úti fólki til að reikna sig niður á einu réttu niðurstöðuna um að niðurfellingin það og það skiptið hafi nú bara alls ekki skilað sér, hafi skilað sér að hluta eða svona mörg prósentustig vanti nú upp á hæfilegt verð smásalans. Virðist ASÍ í engu taka það með í sína útreikninga að sá kostnaður er þeir sjálfir stuðla að hækkunum á er oftast meginorsök þess „ranga“ verðs sem þeir telja vera á vörum. Um er að ræða laun og launatengd gjöld sem sambandið knýr fram hækkanir á með reglulegu millibili, finnist þeim vanta upp á kost félagsmanna. Virðist sem svo að ASÍ telji sér ekkert óviðkomandi hvað kjör fólks varðar og vill véla um allt þar að lútandi, laun, húsnæði, vexti, verðtryggingu og hvað eina sem þeim kemur til hugar við að réttlæta víðfeðma starfsemi sína. Mætti sambandið eyða meiri orku í að aðstoða félagsmennina við að sinna sínum störfum betur þannig að mæting og ástundun sé í samræmi við þau kjör sem knúin hafa verið fram með sameiginlegu átaki. Af nógu er að taka í þeim hluta kjaramálanna.

Ég hef oft á tilfinningunni að Alþýðusambandið kæri sig kollótt um að koma því til skila sem vel er gert eða að rétt sé staðið að hlutum. Í heild hafa allar breytingar á sköttum og gjöldum verið gerðar á þann hátt sem til er ætlast á hverjum tíma og ekki verið blandað saman við verðbreytingar er verða óumflýjanlega þegar Alþýðusambandið hefur hækkað sína verðskrá. Einatt forðast Alþýðusambandið að nefna það að stærsti kostnaðarliður fyrirtækja hafi nú hækkað eða að innlendur kostnaður fyrirtækja sem e.t.v framleiða og selja vöru sína á innanlandsmarkað hafi hækkað fyrir þeirra eigin tilstuðlan. Kostnaðarhlutfall launa er afar mismunandi milli fyrirtækja og eru dæmi um að laun séu 80% kostnaðar t.d. hjá verkfræðistofum og í hugverkaiðnaði. Ekki er óalgengt að í framleiðslugreinum sé launahlutfall á milli 40% og 50% af kostnaði rekstrarins. Á mörgum sviðum er það mikil samkeppni að þó að knýjandi þörf sé á verðhækkunum, sem sambandið hefur knúið á um, treysta smásalar sér illa til að hækka sitt verð. Alþýðusambandið, ríkisvaldið og opinberir aðilar hafa enga samkeppni og hækka sín gjöld er þeim þykir henta. Það þyrfti kannski að taka það með í reikninginn?

Höfundur er atvinnurekandi.

Höf.: Steinþór Jónsson