Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "Ég skora því á eldri sem yngri kjósendur að sýna sjálfum sér þá virðingu að kynna sér og rifja upp sannleikann um feril þessa manns áður en þeir taka afstöðu."

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra með meiru, hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands. Öllum má vera ljóst að hér fer einn öflugasti stjórnmálamaður Íslands undanfarna áratugi; maður sem hefur haft sterka grunnskoðun í stjórnmálum sem hann hefur fylgt, ekki bara í orði heldur líka á borði. Allt hefur það verið þjóðinni til farsældar þegar á heildina er litið þó að hann hafi sjálfsagt gert eitthvað á ferli sínum sem hann sjálfur telur eftir á að betur hefði mátt fara. Slíkt á líklega við um okkur öll og þá sjálfsagt í meira mæli en nokkurn tíma verður hægt að segja um Davíð.

Fyrir um það bil 15 árum urðu þau atvik hér í okkar litla landi að þessi forystumaður þjóðarinnar lenti í útistöðum við fésýslumenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína. Hann var þá forsætisráðherra. Flestir Íslendingar sem þá höfðu slitið barnsskónum muna eftir þessu. Viðbrögð þessara efnamanna, og þá einkum feðga sem kenndir voru við Baug, urðu heiftúðleg. Þeir notuðu auðlegð sína til að koma sér upp fjölmiðlafyrirtæki sem meðal annars rak sjónvarpsstöð og gaf út dagblað, líklega fyrst og fremst til að reyna að koma höggi á fjandmann sinn forsætisráðherrann, þó að oft væri reynt að tala undir rós og nafnlaust svo ekki kæmist upp um aðkeyptu kauðana sem á penna héldu hverju sinni. Hér upphófst í rauninni einhver grófasta rógsherferð gegn einum manni sem Íslendingar hafa orðið vitni að fyrr og síðar. Þessi herferð hefur haldið áfram alla tíð síðan, þó að Davíð hafi fyrir löngu hætt opinberum störfum sínum. Það er eins og allstór hópur manna, sem reglulega koma fram opinberlega eða halda uppi skrifum í útbreiddum netmiðlum, hafi gert manninn að eins konar leiðtoga lífs síns, þó að með öfugum formerkjum sé. Þar hefur látlaust verið beitt ósannindum og hrakyrðum sem ætti auðvitað ekki að teljast boðlegt í samfélagi siðaðra manna.

Og þetta hefur haft áhrif. Látlaus áróður af þessu tagi gerir það. Mörg dæmi þekkjast úr mannkynssögunni um að viðlíka áróðursherferðir virki, jafnvel gagnvart þeim sem eiga að vita betur. Margt fólk sem man þessa tíma virðist láta þetta hafa áhrif á sig núna þegar að því kemur að velja milli frambjóðenda við forsetakjör. Og þá ekki síður þeir sem yngri eru og muna ekki eftir Davíð sem pólitískum forystumanni þjóðarinnar.

Það er að mínum dómi vel til fundið að stuðla að því að Davíð ljúki ferli sínum í opinberu lífi á Íslandi með því að gegna embætti forseta Íslands. Til þess hefur hann auðvitað alla burði, eins og allir Íslendingar ættu að átta sig á. Ég skora því á eldri sem yngri kjósendur við forsetakjörið að gerast ekki fórnarlömb einhliða áróðurs og illmælgi þegar þeir taka afstöðu, heldur sýna sjálfum sér þá virðingu að kynna sér og rifja upp sannleikann um feril þessa manns áður en þeir taka afstöðu. Annað er mönnum ekki sæmandi.

Ég tek fram að með þessum orðum er ég ekki að halla orðinu á helsta mótframbjóðanda Davíðs, Guðna Th. Jóhannesson. Hann er sjálfsagt hinn mætasti maður sem á allt gott skilið, þó að ljóst sé að hann hefur ekki sömu reynslu og Davíð og yrði kannski ekki jafn óttalaus við að taka ákvarðanir þjóðinni til heilla á erfiðum stundum.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jón Steinar Gunnlaugsson