Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Illa þolir núverandi borgarstjórnarmeirihluti spurninguna um hvað jarðgöngin sem hraðlestin færi í gegnum geti kostað."
Fyrir löngu átti Alþingi að samþykkja frumvarp Höskuldar Þórhallssonar þingmanns um að skipulagsvaldið yfir flugvellinum í Vatnsmýri verði flutt frá Reykjavíkurborg til íslenska ríkisins. Þriðjudaginn 15. desember 2015 voru kynntar í Fréttablaðinu vitlausar hugmyndir, um skipulag vegna hraðlestar milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Það snýst um að grafin verði 14 km löng jarðgöng úr Vatnsmýri undir Öskjuhlíð, Fossvog, Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð, án þess að vitað sé um jarðfræðilegar aðstæður undir öllu höfuðborgarsvæðinu. Þar getur áhættan verið of mikil, á meðan andstæðingar flugvallarins vilja ekkert um það vita. Aldrei hefur verið rannsakað hvort þessi jarðgöng þurfi að fara niður á enn meira dýpi en Hvalfjarðargöngin. Slæm fjárhagsstaða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum kemur í veg fyrir að þau ráði auðveldlega við fjármögnun hraðlestarinnar sem talið er að kosti 250-300 milljarða króna. Á Reykjavíkursvæðinu telja margir hagfræðingar að forsendurnar fyrir áætluðum heildarkostnaði, við þetta lestarkerfi sem erfitt er að fjármagna standist aldrei. Illa þolir núverandi borgarstjórnarmeirihluti spurninguna um hvað jarðgöngin sem hraðlestin færi í gegnum geti kostað. Ekki er útilokað að þessi göng kosti ein og sér 26-30 milljarða króna, ef gangalengdin yrði 14 km. Ákvörðunin um að ógilda skipulagsvaldið yfir Reykjavíkurflugvelli og lokun neyðarbrautarinnar flýtir ekki fyrir því að lífæð allra landsmanna fari úr Vatnsmýri eftir átta ár. Þá hljóta einhverjir að spyrja hvort allar tilraunir til að taka í notkun háhraðalest milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur árið 2024 muni fljótlega renna út í sandinn þegar það sannast að andstæðingar flugvallarins reikna vitlaust og sitja uppi með skömmina. Fullvíst þykir að þeir þurfi aldrei að bæta fyrir mistök sín sem verða síðar meir skrifuð á reikning skattgreiðendanna þegar í ljós kemur að fjögur þúsund króna fargjald á hvern farþega stendur aldrei undir fjármögnun og rekstri háhraðalestarinnar. Nýlega rak Héraðsdómur hornin í sjúkraflugið með því að sníða dóminn um lokun neyðarbrautarinnar eftir duttlungum borgarstjóra til að réttlæta brot á skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar án þess að mannslíf skipti nokkru máli. Ég spyr: Getur borgarstjóri næstu mánuðina teymt Héraðsdóm á asnaeyrunum þegar honum hentar? Tímabært er að núverandi ráðherra samgöngumála, Ólöf Nordal, segi endanlega upp samkomulaginu við borgarstjórnarmeirihlutann um bætta aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli sem undirritað var í tíð fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og Jóns Gnarr, þáverandi borgarstjóra. Sjálfur braut Dagur B. þetta samkomulag áður en hann ákvað skyndilega að stefna íslenska ríkinu vegna vanefnda um lokun neyðarbrautarinnar. Hrós mitt fær Ólöf Nordal sem tók rétta ákvörðun og hafnaði kröfu núverandi borgarstjóra um að þessi flugbraut verði í 50 km fjarlægð frá Reykjavíkurflugvelli. Áður sendi Samgöngustofa frá sér skýr skilaboð um að byggingarnar sem Valsmenn vilja reisa á Hlíðarendasvæðinu mættu ekki fara upp í hæð fluglínunnar við enda neyðarbrautarinnar. Örfáum mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma stefnir það öryggi sjúkraflugvélar í enn meiri hættu ef flugmaður, sem flytur fárveikan mann utan af landi til Reykjavíkur, verður vegna of mikils hliðarvinds að hætta við lendingu á A-V- og N-S-flugbrautunum sem Dagur B. vill glaður loka gegn vilja 73% Reykvíkinga. Önnur spurning: Hvert geta sjúkraflugmenn Mýflugs tekið stefnuna ef sama vandamál kemur upp á Keflavíkurflugvelli, sem er í alltof mikilli fjarlægð frá Reykjavík? Krafan sem andstæðingar Reykjavíkurflugvallar halda til streitu um að sjúkraflugvél Mýflugs lendi frekar í 50 km fjarlægð frá sjúkrahúsum höfuðborgarinnar mælist illa fyrir hjá starfandi læknum í Reykjavík sem eðlilegt er. Þriðja spurning: Ætlar Dagur B., sem lögsækir íslenska ríkið, að safna mörg þúsund undirskriftum gegn flugmönnum Mýflugs ef þeir neita að lengja flutningsleiðina um þennan kílómetrafjölda þegar slasaður maður úti á landi þarf að komast á sem stystum tíma undir læknishendur í Reykjavík?

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson