Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Veröldin væri svo miklu fátækari ef þú hefðir aldrei verið. Fátækari án þinna upplifanna, sem enginn getur miðlað til komandi kynslóða nema þú."

Þú sem hefur unnið og stritað, alið upp börn og axlað ábyrgð þjóðfélagsins, greitt þína skatta og skyldur, byggt upp og gefið af þér. Þú sem átt reynslu ævinnar að baki og manst tímana tvenna og jafnvel þrenna. Þú sem kannt sögurnar sem ekki mega þagna og þú sem kannt bænirnar sem ekki mega gleymast. Réttu úr þér og berðu höfuðið með reisn.

Þú hefur svo mikið að gefa og miklu að miðla í umhverfinu, í samtímanum og til komandi kynslóða. Af sögum, ljóðum og bænum. Trú, von og kærleika. Reynslu, umhyggju og ást.

Veröldin væri svo miklu fátækari ef þú hefðir aldrei verið. Fátækari án þinna upplifanna, sem enginn getur miðlað til komandi kynslóða nema þú segir frá, með þínum hætti, frá þínu sjónarhorni.

Haltu því fyrir alla muni áfram að gefa af þér. Fegra umhverfi þitt með gjöfum og strá fræjum kærleika og umhyggju. Við þurfum öll á því að halda.

Láttu engan líta smáum augum á aldur þinn, þekkingu eða reynslu. Það er nefnilega enginn eins og þú.

Með kærleiks- og sumarkveðju!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson