Alltaf heyrir maður öðru hvoru að sami „rassinn,“ sé undir öllum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum og engu skipti hverjir sitji í ríkisstjórn, hvað þá að forsetinn á Bessastöðum geti nokkru ráðið. Þess vegna er fróðlegt að rifja upp og rýna í stöðuna nú í miðri kosningabaráttu um forsetaembættið og þegar styttist einnig í alþingiskosningar. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var í mögnuðu viðtali í Fréttablaðinu nú á dögunum. Þar skýrði hann frá miklum pólitískum átökum sem hann sá sig knúinn til að ganga inn í til að verja hagsmuni Íslendinga og Íslands. Forsetinn rifjar upp þegar hann fór gegn sitjandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu.
Forsetinn tapaði vináttunni við félagana
Ólafur Ragnar Grímsson segir í viðtalinu að erfiðust hafi verið ákvarðanatakan um að vísa Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Blaðamaður spyr. „Varstu beittur þrýstingi? Var þér hótað?“ Hann svarar: „Það fer eftir því hvað þið kallið hótanir, en förum aftur í tímann,“ segir hann og rifjar síðan upp atburðarásina. „Það var umsátur um Ísland. Öll löndin á Norðurlöndum, allar ríkisstjórnir í ESB voru á móti okkar málstað, þær vildu knýja okkur til að semja við Breta og Hollendinga. Í stjórn AGS var því valdi Evrópuríkjanna beitt til að við fengjum ekki fyrirgreiðslu sem við áttum rétt á, nema við beygðum okkur undir nauðasamninga við þessar þjóðir.“ Þetta var ástandið erlendis og AGS (Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) var þá búinn að taka Ísland að sér og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og réði hér miklu.En hvernig var ástandið hér heima á sama tíma, látum forsetann segja frá: „Jafnframt voru margir fremstu sérfræðingar og álitsgjafar þessa lands sem sögðu að ef ég leyfði þjóðinni að kjósa um þetta mál væri ég að dæma Ísland til eilífrar útskúfunar úr fjármálakerfi heimsins. Merkimiðinn Kúba norðursins var þekktur í þeirri umræðu.“
„Hverslags fífl er þessi forseti Íslands?“
Forsetinn segir þetta ennfremur í viðtalinu: „Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn var ekki bara á móti mér – heldur harkalega á móti mér.“ Forsetinn lýsir þessum þrýstingi og árásum sem óbærilegum og að aldrei í sögu Íslands hafi maður verið beittur þvílíkum þrýstingi og svigurmælum, það hafi aldrei gerst í Íslandssögunni. Ólafur Ragnar forseti segist svo vona að aldrei aftur þurfi nokkur maður að takast á við slíkt gjörningaveður, hann hafi tapað áratugavináttu manna og stór hluti þeirra hafi ekki talað við hann síðan. Forsetinn setti af stað mikilvægustu þjóðaratkvæðagreiðslur sem fram hafa farið hér á landi og í tvígang hafnaði íslenska þjóðin Icesave með yfirgnæfandi meirihluta í bæði skiptin. Loks dæmdi EFTA-dómstóllinn okkur í hag og að makalausar kröfur Breta og Hollendinga væru lögleysur og að okkur bæri ekki að borga þessa upphæð sem stæði í dag í 208 milljörðum hefðu þeir haft sitt fram. Á þessum tíma var Ísland einangrað og landið stefndi í gjaldþrot og fordómarnir í okkar garð birtust með þeim hætti að margir merkir menn erlendis, bæði starfandi stjórnmálamenn og fræðimenn, réðust persónulega á forseta Íslands og svívirtu hann, rifjar forsetinn upp og nefnir þá Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, og Mogens Lykketoft, fyrrverandi forseta danska þingsins og ráðherra um langa hríð, en í vinsælum sjónvarpsþætti úthrópuðu þeir Ólaf Ragnar og spurðu „Hverslags fífl er þessi forseti Íslands?“
Hvað segja forsetaefnin nú?
Svona voru nú átökin og umræðan um þetta stóra átakamál. Og svo settu Bretarnir hryðjuverkalög á Ísland eins og hér byggju aðeins stórglæpamenn, ætluðu með okkur sem þjóð norður og niður. Enn var það forsetinn sem nánast einn tók vörnina erlendis fyrir Ísland og gagnrýndi Gordon Brown og Bretana og einnig ESB-ríkin fyrir þetta níðingsverk sem var gert í skjóli þeirra. En íslenska þjóðin brást ekki sjálfri sér og lét áróður þessara manna og sinna ráðherra, hvort það var Jóhanna Sigurðardóttir, Gylfi Magnússon eða Steingrímur J. Sigfússon, sig engu skipta og felldi Icesave.Nú veljum við nýjan forseta og ég tel rétt að forsetaefnin séu spurð: hvernig hefðu þau höndlað þetta mál hefðu þau staðið í sporum Ólafs Ragnars Grímssonar í Icesave?
Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.