Helgi Helgason
Helgi Helgason
Eftir Helga Helgason: "Úti í þjóðfélaginu er ekki sátt um þetta frumvarp og verður aldrei!"

Nei, það er ekki þverpólitísk sátt um frumvarp til útlendingalaga sem innanríkisráðherra mælti fyrir á þingi þann 20. apríl. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar sumir hverjir hafa verið duglegir við að gapa um að það sé mikil sátt um frumvarpið í öllum flokkum á þingi. Kannski er það óskhyggja einhverra þingmanna og fjölmiðla að ef þeir hamra nógu oft og lengi á þverpólitískri sátt á Alþingi um frumvarpið verði þjóðarsátt um það líka. Úti í þjóðfélaginu er ekki sátt um þetta frumvarp og verður aldrei. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það sé ekki grundvöllur fyrir synjum á hæli eða tímabundnu dvalarleyfi þó að þeir sem hingað komi komi á fölskum forsendum eða ljúgi til um aldur eða villi á sér heimildir. Það er líka galopið að þeim sem eyðileggja skilríki sín á leiðinni eða eru með fölsuð skilríki sé ekki refsað fyrir það hvað þá að það sé grundvöllur synjunar hælis eða dvalarleyfis. Norðurlöndin hafa verið að breyta sínum lögum um útlendinga. Þar er hert til muna leyfi til sameiningar fjölskyldna. Meðal annars vegna fjölkvænismanna frá ríkjum íslams. Það er líka alvarlegt að manni virðist frumvarpið ekki gera ráð fyrir að séð sé til þess að menn mæti í læknisskoðun. Það virðist vera undir þeim sjálfum komið. Það er líka merkilegt að umsækjendum um „alþjóðlega vernd“ skal standa til boða: „a. húsnæði, b. lágmarksframfærsla og c. nauðsynleg heilbrigðisþjónusta“. Stendur þetta Íslendingum líka til boða?

„Hvert á ég að flýja?“

Þetta vekur umhugsun. Sérstaklega „b. lágmarksframfærsla“. Hvað þýðir það? Nú vitum við að öryrkjar hafa verið mjög gagnrýnir, með réttu, á það sem stjórnvöld telja að þeir þurfi til lágmarksframfærslu. Og ekki bara þeir heldur íslensk alþýða almennt. Framfærsla er ekki í takt við útgjöld og eftir greiðslu t.d. húsaleigu og annars fasts kostnaðar dugar hún ekki fyrir mat allan mánuðinn. Þann 16.4. birtist frétt á visir.is um að tilkynnt hefði verið til lögreglu um konu á vergangi í Hafnarfirði. Konan var með tvær ferðatöskur, í þeim var aleigan. Hún var drukkin. Hún fékk að gista fangageymslur. Þetta er átakanleg lýsing á aðstæðum meðborgara okkar. Eftir því sem fréttin ber með sér á þessi kona ekki rétt á: „a. húsnæði, b. lágmarksframfærslu og c. nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu“, eins og þeir sem hingað koma og sækja um hæli. Í apríl birtist í Morgunblaðinu grein eftir Hermann Ólason sem bar fyrirsögnina „Hvert á ég að flýja?“. Hann sagði frá því að verið væri að henda honum út úr herbergi á Arnarholti á Kjalarnesi sem hann leigir. Í þessu húsi búa hælisleitendur, ungir karlar, íslamistar, sem sætu við drykkju og væru með háreysti og læti allar nætur. Í húsaleigusamningi hans er kveðið á um algjöra reglusemi, að öðrum kosti mætti rifta húsaleigusamningnum. En það er ekki óreglusemi af hans hálfu sem er ástæða þess að honum er hent út. Nei, það er vegna þess að herbergið þarf undir flóttamann. Þessi íslenski maður hefur ekki sömu réttindi og flóttamenn sem hingað koma sem eru: „a. húsnæði, b. lágmarksframfærsla...“.

Hvar er nú „góða“ fólkið?

Hvar er nú „góða“ fólkið sem strengdi þess heit að taka alla heimsins flóttamenn inn á heimili sitt? Hvar er nú „kæra Eygló“? Ætlar „góða“ fólkið að horfa uppá vesalings íslamistana á Arnarholti í óreglu? Ætlar það ekki að taka þá inn á heimili sín? Ég ætla ekki að spyrja hvort það ætli ekki líka að taka Íslendinginn sem mun lenda á götunni innan skamms eða konuna sem er á götunni upp á sína arma. Ég þykist nokkuð viss um að það dettur því ekki í hug að gera.

Höfundur er formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Höf.: Helga Helgason