Róbert Guðfinnsson
Róbert Guðfinnsson
Eftir Róbert Guðfinnsson: "Það ætti því ekki að koma mönnum á óvart ef vörumerki félagsins „Icelandic“ verður að lokum selt hæstbjóðanda á alþjóðlegu uppboði."

Á árunum 1999-2005 var ég, undirritaður, stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SH, sem síðar fékk nafnið Icelandic Group. Flaggskip í markaðssetningu sjávarafurða frá Íslandi.

Á þeim tíma var ítrekað reynt að fá íslenska lífeyrissjóði til að koma með nýtt fé inn í félagið til að byggja upp öfluga, alþjóðlega markaðssetningu. Icelandic Group var á þeim tíma skráð á hlutabréfamarkað. Stjórnendur lífeyrissjóða töldu þá að fjármunum fólksins í landinu væri betur komið fyrir annars staðar en í sjávarútvegi.

Á síðustu árunum fyrir hrunið 2008 höfðu lífeyrissjóðirnir að mestu selt sig út úr sjávarútvegsfyrirtækum og skyldri starfsemi. Þeir litu orðið á sjávarútveg sem lítt spennandi fjárfestingakost sem stæðist ekki samkeppni um ávöxtun við ört vaxandi fjármálaveldin.

Ekki þarf að fara nánar út í hvernig fór fyrir fjárfestingum lífeyrissjóðanna í fjármálageiranum.

Í desember 2009 stofnuðu sextán lífeyrissjóðir Framtakssjóð Íslands. Sjóð með háleit markmið um þátttöku í enduruppbyggingu íslensks atvinnulífs. Lesa má um þessi fögru fyrirheit á heimasíðu Framtakssjóðsins.

Það varð ógæfa míns gamla félags að lenda í þessum slæma félagsskap, Framtakssjóði, sem hafði takmarkaðan líftíma og skammtímahyggju að leiðarljósi. Ég hef oft fundið til með mínum tryggu samstarfsmönnum sem enn starfa hjá Icelandic Group. Það er fátt verra en að starfa hjá félagi með fjarlægan eiganda sem velur sér fulltrúa sem ekki kann til verka til að fara með eigendavaldið. Á síðustu árum hefur verið unnið að sölu Icelandic Group í pörtum til að innleysa hagnað á þá fjármuni sem Framtakssjóðurinn hafði lagt í félagið. Nú er svo komið að undir Icelandic Group er eingöngu rekstur í nokkrum löndum Evrópu. Þær einingar sem eftir eru hafa verið endurskipulagðar og sýna ágæta afkomu. Það er víst ekki fullnægjandi fyrir Framtakssjóðinn heldur virðist sjóðurinn nú vera að leysa félagið upp að fullu.

Það ætti því ekki að koma mönnum á óvart ef vörumerki félagsins „Icelandic“ verður að lokum selt hæstbjóðanda á alþjóðlegu uppboði. Hjá Framtakssjóðnum er jú allt falt fyrir skammtímagróða. Þau fyrirheit sem gefin voru í desember 2009 eru nú að snúast upp í andhverfu sína. Framtakssjóðurinn er að enda sem útfararstofa fyrir Icelandic Group.

Um tíma var Framtakssjóðurinn með sterka stöðu og eitt helsta stolt Íslendinga Icelandair Group. Við sem höfum fjárfest í ferðamennsku megum þakka fyrir að stjórnendur Framtakssjóðsins náðu ekki að stýra þróuninni í því farsæla félagi og innleiða þar vinnubrögð sín. Þá sætu flugmenn Icelandair sennilega í hreyfilslausum flugvélum úti á Keflavíkurflugvelli að reyna að koma þeim í loftið. Á sama tíma sætu stjórnendur Framtakssjóðsins við tölvur sínar og reiknuðu út skammtímagróða af hreyfilssölu.

Við endurreisn efnahags landsins héldu menn að ný hugsun kæmi í fjárfestingar og horft yrði til lengri tíma. Svo er víst ekki. Ekkert virðist hafa breyst. Það kæmi því ekki á óvart að sagan endurtæki sig. Með bútasölunni á Icelandic Group losi lífeyrissjóðirnir um fjármagn til að kaupa aftur hlut í bönkum og tryggingafélögum. Verði þeim að góðu.

Höfundur er athafnamaður á Siglufirði.

Höf.: Róbert Guðfinnsson