Sigurlaug Pétursdóttir Þormar fæddist á Galtará í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu 18. desember 1923. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 5. maí 2016.
Foreldrar hennar voru Anna Jakobsdóttir, f. 24. jan. 1887, d. 29. mars 1957, og Pétur Pétursson, f. 9. ágúst 1886, d. 9. okt. 1981. Systkini Sigurlaugar voru Kristín, f. 1915, d. 2010, Sigurður. f. 1916, d. 1960, Jakob Gunnar, f. 18. jan. 1919, d. 2003, Pétur Jónas, f. 15. júlí 1920, d. 2007, Sigríður, f. 16. sept. 1921, d. 2. feb. 2011. Eiginmaður Sigurlaugar var Valgeir Þormar, f. 1926, d. 2005. Börn þeirra eru fjögur 1) Sigmar, f. 1957, menntaskólakennari. Eiginkona hans er Alfa Kristjánsdóttir og börn þeirra Valgeir, Vigdís og Aðalsteinn. Vigdís er í sambúð með Árna Gunnari Haraldssyni. Þau eiga eitt barn. 2) Anna, f. 1959, starfsmaður Fiskistofu. Eiginmaður hennar er Auðunn G. Guðmundsson og börn Magnea Erna, Daníel og Guðmundur. Guðmundur er í sambúð með Jennýju Maggý Rúriksdóttur og eiga þau tvö börn. 3) Pétur, f. 1960, bílstjóri, og 4) Sigurður, f. 1967, starfsmaður ÍSAL. Sigurlaug lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Staðarfelli vorið 1944. Hún flutti til Reykjavíkur í svokallaða vist (þjónustustörf) á heimilum. Sigurlaug rak þvottahús ásamt eiginmanni sínum og var starfsmaður Sláturfélags Suðurlands.
Útför Sigurlaugar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 19. maí 2016, kl. 13.
Þau giftu sig og leigðu íbúð í Þingholtunum í Reykjavík. Erfiður atburður skyggði þó á gleðina yfir fæðingu frumburðarins. Að kvöldi aðfangadags jóla 1957 brann húsið Þingholtsstræti 28 í Reykjavík þar sem þau bjuggu. Þetta var einn stærsti bruni fjölbýlishúss sem orðið hefur á Íslandi. Móðir okkar yfirgaf brennandi húsið í skyndi með ungabarnið í fanginu á meðan faðir okkar og Jakob Pétursson frændi okkar björguðu því litla af búslóð þeirra sem náðist úr brunanum.
Skólaganga mömmu var takmörkuð við heimakennslu á sveitabæjum og einn vetur á Húsmæðraskólanum að Staðarfelli. En líkt og margir Íslendingar hafði hún lesið sér til um veröldina sem var þarna fyrir utan Breiðafjörðinn. Líkt og ævisögu Tómasar Alva Edisons bandaríska uppfinningamannsins, hvernig ljósaperan og aðrar nýjungar urðu til sem gerbreyttu lífi fólks í sveitum landsins sem að miklu leyti hafði lítið breyst í þúsund ár.
Hörð lífsbarátta alþýðufólks á fyrri hluta síðustu aldar mótuðu um margt lífssýn móður okkar. Hún réð sig í vist og komst þá í kynni við heimilislíf fólks sem taldist sumt kannski til yfirstéttar í Reykjavík. Sigurlaug stóð alltaf föst á sínu gagnvart vinnuveitendum sínum varðandi það sem um var samið í sambandi við kaup og kjör enda lagði hún sig alltaf fram sjálf um að standa við sitt. Um þetta sagði hún okkur stundum sögur. Hvernig heldra fólk varð að gefa eftir frekar en missa hana úr vistinni. Skemmtilegust er kannski sagan um herbergið sem átti að taka af henni vegna væntanlegrar gestakomu á heimilið. Aldrei var þó um nokkurn æsing að ræða í svona málum hjá móður okkar. Frekar voru línur lagðar og viðsemjendum gefinn kostur á að standa við gerða samninga. Sögurnar sem hún sagði okkur úr vistinni voru þó miklu oftar ánægjulegar. Til dæmis um börn fólksins sem hún tók ástfóstri við.
Festa, vinnusemi, og ákveðni um að standa á sínu virðist hafa verið veganesti mömmu frá æskustöðvunum á Vestfjörðum. Kannski mótaði líf við kröpp kjör einnig móður okkar sem jafnaðarmanneskju. Hún var alltaf mjög meðvituð um nauðsyn þess að vinnandi fólk og þeir sem minna máttu sín fengju að búa við mannsæmandi kjör. Þetta var lífssýn sem hún deildi mjög með eiginmanni sínum. Þó þau hjónin kæmu lítið nálægt almennu flokksstarfi stjórnmálaflokka voru þau eldheitir stuðningsmenn þeirra sem boðuðu nýja tíma og voru með þeim fyrstu til að greiða götu og tala máli frambjóðenda eins og Vigdísar Finnbogadóttur, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Vilmundar Gylfasonar.
Upp úr áttræðisafmælinu fór móðir okkar að sýna merki heilsubrests. Fljótlega var hún greind með byrjunareinkenni alzheimersjúkdómsins. Á nokkrum mánuðum hrakaði henni svo að hún átti orðið erfitt með að taka þátt í daglegu lífi. Sigurlaug flutti á Dvalar og hjúkrunarheimilið Grund til langtímadvalar þar sem hún var næstu ellefu árin. Á Grund naut hún úrvalsumönnunar frábærs starfsfólks. Fyrstu árin á Grund fór minnið að hverfa en það virtist svo að lengst héldust æskuminningarnar um fjölskyldulífið í sveitinni, foreldra og systkini á Galtará.
Sigmar Þormar, Anna Þormar, Pétur Þormar, Sigurður Þormar.