Jóna Gunnarsdóttir fæddist í Vinaminni í Sandgerði 2. ágúst 1927. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjanesbæ 9. maí 2016.
Foreldrar hennar voru Gunnar J. Jónsson, f. 28. júlí 1904, d. 9. nóvember 1992, og Rannveig G. Magnúsdóttir, f. 24. júní 1902, d 7. ágúst 1988. Systur Jónu voru Margrét Freyja Sigurlásdóttir, f. 29. júní 1921, d. 6. mars 1960, Lilja Gunnarsdóttir, f. 11. janúar 1935, d 6. apríl 2013, og eftirlifandi bróðir er Óskar Gunnarsson, f. 26. maí 1945, búsettur í Sandgerði. Jóna gekk í hjónaband 27. maí 1950 með Gunnari V. Kristjánssyni frá Sólbakka, Ytri Njarðvík, f. 22. mars 1928. Jóna og Gunnar eignuðust fjögur börn: 1) Gunnveig Hulda Gunnarsdóttir, f. 31. mars 1946, maki Thor Sverrisson. 2) Einar Pálsson Gunnarsson, f. 22. september 1949, maki Þorbjörg R. Óskarsdóttir. 3) Linda Gunnarsdóttir, f. 21. júní 1957, d. 21. mars 1958. 4) Dagbjört Linda Gunnarsdóttir, f. 22. nóvember 1959, maki Jón Kr. Magnússon. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin 16.
Jóna vann við fiskvinnslu og barnapössun á unglingsárum en helgaði síðan starfskrafta sína heimilinu og fjölskyldu alla tíð.
Útför Jónu fer fram frá Ytri Njarðvíkurkirkju í dag, 19. maí 2016, klukkan 13.

Ég var 10 ára gamall í sendiferð fyrir föður minn þegar ég sá Jónu fyrst. Ég var á hesti og reiddi með mér það sem ég þurfti að flytja, en hún var komin til Magnúsar afa síns í Traðhúsum í Kirkjuvogshverfinu. Hún sagðist vera frá Sandgerði og verða í Höfnunum í sumar. Hún hafði mikinn áhuga á hestinum sem ég var með og vildi endilega fá að teyma og fara á bak, sem var sjálfsagt. Eftir þetta töluðum við Jóna alltaf saman þegar við hittumst, sem var nokkuð oft. Ég vissi ekki hvar Sandgerði var en hafði hugmynd um að það væri einhvers staðar í námunda við þar sem sólin settist á kvöldin og það hlyti að vera fallegt þar. Svo vildi til þegar ég var 19 ára að ég fór að vinna með föður mínum við húsbyggingu í Sandgerði og hitti Jónu oft þar og alltaf fór vel á með okkur. Eftir þennan tíma fór ég af landi brott til náms og kom ekki heim fyrr en að vori til að tveim árum liðnum. Ég fór sem aðrir á 17. júní skemmtun í Krossinn í Njarðvíkum, stóð fyrir utan og virti fyrir mér umhverfið og fólkið þegar ég sá par koma gangandi til mín. Það urðu fagnaðarfundir þegar þau komu nær mér því þar voru komin Jóna og maðurinn hennar, Gunnar Kristjánsson, sem mér var að góðu kunnur. Síðan leið nokkur tími þar til ég flutti með konu minni Guðrúnu í Ytri-Njarðvík og alltaf var sama góða sambandið við Jónu og Gunnar.

Við hjón fluttumst til Reykjavíkur en alltaf héldum við okkar góða sambandi þrátt fyrir fjarlægð og lélegan veg á milli. Um þetta leyti keyptum við okkur spildu undir sumarbústað í Grímsnesi, og Gunnar og Jóna líka. Það var mjög dýrmætur tími fyrir okkur öll því ekki var langt á milli. Tíminn leið við leik og störf og Jóna hafði yndi af fallegum blómum og jurtum. Gunnar var iðinn við að setja niður, þar sem hann kallaði Jónulund, en sumarbústað þeirra og yndisland nefndu þau Hvamm. Þar var alltaf gott að koma, góður andi og vinátta réð þar ríkjum.

Þau hjón byggðu sér hús í Keflavík. Það var yndislegt heimili, sem sýndi listhneigð Jónu á allan hátt, sérstaklega margvíslegar útsaumaðar myndir með ótrúlegu handbragði. Hún hafði lag á að skapa stórkostlegar myndir úr þræði á stóra og smáa fleti og þau hjón komu listinni fyrir á heimilinu öllum sem þar komu til mikillar ánægju og gleði. Starfsgleðin skein út úr hverju handverkinu á fætur öðru, svo unun var á að líta.

En eftir sumarið kom haust og dimmari dagar. Hún greindist með hægfara heilasjúkdóm, sem erfitt var að eiga við. Hún tók þessum tíðindum með jafnaðargeði og gerði sitt til að létta fjölskyldunni erfiðleikana sem óhjákvæmilega kæmu í kjölfarið. Það gefur augaleið að starfsöm kona eins og hún hefur átt erfitt með að sitja verklaus. Hún lét þó hvorki kvíða né leiðindi í ljós, en heilsaði okkur alltaf með brosi á vör meðan hún gat tjáð sig. Hún var ein af þessum þöglu hetjum, sem taka æðrulaust á móti því sem forsjónin lætur í té hverju sinni. Blessuð sé minning hennar.

Gunnari og allri fjölskyldunni flyt ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurjón Vilhjálmsson.