Hörmulegt sjóslys varð þann 11. maí sl. út af Aðalvík sem leiddi til þess að sjómaður á strandveiðum lét lífið.
Í kvöldfréttum RÚV þann 14. maí 2016 var síðan rætt við sjávarútvegsráðherra vegna umræðu um hvort hvatinn í kerfinu gæti hafa haft sín áhrif á að slysið varð:
Ráðherra var því ósammála og lét hafa eftir sér eftirfarandi:
„Því miður er það þannig að menn fara á sjó í alls konar veðrum. Það er þannig en ég held við getum því miður ekki tengt þetta slysi eða einhverju slíku.“
Einnig var haft eftir ráðherra í sama viðtali ,,...að það væri kannski ekki verið að nýta nema helminginn af þeim dögum sem eru í boði“.
Báðar fullyrðingar ráðherra eru rangar og lýsa mögulegu þekkingarleysi hans á fyrirkomulagi veiðanna á veiðisvæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, þ.e. á því veiðisvæði sem slysið varð.
Það er nú þannig að ráðherra hefur engar forsendur til að meta hvort hinn innbyggði hvati í strandveiðikerfinu til að sækja strandveiðiaflann hafi átt þátt í slysinu sem varð þann 11. maí sl. eður ei. Það er Rannsóknarnefnd sjóslysa sem mun einna helst geta lagt á það mat, þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggur fyrir.
Einnig hefur ráðherra rangt fyrir sér með seinni fullyrðingunni um að: „...það væri kannski ekki verið að nýta nema helminginn af þeim dögum sem eru í boði“.
Þar er líklegt að ráðherra hafi verið að vitna í hvernig strandveiðikerfið er á hans gömlu heimaslóðum, á svæði B sem nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps.
Á svæði B hefur samsetning á fjölda báta og mánaðarlegri úthlutun verið þannig að mánaðarlegri úthlutun er oft ekki náð í lok mánaðar.
Á svæði A er því öfugt farið
Oftast er lokað á strandveiðar á svæði A fyrir 15. hvers mánaðar, þegar mánaðarlegri úthlutun er náð. Á því svæði (Svæði A) tekur oftast aðeins 5-6 daga að klára úthlutunina.Sjálfur hef ég stundað strandveiðar þrjú sumur á svæði A, síðast sumarið 2014. Ég þekki fjölda strandveiðimanna og hef ágæta þekkingu á núverandi strandveiðikerfi þar sem ég starfaði sem sveitarstjóri Súðavíkurhrepps um 12 ára skeið, frá árinu 2002 til ársins 2014.
Það eru til sannar sögur af strandveiðibátum sem hafa á slíkum dögum fengið á sig brotsjó sem hefur brotið glugga í stýrishúsi, sjór hefur flætt inn, í einhverjum tilfellum eyðilagt stjórntæki og jafnvel drepist á vél.
Það eru skipstjórar í strandveiðikerfinu til frásagnar um að það hafi komið fyrir að þeir hafi ekki treyst sér á sjó, þegar veðurspá var slæm, en aðrir farið og náð skammtinum. Þeir sem ekki hafi farið, hafi fengið samviskubit, að þeir væru ekki að standa sig í samanburði við hina. Spurningin: ,,Ertu maður eða mús?“ hafi komið upp í slíkri umræðu.
Sjálfur fór ég nokkrum sinnum á sjó daga sem ég hefði ekki átt að fara öryggisins vegna. Einn daginn, sumarið 2013, fór ég í vondu veðri og fékk brot á bátinn sem leiddi til þess að ein rúða í stýrishúsi brotnaði. Öryggisfilman kom í veg fyrir að hún kæmi inn og því kom ekki sjór inn í stýrishúsið. Ég var heppinn þann dag.
Mig grunar að margir, ef ekki allir strandveiðimenn, hafi heyrt sambærilegar sögur og eða lent í sjálfir.
Oft rata þessar sögur ekki inn í daglegar umræður, það þykir ekki flott þegar slíkar sögur spyrjast út.
Ábyrgð skipstjóra er mikil, ekki er hægt að horfa fram hjá því. En þegar komið hefur verið á ólympískum veiðum eins og á svæði A, þar sem fyrstur kemur fyrstur fær, á veiðisvæði þar sem mánaðarlegri úthlutun svæðisins er hægt að ná á 5-6 dögum þá skapar það eitt og sér mikla spennu milli skipstjóra.
Árið 2009 var strandveiðikerfinu komið á og sóknarsvæðum skipt niður í fjögur svæði, A, B, C og D. Strandveiðikerfið var álitið mikilvægt fyrir sjávarbyggðir víðsvegar um landið sem höfðu verið að berjast við fækkun starfa í sjávarútvegi og fólksfækkun. Strandveiðikerfið var jafnframt álitið góð leið til að vinna á móti þeirri óánægju sem var og er með fiskiveiðikerfið á Íslandi.
Raunin er sú að kerfið hefur sýnt að það virkar að mörgu leyti. Aflinn sem berst að landi skiptir máli fyrir sjómenn, fyrir landvinnslufólk, fyrir höfnina og fyrir sjávarbyggðirnar í heild sinni. Strandveiðikerfið virðist komið til að vera.
Ráðherra sjávarútvegsmála ber mikla ábyrgð
Ráðherra ber ábyrgð á því að kerfið verði endurskoðað með öryggissjónarmið sjómanna að leiðarljósi. Hann ber ábyrgð á því að lög og reglugerðir sem fjalla um atvinnuvegi ráðuneytisins séu þannig að þær auki ekki hættu á slysum eða dauðsföllum. Hann ber ábyrgð á því að vera reiðubúinn á hlutlausan hátt, án tafa og án hugmyndafræðilegra pólitískra skoðana að meta með þar til bærum aðilum, kosti og kalla strandveiðikerfisins og leita leiða til að betrumbæta kerfið þegar þess þarf.Auðvelt er að breyta núverandi kerfi til að auka öryggisþáttinn: Það er hægt með því að skipta mánaðarlegum strandveiðikvóta sem búið er að úthluta á hvert svæði fyrir sig á milli þeirra báta sem skráðir eru á því svæði.
Það þýðir að skipstjórar velja sjálfir þá daga sem þeir vilja róa, hafa til þess allan mánuðinn og þyrftu ekki að keppa hver við annan í kerfi þar sem fyrstur kemur, fyrstur fær. Ef viðkomandi bátur nýtir ekki sína úthlutun innan mánaðarins, þá fellur sá veiðiréttur niður og bætist við úthlutun nýs mánaðar.
Þetta hljómar auðvelt og er einnig auðvelt í framkvæmd.
Íslendingum hefur tekist með einstökum hætti, svo eftir er tekið, að fækka bæði slysum og dauðsföllum á sjó. Við megum ekki slá þar af. Við eigum að setja markið hátt þegar kemur að öryggi sjómanna.
Það þarf að endurskoða og breyta reglugerð strandveiða með það að leiðarljósi að auka öryggi sjómanna.
Höfundur er fv. strandveiðisjómaður og sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.