Eftir Friðrik Inga Óskarsson: "Takið höndum saman og farið að vinna."
Alveg er maður gáttaður á þeirri umfjöllun sem fréttamenn og stjórnarandstaða heldur úti þessa dagana. Katrín Jakobsdóttir heldur því fram að umræðan um aflandsfélög hafi skaðað Ísland. Ef eitthvað hefur skaðað landið okkar eru það vinstri menn eða stjórnarandstaðan með þessu rugli sínu um að þessi eða hinn hafi átt eða eigi félag í skattaskjóli. Það er undarlegt að fólk skuli þurfa að líða fyrir það að vera sonur eða dóttir einhvers sem á eða hefur átt peninga. Skilur ekki stjórnarandstaðan að það voru bankar landsins sem ráðlögðu mönnum að kaupa í þessum aflandsfélögum. Ég held að þetta lið sem kallast stjórnarandstaða, þ.e. Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll, Steingrímur J., Svandís Svavarsdóttir og ég tala nú ekki um Björn Val, hafi ekki efni á að vera með þetta skítkast, ekkert af ykkur eða ykkar flokkum getur státað af neinu góðu öðru en skattpíningu á gamalmennum og öryrkjum. Ég man vel eftir orðum Steingíms J. úr ræðustól þegar það átti að pína okkur til að samþykkja Svavarssamninga um Icesave. Ef þjóðin hefði samþykkt þetta sem ég kalla landráð væri ekki til íslenskt lýðveldi, því við værum löngu komin á hausinn. Hvernig á að vera hægt að bera virðingu fyrir stjórnarandstöðu sem hagar sér eins og villimenn, sb. Birgittu Jónsdóttur sem sýndi alþjóð fokk-merkið á Austurvelli í síðustu mótmælum, þar sem sagt var að 20 þúsund manns hefðu mætt, eða u.þ.b. 5,4 % þjóðarinnar. Svo segir stjórnarandstaðan að öll þjóðin hafi mætt. Ég held að það sé bara ekki í lagi heima hjá ykkur. Þau tala um skoðanafrelsi og allt skuli upp á borðum. Mín persónulega skoðun er að þau séu hálf rugluð. Ég er ekki vanur að segja að fólk sé ruglað en ég held að þetta sé orðalag sem stjórnarandstaðan skilji. Ég hef aldrei kosið Framsókn en er hægrimaður í eðli mínu og er stoltur af því. Ég held að Alþingi Íslendinga hafi um allt annað að hugsa, t.d. það sem skiptir okkur máli, s.s. húnæðisfrumvarpið, heilbrigðismálin og fleiri stórmál. Lýðræði er að meirihlutinn ræður eftir kosningar. Takið höndum saman og farið að vinna vinnuna ykkar og hættið að haga ykkur eins og villimenn. Eitt enn: Ef ég fengi því ráðið þá myndi ég ekki greiða kr. 16.800 í útvarpsgjald fyrir þessa kommaútvarpsstöð, RÚV.
Höfundur er eldri borgari og fv. framkvæmdastjóri.
Höf.: Friðrik Inga Óskarsson