Gunnar Kristjánsson
Gunnar Kristjánsson
Eftir Gunnar Kristjánsson: "Spurning hagfræðinnar hlýtur að beinast að rótunum, hvernig varð velferðarkerfið til og í hvaða tilgangi og hvernig verður því við haldið?"

Áhugavert var að hlusta á hugleiðingar Gylfa Zoëga prófessors í hagfræði í sunnudagsþætti Ævars Kjartanssonar sunnudaginn 17. apríl. Hann leitaðist við að fara ofan í saumana á hinum dýpri gildum samfélagsins, svo sem trausti manna á meðal, hugsjónum um réttlátt samfélag, um samfélagsvitund og síðast en ekki síst um fyrirmyndarsamfélögin í norðri þar sem velferðarríkið hefur blómstrað og aðrar þjóðir hafa litið upp til.

Hvernig varð þetta velferðarþjóðfélag til, á hverju byggist það? Í því sambandi velti hagfræðingurinn fyrir sér guðfræði og þá bárust böndin strax að Lúther, rætt var um hinn „almenna prestsdóm“, um aflagningu klaustra, um samfélagslega ábyrgð einstaklingsins. Allt var það áhugavert og rétt og hlaut að leiða að þungavigtarspurningunni: hvað yrði um allt þetta góða kerfi hyrfi undirstaðan? Getur velferðarþjóðfélag staðist án þess að eindregin sannfæring þegnanna sé að baki? Getur kerfi, sem upphaflega var mótað af trúarlegum mannúðarhugsjónum, staðist án þeirra? Og hvað tæki hugsanlega við að öðrum kosti?

Sagan varpar ljósi á eitt og annað sem setur svip á líðandi stund um leið og hún vekur spurningar um framtíðina. Tíminn kann að leiða í ljós að kerfið standist þótt engar séu forsendurnar. Til eru þær kenningar, sem segja að hinar trúarlegu forsendur hafi leitt af sér mannúðlegt velferðarkerfi og það muni standast þótt forsendurnar hverfi hægt og sígandi út úr myndinni; hið „veraldlega“, upplýsta samfélag sé rökrétt afleiðing af kristinni trú, segja sumir guðfræðingar. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort það sjónarmið stenst.

Í þættinum var minnst á Max Weber (1864-1920) félagsheimspeking við háskólann í Heidelberg fyrir einni öld og kenningar hans um rætur velferðarsamfélagsins í siðbótarkristninni, kalvínisma og lútherskri kristni. Weber mótaði skoðanir um evrópsk samfélög og setti fram fyrir því sem næst einni öld (Die Protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 1905). Kenningar hans ganga út á að skilgreina muninn á samfélögum sem mótuð eru af siðbót Lúthers og Kalvíns annars vegar en hins vegar af kaþólskri hefð. Weber gerði sér far um að horfa undir yfirborðið, til mótunar samfélaganna, til djúpra róta í dagsins önn.

Pólitíkin snýst ekki um söguna eða ræturnar heldur um líðandi stund og það sem er skammt framundan. En hagfræðingurinn vill horfa dýpra og spyrja um rök og rætur og kastar sér út í djúpu laugina: hvað býr í djúpinu í þessu efni? Hvaðan er velferðarkerfið komið, hver verður framtíð þess í breyttum heimi? Svarið er áreiðanlega flókið en til að spinna þráðinn aðeins áfram frá þessu áhugaverða samtali í útvarpinu finnst mér rétt að minna á eitt atriði.

Í huga mínum rifjuðust upp fyrirlestrar Günters Brakelmanns, prófessors í félagslegri siðfræði við háskólann í Bochum á 8. áratugnum, þar sem hann rakti uppruna velferðarkerfisins til píetistans Ottos von Bismarck (1815-1898), kanslara Wilhjálms Þýskalandskeisara og samstarfs hans við annan píetista, Theodor Lohmann (1831-1905), háttsettan lögfræðing og leyndarráð í stjórnkerfi Prússaveldis. Til hugsjóna og samstarfs þessara tveggja manna hefur Günter Brakelmann – auk annarra – rakið rætur velferðarkerfisins í Prússaveldi sem varð síðan fyrirmynd sama kerfis annars staðar. Þetta var á árunum 1880-1883. Þarna voru ræturnar að hans mati (Sjá bók Brakelmanns, Zwischen Widerstand und Mitverantwortung, 1994).

Iðnbyltingin hafði ekki aðeins í för með sér auð og allsnægtir sumra, heldur einnig misrétti, sjúkdóma og örbirgð. Píetistarnir voru ekki byltingarmenn heldur umbótamenn sem sáu mannúðlegt samfélag þróast markvisst ef rétt væri á spöðunum haldið. Píetisminn var ein merkasta umbótahreyfing í sögu kristninnar á hinu félags-pólitíska sviði, afsprengi siðbótarinnar og upplýsingarinnar.

Meðal frumkvöðlanna í hópi umbótasinnaðra píetista var August Hermann Francke greifi (1663–1727) í Halle, fæðingarborg Friedrichs Händels, við fljótið Saale á Saxlandi í austanverðu Þýskalandi. Fyrir Francke vakti stofnanavæðing trúarinnar á hinu félagslega sviði. Hann vitnaði áreiðanlega oft – eins og Gylfi Zoëga í þættinum – í gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ Allt miðaði að því að svara kalli samtímans um að jafna kjör fólks og að allir gætu lifað mannsæmandi lífi. Menntun embættismanna Prússaveldis fór fram við háskólann í Halle sem kenndur er við Martein Lúther.

Í Halle og víðar risu félagslegar stofnanir fyrir alþýðu manna, skólar, munaðarleysingjahæli, sjúkrahús, hvaðeina sem nú er partur af því fyrirkomulagi sem við nefnum velferðarþjóðfélag. Áhrifa frá öðrum forföður píetismans, Zinzendorf greifa, gætti m.a. í danska konungsríkinu snemma á 18. öld og þar með á Íslandi, hann var í góðu sambandi við æðstu veraldleg yfirvöld og beitti sér fyrir því að félagslegar stofnanir risu í Kaupmannahöfn og víðar.

Hugsjónir sínar um almannatryggingar og annað, sem miðaði að félagslegu réttlæti, sóttu þeir Bismarck og Lohmann til píetistanna þar sem þeir voru sjálfir heimamenn. Fyrirmyndina var m.a. að finna í Halle og víðar í sambærilegum stofnunum, þar voru brautryðjendurnir og þar var reynslan – framtíðarsýnin um mannúð og jafnrétti var þar einnig þótt tíðarandinn væri slíkum hugsjónum ekki alltof velviljaður.

Spurning hagfræðinnar hlýtur að beinast að rótunum, hvernig varð velferðarkerfið til og í hvaða tilgangi og hvernig verður því við haldið? Mun það þrífast án rótanna, mun það þrífast án innri hvata einstaklinganna til að gera mannúðarhugsjónir að veruleika, mun það þrífast án hugsjóna? Ég heyrði ekki betur en slíkar hugsanir leituðu á huga þeirra Gylfa og Ævars og þær eru sannarlega tilefni til að varpa sér á kaf í djúpu laugina og komast aðeins undir yfirborðið í þessu efni.

Höfundur er prófastur emeritus.

Höf.: Gunnar Kristjánsson