Gunnar Konráð Finnsson fæddist á Ytri-Á í Ólafsfirði 3. október 1929. Hann lést á dvalarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði, 15. maí 2016.
Foreldrar hans voru Sigurbjörn Finnur Björnsson, f. 16. september 1895, d. 29. maí 1986, og Mundína Freydís Þorláksdóttir, f. 8. apríl 1899, d. 5. desember 1985. Gunnar var níundi í röð 20 systkina, hin eru Birna Kristín, f. 1917, d. 1990, Kristrún Anna, f. 1918, d. 2014, Anton Baldvin, f. 1920, d. 2014, Gunnar, f. 1922, d. 1929, Sigurjón, f. 1924, dó á barnsaldri, Guðmundur Sigurjón, f. 1925, d. 2009, Laufey Haflína, f. 1926, d. 2010, Bjarni Sigurður, f. 1928, d. 1995, Stefanía Gunnlaug, f. 1930, stúlka, f. 1931, dó ung, Eva, f. 1933, Bára, f. 1934, d. 1937, Jón Albert, f. 1935, Sólrún Guðrún, f. 1936, Aðalgeir Gísli, f. 1938, Fjóla Bára, f. 1939, Héðinn Kristinn, f. 1941, Bragi, f. 1943, d. 1995, og Óskar Þráinn, f. 1945. Gunnar kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Svanhvíti Tryggvadóttur, hinn 3. september 1955. Foreldrar hennar voru Tryggvi Stefánsson, f. 30. október 1898, d. 2. október 1982, og Guðrún Sigurðardóttir, f. 4. júní 1904, d. 25. maí 1953. Börn Gunnars og Svanhvítar eru: 1) Stúlka Gunnarsdóttir, andvana f. 9. júlí 1959. 2) Guðrún Gunnarsdóttir, f. 27. apríl 1961, maki Jón Gunnarsson, f. 26. maí 1959, börn þeirra eru Gunnar og Svanhvít. 3) Finnur Víðir Gunnarsson, f. 17. janúar 1964, maki Hrefna Magnúsdóttir, f. 2. september 1964, börn þeirra eru Magnús og Gunnar Konráð. 4) Bergur Gunnarsson, f. 14. júlí 1969, maki Rósa María Vésteinsdóttir, f. 5. febrúar 1972, börn þeirra eru Freydís Þóra og Katrín Ösp.
Gunnar ólst upp á Ytri-Á, á Kleifum, Ólafsfirði, í stórum hópi systkina. Þar tók hann þátt í bústörfum frá blautu barnsbeini og síðar sjósókn þegar hann stálpaðist. Hann fór ungur á vertíðir suður á land og kynntist hann konu sinni, Svanhvíti, í Sandgerði, þar sem hún starfaði við sömu útgerð og hann. Þau fluttu til Ólafsfjarðar árið 1955 og bjuggu fyrst á Aðalgötu 22, en fluttu í nýbyggt hús sitt að Túngötu 7 árið 1961. Gunnar starfaði stærstan hluta starfsævi sinnar sem sjómaður og tók m.a. þátt í síldarævintýrinu mikla fyrir Norðurlandi meðan á því stóð. Hann átti farsælan feril sem sjómaður og tók m.a. þátt í giftusamlegri björgun áhafnarinnar af Guðmundi Ólafssyni ÓF. Þau hjón fluttu á Hjúkrunarheimilið Hornbrekku í Ólafsfirði fyrir rétt um ári. síðan, þar sem þau hafa notið góðrar og umhyggjusamrar þjónustu fram á þennan dag
Útför Gunnars Konráðs verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 23. maí 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Hvert fór eiginlega tíminn og hvernig gat þetta gerst?  Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug þegar þú kvaddir og hélst í þína seinustu sjóferð frá Hornbrekku sl. sunnudag.  Þú sem varst alltaf svo hraustur og hress að það kom varla fyrir að þú kenndir þér einhvers krankleika, allan þann tíma sem við þekktum hvor annann.  Ég kom fyrst til Ólafsfjarðar í lok maí 1979 og erindið var að sækja hana Guðrúnu  þína, sem ég hafði kynnst í Fiskvinnsluskólanum um veturinn.  Við vorum á leið í sumarvinnu vestur á Þingeyri og í huganum er eins og það hafi gerst í gær þó 37 ár séu liðin síðan þá.  Þið hjónin tókuð afar vel á móti mér, þrátt fyrir að þið þekktuð mig ekki neitt og að erindið væri að nema dótturina á brott.  Við Guðrún rugluðum síðan saman reitum okkar og alltaf hefur verið jafn gott að koma norður í Ólafsfjörð til lengri eða skemmri dvalar.

Árið eftir að ég kom fyrst bauðstu mér að koma til ykkar Svannýjar í veiðihúsið í Svartá í Húnavatnssýslunni, þar sem þú áttir veiðileyfi og þar kenndir þú mér að renna fyrir lax , en það hafði ég aldrei prófað áður.  Þú varst ótrúlega laginn við veiðarnar og þarna lærði ég að þolimæði er dyggð þegar kemur að veiðiskap.   Það var næsta öruggt að þú settir í fisk þegar tregt var og veiðitíminn var nýttur í botn, hvort sem það var skaplegt veður eða ekki.  Þarna fékk ég laxveiðibakteríuna, sem hefur frekar ágerst með árunum en hitt og þeir voru margir laxveiðitúrarnir sem við áttum saman og oft veiddum við vel.  Ég man sérstaklega eftir túrnum sem við fórum í Krossá á Skarðströnd, en þú hafðir fótbrotnað skömmu áður en lést það ekki stoppa þig heldur fórstu á hækjum milli veiðistaða jafnt niðri í giljum sem á sleipri klöpp.

Veiðiskapur, hvort sem var með stöng, færarúllu eða netum, var ekki bara áhugamál hjá þér heldur ástríða.  Þú hafðir af fáu jafn gaman eins og að róa til fiskjar á spegilsléttum Ólafsfirðinum eldsnemma morguns.  Þú vildir helst fara af stað uppúr kl 5 á morgnana til að nýta lognið áður en hafgoluna færi að leggja inn fjörðinn þegar liði á morguninn.  Fyrst gerðum við þetta á litla rauða bátnum frá Ytri-Á en eftir að við keyptum Þristinn fyrir 10 árum, þá rérum við frá höfninni í bænum.  Þú rérir einn á Þristinum hvenær sem gaf og varst ekki lengi að útbúa hann þannig að hægt væri að gera að og flaka um borð, þannig að ekki þyrfti að koma með nema fullunnið í land.  Þegar við rérum tveir þá var oft handagangur í öskjunnni og oft var erfitt að stoppa í brjáluðum fiski, en við vissum að flökunin var eftir svo oftast létum við skynsemina ráða. Þú þekktir botninn og fiskimiðin í Ólafsfirðinum eins og handarbakið á þér og það var eins og þú finndir á þér hvar fiskurinn var, því vel aflaðist þó engin væru fiskileitartækin í upphafi.  Við vorum fljótir að vinna fiskinn þegar báðir gátu flakað í einu og ekki var verra að við vissum að Svanný biði með vel útlátnar veitingar, að venju,  þegar við kæmum í land.

Aflinn var síðan frystur, saltaður og hertur og alltaf áttum við nóg af fiski til vetrarins og vel birgir af harðfiski úr hjallinum á Ytri-Á.  Hjallinn þann notaðir þú líka til að verka besta hákarl í heimi og þar var gaman að koma þegar hann var kjaftfullur af bæði hákarlsbeitum og harðfiski.   Það var auðséð að taugin út á Kleifar var sterk og ábyggilega engin tilviljun að lóðin sem þið Svanný völduð ykkur til að byggja ykkur heimili var þannig staðsett, að Kleifarnar blöstu við þegar horft var úr eldhúsglugganum og yfir fjörðinn. Ég get vel skilið að Kleifarmenn séu svo fastbundnir æskuslóðunum því Kleifarnar eru paradís fyrir þá sem hafa gaman að útiveru.  Þegar þú varst að alast upp í stórum hópi systkina þurftuð þið snemma að taka þátt í störfum bæði úti og inni og margar skemmtilegar sögur sagðir þú af því hvernig lífið var á Kleifum þegar þú varst að alast upp.  Fyrir okkur sem yngri erum er erfitt að ímynda sér hvernig lífsbaráttan var á þessum árum ,en í þínum sögum þá bar ekki mikið á erfiði eða leiðilegheitum, þar var meira um samheldni, skemmtilegheit, dugnað og samviskusemi.

Betri tengdarpabba er ekki hægt að hugsa sér, því þú varst ekki bara tengdarpabbi heldur líka félagi og vinur.  Ekki skemmdi að við höfðum svipuð áhugamál og vorum báðir tengdir sjónum og sjávarútvegi þó á ólíkan hátt væri.  Við gátum talað um Sandgerði í upphafi þegar við vorum að kynnast og þekktum báðir fólk þaðan og einnig höfðum við báðir verið á Víði II GK sem gerður var út frá Sandgerði, þ.e. nýja stálbátnum eins og þú kallaðir hann.  Það var gaman að hlusta á sögurnar frá þeim tíma sem þú varst með Eggert Gíslasyni á síldveiðum á gamla Víði og ótrúlegt hversu vel þið fiskuðuð með frumstæðum tækjum.

Krakkarnir okkar Guðrúnar elskuðu það að koma til þín og Svannýjar í Ólafsfjörð og þið voruð ólöt að bjóða þeim til dvalar á sumrin og í fríum.  Þú gafst þér alltaf tíma til að spjalla og gantast í þeim og það kom berlega í ljós hversu mikil barnagæla þú varst þegar þau komu í heimsókn. Það var gaman að heyra í þeim þegar þau komu heim aftur, því þá voru þau bæði orðin nokkuð forn í tali og með hinn sérstaka Ólafsfjarðarhreim, sem við tökum eftir sem ekki erum uppalinn þar.  Þið Svanný voruð alla tíð afar samhent hjón og góðar fyrirmyndir fyrir okkur hin.

Þú varst óþreytandi að halda við lóðinni og húsinu að Túngötu 7 og oft stóð manni ekki á sama síðustu árin þegar þú varst að príla upp í háum stigum til að skrapa og mála veggina, eða þegar þú varst kominn uppá þak til að sinna viðhaldi þar.  Þó aldurinn færðist yfir þá stoppaði það þig ekki neitt og hún er skemmtileg sagan af því þegar þú misstir jafnvægið og féllst úr stiganum og nágrannarnir skildu ekkert í því að þú lægir og hvíldir þig í miðju verki þar sem það var ekki þinn háttur.  Þetta endaði reyndar í fótbrotinu sem þó stoppaði þig ekki í því að fara í lax með okkur í fjölskyldunni.

Þá er komið að leiðarlokum hjá okkur, þín verður sárt saknað en minningarnar lifa áfram og eru ómetanlegar.  Hafðu þökk fyrir allt.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Elsku Svanný, þinn missir er mikill ,en minningin lifir um góðan eiginmann til rúmlega 60 ára.

Þinn tengdasonur


Jón Gunnarsson