Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Allt gekk þetta þó út á tekjuskiptinguna í landinu, tryggingu þess að atvinnurekendur mættu sem mest fá í sinn hlut á kostnað vinnuþrælanna."

Það voru sannarlega orð í tíma töluð hjá vestfirzka verkalýðsforingjanum Finnboga Sveinbjörnssyni þegar hann minnti á hinn dýra samningsrétt sem væri svo dýrmætur verkafólki, ekki var eins gleðilegt að heyra að fólk væri í dag svo hrætt um að missa vinnuna að gæti úr slagkrafti dregið. Ég átti á dögunum viðræður við ungt fólk sem hafði enga hugmynd um það hversu harða baráttu bláfátækt verkafólk þurfti að heyja til þess að ná þeim rétti og þeim kjörum og réttindum sem í dag eru svo sjálfsögð og eðlileg. Ungur íhaldsmaður kvaðst hins vegar hafa lesið það í einhveri auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum að öll mikilsverðustu réttindi fólks í dag á launa- og réttindasviði hefðu fengist fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins og þannig vildi hann heldur hafa það sem sannara reyndist. Þetta olli mér það sárum höfuðverk að ég sleit talinu.

Þetta varð mér tilefni til þess að skora á launþegasamtökin í landinu að efna til kynningarherferðar hvarvetna um hina raunverulegu og eiturhörðu kjarabaráttu sem fólk fyrri tíma varð að heyja, flest með tvær hendur tómar, og rifja rækilega upp um leið hverjir stóðu þar í gegn. Það þarf ekki að fara lengra en í þingtíðindi þess tíma til að sjá hrokafulla neikvæðnina hverju sinni sem mætti hinum réttlátustu tillögum um bætt kjör, bættan aðbúnað, aukin mannréttindi og mætti rekja mörg skuggaleg dæmi þar um, en horfnum afturhaldsdurgum við því hlíft. Allt gekk þetta þó út á tekjuskiptinguna í landinu, tryggingu þess að atvinnurekendur mættu sem mest fá í sinn hlut á kostnað vinnuþrælanna. Og það skyldi þó ekki vera að fulltrúar þessa smánarlega afturhalds – og mig langar að segja ákveðins skepnuskapar – hafi verið að finna hjá forverum þeirra flokka sem merkilegt nokkuð halda um valdataumana í dag, til þess kjörnir af ótöldu láglaunafólki ásamt með öllum aflandsgæjunum.

Og þegar spurt er hvers arftakarnir eigi að gjalda þá er grunneðlið hið sama, þeir hins vegar komast ekki upp með það sem hjarta þeirra er næst og þó. Þegar talað er um eins og einhvern heilagleika að viðhalda verði stöðugleikanum þá er það ekki sama fyrir hverja á að gera það og heldur ekki hvenær megi út af bregða hvað stöðugleikann varðar, s.s. eins og að afnema auðlegðarskattinn og stórlækka veiðigjaldið að ógleymdri lækkun almennra skatta, í efstu þrepum tekjustigans að sjálfsögðu. Það er nefnilega rétt sem jafnaldri minn sagði við mig á dögunum að þeir ríku sjá um þá ríku og svo mun það verða áfram.

Og litið til ýmissa þátta þjóðlífsins er þá nokkur hissa á því sem ungur maður á uppleið sagði við þennan jafnaldra minn snemma í apríl.

Af hverju í ósköpunum er verið að vesenast með 1. maí sem frídag, trufla vinnuviku fólks, bætti svo við: En það er þó bót í máli að hann er nú á sunnudegi!

Ýmislegt þessu tengt hrannast að gömlum huga og mætti skrifa langt mál

um alla þá fávísi sem alltof víða ríkir í samfélaginu um raunveruleika íslenzkrar kjarabaráttu áður fyrr og einnig nú. En hér skal numið staðar.

Höfundur er fv. alþingismaður.

Höf.: Helga Seljan