Örn Pálsson
Örn Pálsson
Eftir Örn Pálsson: "Af þessu sést að mikilvægt er að ná róðri á þeim tíma sem opið er. Við það myndast oft mikið álag á viðkomandi þegar tvísýnt er um veður."

Strandveiðum var komið á 18. júní 2009 þegar Alþingi samþykkti bráðabirgðaákvæði þar um. Réttu ári síðar, í maí 2010, var ákvæðið fellt inn lög um stjórn fiskveiða. Strandveiðar sem nú standa yfir eru þær áttundu í samfelldri röð þeirra. Veiðitímabilið er 1. maí til 31. ágúst, fjóra virka daga í viku, mánudag – fimmtudag.

Strandveiðileyfi

Öll skip og bátar sem hafa gilt haffærisskírteini geta fengið leyfi til strandveiða. Aðeins er heimilt að veita leyfið á einn bát í eigu sama einstaklings eða útgerðar. Árlegt gjald fyrir leyfið er kr. 72.000 sem skiptist í gjald til sérveiða kr. 22.000 og sérstakt gjald kr. 50.000 sem rennur til hafna landsins. Því er ætlað að tryggja bátunum úrvals aðstöðu við löndun og viðlegu.

Fjögur veiðisvæði

Þegar haldið er úr höfn er skylt að eigandinn sé lögskráður á bátinn og veiðarnar stundaðar á veiðisvæði sem tilheyrir heimilisfesti útgerðinnar. Þannig verður eigandi strandveiðibáts sem búsettur er í Reykjavík að flytja heimilisfesti útgerðarinnar, t.d. til Bolungarvíkur ætli hann að stunda veiðar á því veiðisvæði.

Veiðisvæði strandveiða eru fjögur. Frá 2010 hafa þau verið:

a. Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur

b. Strandabyggð – Grýtubakkahreppur

c. Þingeyjarsveit –

Djúpavogshreppur

d. Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð.

Óheimilt er að færa sig milli veiðisvæða eftir að veiðileyfi hefur verið gefið út.

Tryggingar og réttindi

Tryggt er gegnum lögskráningu sjómanna að áhöfnin, en flestir róa einir, er slysa- og líftryggð eins og kveðið er á um í Siglingalögum. Ennfremur er tryggt að viðkomandi sé með skipstjórnarréttindi auk réttinda til vélavörslu þar sem vélin nær 340 hestöflum.

Veiðin takmörkuð

Á leiðinni á miðin rifjar sjómaðurinn upp þá þætti sem veiðarnar eru skilyrtar við.

1. Róðurinn má að hámarki standa yfir í 14 klst.

2. Aðeins er heimilt að nota handfæri við veiðarnar.

3. Afli má ekki fara umfram 770 kg af þorski eða 650 þorskígildi.

4. Aflinn skal vera vel frá genginn og kældur niður undir frostmark.

Sigling á miðin tekur mislangan tíma. Fer eftir ganghraða bátanna og hversu langt þarf að sækja svo meiri líkur séu á að vel veiðist.

Á keyrslunni gefst tími til að fletta upp á heimasíðu LS og skoða hvað mikið er búið af aflaviðmiðun mánaðarins. Hvað margir veiðidagar eru eftir, 61% búið.

Heildaraflaviðmiðun til strandveiða nú eru 9.000 tonn af botnfiski. Henni er skipt niður á veiðisvæðin og deilt út á hvern mánuð. Þegar bátar á viðkomandi svæði hafa veitt upp að viðmiðuninni eru veiðar stöðvaðar til næstu mánaðamóta. Þá kviknar ný viðmiðun sem heimilar áframhaldandi veiðar.

Veiðidagar mismargir

Á undanförnum árum hefur fiskgengd á Breiðafirði og Vestfjörðum verið mjög góð. Þangað hafa því sótt bátar frá öðrum landshlutum sem m.a. hefur leitt til þess að veiðar hafa verið stöðvaðar um miðjan mánuð. Í fyrra var opið fyrir strandveiðar í alls 65 daga.

Aflaviðmiðun hafði hins vegar þau áhrif á svæði A að þeir urðu aðeins 36 og skiptust þannig á mánuðina fjóra.

Maí: 9 veiðidagar – 19. maí síðasti dagurinn.

Júní: 11 veiðidagar – 18. júní

síðasti róðrardagur.

Júlí: 9 veiðidagar – 15. júlí síðasti dagur þann mánuðinn.

Ágúst: 7 veiðidagar – veiðar óheimilar eftir 13. ágúst.

Að létta pressunni af

Af þessu sést að mikilvægt er að ná róðri á þeim tíma sem opið er. Við það myndast oft mikið álag á viðkomandi þegar tvísýnt er um veður. Til að sporna við þessu hefur Landssamband smábátaeigenda sett fram þá tillögu að heildaraflaviðmiðun verði afnumin svo ekki komi til stöðvunar veiða í miðjum mánuði. Á þann hátt yrði skilið við þá pressu að ná einhverjum dögum áður en lokað yrði á veiðarnar.

Vissulega hefði þetta í för með sér einhverja aflaaukningu, en það eru smámunir einir miðað við þann ávinning sem hún mundi leiða til. Aukning viðmiðunar um 400 tonn jafngildir 18% frá árinu 2011, á sama tíma hefur þorskkvótinn aukist úr 160 þúsund tonnum í 239 þúsund tonn, eða um 49%.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Höf.: Örn Pálsson