Magnús Rannver Rafnsson
Magnús Rannver Rafnsson
Eftir Magnús Rannver Rafnsson: "Samt gerðum við einmitt það sem ráðherranum Ragnheiði Elínu Árnadóttur finnst svo smart; að óska eftir samstarfi við hann. Engin svör."

Merkilegt hvernig hlutirnir eru stundum. Mjög merkilegt. Átak Bjarkar og Andra Snæs gegn Sprengisandslínu í nóvember 2015 fór ekki framhjá Íslendingum eða erlendum Airwaves-gestum sem þá voru á landinu. Þau berjast fyrir náttúru Íslands. Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (iðnaðarráðherra), brást þá undur skjótt við og setti inn færslu á samfélagsmiðlana; henni hefði fundist smartara ef Björk hefði hvatt til samstarfs. Iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, finnst samstarf sem sagt smartara. Það finnst mér líka.

Nokkur orð um smart samstarf: Frá árinu 2009 hef ég ásamt fjölda fyrirtækja, stofnana og háskóla, íslenskra, þýskra og norskra, unnið að því að þróa nýjar gerðir háspennumastra sem framleiða á úr koltrefjum, glertrefjum og basalttrefjum. Verkefnin hér að lútandi hafa gengið vel og hafa verið unnin í góðu samstarfi, einmitt eins og hæstvirtum iðnaðarráðherra finnst smart. Þessi verkefni hafa verið unnin á vegum íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Línudans ehf. (www.facebook.com/greengrids) og hefur fyrirtækið og verkefni tengd því hlotið fjölda styrkja á Íslandi sem og í Noregi. Verkefnin snúa aldeilis ekki bara að verkfræðilegri þróun prófíla sem gerðir eru úr trefjaefni – það er einfaldi hlutinn – heldur hefur sjónum einnig verið beint að fjölmörgum öðrum þáttum. Þar á meðal er þróun nýrrar hugmyndafræði um hönnun og framleiðslu umhverfisvænna háspennumastra. Það reyndist nauðsynlegt þar sem ríkjandi nítjándu aldar aðferðir og viðmið um hönnun háspennumastra reyndust ónothæf fyrir Línudans og markmið fyrirtækisins. Þessar aðferðir Landsnets eru líka ónothæfar fyrir samfélagið, eins og nýliðnir atburðir bera vitni um.

Samstarf í Línudans-verkefnum hefur almennt gengið vel við alla nema Landsnet og iðnaðarráðherrann, Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Því þar er alls ekkert samstarf. Samt gerðum við einmitt það sem ráðherranum finnst svo smart, þ.e. að óska eftir samstarfi við hann. Það hefur verið gert oftar en einu sinni gagnvart ráðherranum vegna þess að málefni raforkuflutningskerfa eru ekki í eðlilegum farvegi. En við höfum enn þann dag í dag engin viðbrögð fengið. Iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir – sjálfur ráðherra nýsköpunar á Íslandi – hefur enn ekki svarað kalli íslensks nýsköpunarfyrirtækis – því eina sinnar tegundar á landinu – um samstarf í umdeildum málaflokki. Á meðan útdeilir Landsnet vænum sneiðum af nýju 100 milljarða kökunni til innvígðra einkavina, án útboðs og án samkeppni. Án þess að fara um það mörgum orðum er rétt að segja eitt; það er ekki smart.

Kannski er iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir, í of nánu einhliða samstarfi við Landsnet. Mögulega hefur gleymst að hlúa að nýsköpun og tækniþróun í þessu samhengi, framþróun á mikilvægu og afar fjárfreku innviðasviði í þjóðfélaginu. Við vildum gjarnan vera í samstarfi við ráðherrann, en það virðist ekki hafa hentað. Það er merkilegt, því það vill svo til að Línudans ehf. hefur þróað umhverfisvænstu og hagkvæmustu fáanlegu lausnina fyrir raforkuflutning í dag. Og eftir því sem við komumst næst er ekkert fyrirtæki í heiminum að vinna með sömu aðferðarfræði og Línudans á þessu sviði. Því miður höfum við tapað miklum tíma undanfarin ár, einmitt af því að iðnaðarráðherrann hefur í allt of langan tíma ekki svarað óskum okkar um samstarf.

Allt þetta er ekki síður merkilegt í ljósi þess að raforkuflutningskerfi í þeirri mynd sem þau eru í í dag eru ekki vinsæl. Enn merkilegra verður þetta í ljósi fákeppninnar sem ríkir á þessu sviði. Töluvert bætist við merkilegheitin þegar við skoðum tillögu að matsáætlun um Sprengisandslínu, þar sem enn eina ferðina er búið að lauma inn nítjándu öldinni í formi stálgrindarmastra. Er það nema von að fólk rísi upp á afturlappirnar og froðufelli yfir þessum fyrirætlunum? Það er bara ekkert smart við þetta, alls ekki neitt.

En svo því sé haldið til haga tekur Línudans stöðu með umhverfinu og náttúru Íslands í sínum verkefnum. Sprengisandslína, eins og hún er nú kynnt á vegum Landsnets, er tímaskekkja. Við hljótum að vera komin að staðnum þar sem við stoppum og hugsum hlutina frá grunni – nýjum grunni með nýju kerfi og nýjum reglum.

Ég hefði gjarnan viljað eiga fund með ráðherranum um málið og þróa á þessu sviði smart samstarf. Þó ekki um stórkarlalegar hugmyndir um gamaldags raforkuflutningskerfi – sem hæstvirtur iðnaðarráðherra hefur stutt hingað til – heldur samstarf um umhverfisvæn raforkuflutningskerfi fyrir smarta framtíð.

Höfundur er verkfræðingur og starfar að nýsköpun á sviði raforkuflutningskerfa.

Höf.: Magnús Rannver Rafnsson