Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "Nú er vonandi, að Hæstiréttur bregðist ekki í þessu máli og snúi ákvörðun héraðsdóms við."

Sagan segir að eitt sinn hafi Abraham Lincoln lagt fyrir undirmann sinn eftirfarandi gátu. „Ef ég segi að halinn á asna sé einn fótur hans, hversu marga fætur hefur asninn.“ Undirmaðurinn velti þessu aðeins fyrir sér, en sagði síðan eftir nokkra umhugsun. „Jú, fimm auðvitað.“

Lincoln leit þá á undirmanninn og sagði „Nei. Það er ekki rétt. Asninn fær ekki fimm fætur við það eitt að ég segi að halinn sé fótur.“

Svipuð hugsanaskekkja virðist vera upp á teningnum í nýlegum dómi héraðsdóms í máli Reykjavíkurflugvallar. Í upphafi upptalningar á atriðum samkomulagsins sem um var deilt segir nefnilega: „Undirbúningur eftirfarandi verkefna mun þegar hefjast“ og eftir fylgir upptalning á þeim verkefnum sem bar að undirbúa. Í dómsúrskurði horfði dómari hins vegar algjörlega fram hjá því að orðið „undirbúningur“ kemur fyrir fyrst í setningunni og ákveður frekar að túlka samkomulagið á þá leið að aðilar samkomulagsins hafi í raun verið að samþykkja framkvæmdirnar sjálfar en ekki bara að hefja undirbúninginn.

Þessi afstaða er vægast sagt einkennileg. Á meðan flestu venjulegu fólki kæmi vart til hugar að skrifa undir skuldbindingu [eins og t.d. fasteignakaup] ef eingöngu fengist réttur á „undirbúningi“ [við að eignast húsið], þá telur dómari að bæði ríki og borg með alla sína sérfræðinga séu það ófær í samningagerð að engin meining hafi verið með því að nota orðið „undirbúningur“ í upphafi samkomulagsins. Þetta er galin nálgun. Það er ekki hlutverk dómara að sálgreina samninga. Þeir þurfa þó að lesa þá.

Enn undarlegri hlutir taka við þegar dómarinn heldur áfram með túlkun sína og tekur fram að þótt þess sé hvergi getið í samkomulaginu þá séu „viðunandi öryggis- og þjónustustig Reykjavíkurflugvallar“ forsenda samkomulagsins. Síðan vísar hann sem sín einu rök í hagfellda áhættumatsskýrslu og nothæfisstuðulsskýrslu og úrskurðar að ríkinu sé skylt að loka neyðarbrautinni. Vandamálið við þennan rökstuðning er hins vegar það að áhrif á sjúkraflutninga voru undanskilin í báðum skýrslunum sem hann vísaði í. Þannig að þrátt fyrir að öryggi skipti máli í túlkun dómara, þá skiptir öryggi sjúklinga hann engu máli. Þvílíkur bullúrskurður.

Verulega skekkt mynd var einnig dregin upp af þessum skýrslum í réttarhöldunum. T.d. fór nokkur tími í það að fjalla um svokallaða nothæfistímaskýrslu, sem var hluti af áhættumatinu. Sú skýrsla var merkileg fyrir þær sakir að yfirferðaraðilinn (Samgöngustofa) neitaði að fara yfir hana. Ekkert var minnst á það við réttarhöldin. Til marks um hversu fjarstæðukennd þessi greining var þá voru lendingar sjúkraflugs á neyðarbrautinni fyrstu fimm mánuði síðasta árs 15falt tíðari en skýrslan gefur til kynna. Einnig er athyglisvert við málsmeðferðina í héraðsdómi að eingöngu var minnst á nothæfisstuðul fyrir veðurmildasta tímabilið sem var skoðað, en sleppt að segja frá því að í sömu skýrslu kom fram að nothæfisstuðullinn fyrir lengsta tímabilið hafi verið 95,2%, eða aðeins 0,2% frá því að flugvöllurinn félli í ruslflokk.

Fyrir utan það að ekki var minnst á þessar afar mikilvægu upplýsingar í skýrslunum, þá hafa skýrslurnar sjálfar einnig fengið verulega gagnrýni. T.d. benti öryggisnefnd félags íslenskra atvinnuflugmanna á ýmsar alvarlegar villur, þar sem skýrsluhöfundar höfðu m.a. sleppt að taka tillit til hemlunarástands flugbrautar, vindhviða, brautarbreiddar og stærðar flugvéla sem flugvellinum er ætlað að þjóna. Einnig hefur undirritaður bent á nýlegar rannsóknir veðurfræðinganna Trausta Jónssonar, Guðrúnar Nínu Petersen og Halldórs Björnssonar sem sýna tilvist langtímasveiflu í vindafari á Íslandi. Þessi breytileiki sem getur spannað áratugi er verulegur og gerir það að verkum að árleg tíðni storma (mælt með ákveðnum stormdagavísum) getur verið um tvöfalt meiri á vindasömum tímabilum en á stilltum tímabilum. Því hefur það augljóslega veruleg áhrif á niðurstöðu svona greiningar þegar veðurmildustu tímabilin eru eingöngu notuð við útreikningana.

Nú er vonandi, að Hæstiréttur bregðist ekki í þessu máli og snúi ákvörðun héraðsdóms við. En hvort sem það gerist eða ekki, þá sýnir þessi málatilbúnaður einfaldlega hversu lítið má út af bera ef koma á í veg fyrir að unnið verði óafturkræft skemmdarverk á Reykjavíkurflugvelli. Framundan eru alþingiskosningar, og þá gæti komist til valda fólk með allt annað viðhorf til Reykjavíkurflugvallar en núverandi stjórnvöld. Eina leiðin til að eyða óvissunni og taka varanlega ákvörðun um framtíð flugvallarins er að leyfa þjóðinni að kjósa um hann fyrir þann tíma.

Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.

Höf.: Jóhannes Loftsson