Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Meirihluti flóttamanna frá Austurlöndum er karlmenn sem best geta spjarað sig. Það er skylda okkar að veita hinum sem verst eru staddir aðstoð."

Í upphafi frumvarpsins segir að markmið laganna sé að tryggja að mannúð og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Það er gott og blessað. Ekkert er vikið að markmiðum á borð við öryggi landsins. Frumvarpið er langhundur og stjórnarfrumvarp lagt fram af innanríkisráðherra, varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Þess verður hvergi vart í því ráðuneyti að því sé ekki einfaldlega stýrt af embættismanni að svo miklu leyti sem því er yfirleitt stjórnað (eins og reyndar fleiri ráðuneytum).

Ýmislegt er athugavert við frumvarpið, svo vægt sé til orða tekið. Neiti útlendingur sem sækir um alþjóðlega vernd að gangast undir aldursgreiningu er óheimilt að byggja synjun umsóknar hans á þeirri ástæðu einni. – Hvers vegna ætti svona vitleysa að standa í lögum? Umsækjanda um alþjóðlega vernd skal standa til boða húsnæði, lágmarksframfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Ekki væri nú dónalegt að setja sambærileg ákvæði í lög um réttindi Íslendinga.

Markmiðið um skilvirkni virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan. Augljóst er af lestri frumvarpsins að ekkert hald er í svo að hægt sé með skilvirkum hætti að greina á milli flóttamanna og þeirra sem ætla að koma sér á framfæri velferðarkerfisins undir því yfirskyni. Það er þó enginn vandi, en þá þarf að gera það sem mörgum veitist orðið erfitt; segja hlutina eins og þeir eru. Hugtakið ofsóknir og túlkun þess er sérfyrirbrigði í frumvarpinu. Ekki verður betur séð en að maður sem ekki er ofsóttur verði alger undantekning.

Kostnaðaráhrif frumvarps ráðherrans snúa aðallega að starfsemi Útlendingastofnunar, segir hún. Þetta er hreinlega alveg ósatt. Frumvarpið, verði það að lögum, mun leiða til mikils kostnaðar fyrir ríkissjóð vegna fjölgunar þeirra útlendinga sem munu geta komið hér undir ýmsu yfirskyni og ekki geta eða vilja framfleyta sér. Um það talar reynsla annarra þjóða skýru máli. Hlutfall þeirra er þekkt stærð og nær upp í 90% af fjölda af ákveðnum þjóðum. Svo er bara að reikna. Vill hún ekki birta slíka útreikninga?

Forsætisráðherra Svía segir þá hafa verið barnalega í málefnum útlendinga. Þar hefur allt farið úr böndunum. Þjóðarsamstaða er orðin í Danmörku um að móttöku fólks sem er í leit að ókeypis framfærslu verði hætt og reglur og eftirlit hert. En við Íslendingar þurfum víst ekki að hlusta á og læra af reynslu annarra. Við getum öll mál leyst betur en aðrir. Þetta frumvarp þarf að ræða af raunsæi, líka á Alþingi. Vinstrimenn verða einstöku sinnum að geta talað um kostnað, ekki bara afgreitt öll varnaðarorð sem rasisma þótt það sé einföld leið til að koma sér undan því sem ekki er þeirra sterka hlið, rökræðunni. Og sjálfstæðismenn í þingflokki sjálfstæðismanna þurfa líka að þora að tala, ekki bara Unnur Brá. Ef flokkarnir á þinginu geta ekki tekið á vandasömum málum munu aðrir koma fram sem bjóða lausnir. Það á ekki bara við í Skandinavíu.

Menning kemur oft við sögu í frumvarpinu, menningarárekstrar hvergi. Samt er það svo að enginn breytist við það að fara yfir landamæri. Píratinn Helgi Gunnarsson sagði að málið myndi leysast ef við lærðum að bjóða góðan dag eða heilsast á arabísku! En skríllinn sem birtist svo oft í fréttum á torgum þaðan sem flóttamenn eru fjölmennir verður áfram skríll hvernig sem heilsað er. Reyndar þarf Helgi að læra meira en bara að heilsa á arabísku ef svo fer fram sem horfir.

Mikill meirihluta flóttamanna frá Afríku og Austurlöndum er karlmenn á besta aldri sem best geta spjarað sig. Það er skylda okkar að veita hinum sem verst eru staddir aðstoð, þar á meðal hæli eftir því sem getan leyfir. Þetta á augljóslega við um trúflokka minnihlutahópa í Austurlöndum, þ.e. þá sem eftir eru. Yfirborðsleg alheimsbjörgunarárátta sem hrjáir svo marga er ekki svarið. Það er víst.

Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.

Höf.: Einar S. Hálfdánarson