Guðmundur Jónas Kristjánsson
Guðmundur Jónas Kristjánsson
Eftir Guðmund Jónas Kristjánsson: "Ekki er hægt að hugsa sér eins gjörólíka flokka og þessa tvo. Íslensku þjóðfylkinguna og Pírata. Stjórnlyndi eða anarkisma."

Í komandi alþingiskosningum eiga kjósendur um tvennt að velja. Fjórflokkinn svokallaða, rúinn öllu trausti, eða önnur framboð. Í því sambandi er vert að vekja athygli á nýstofnuðum flokki, Íslensku þjóðfylkingunni (ÍÞ).

Þjóðfylking eða Píratar ?

Ekki er hægt að hugsa sér eins gjörólíka flokka og þessa tvo, Íslensku þjóðfylkinguna og Pírata. Stjórnlyndi eða anarkisma. Meðan Íslenska þjóðfylkingin teflir fram skýrri og afgerandi stefnu til helstu þjóðmála í dag er stefnuleysið aðalsmerki Pírata, enda skilgreina þeir sig sem anarkista, stjórnleysingja. Þegar ÍÞ segist standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands, íslenska þjóðmenningu, tungu, þjóðleg gildi og kristna trú, boða Píratar hið gagnstæða. Vilja þjóðríkið feigt, boða nánast „no borders“-pólitík, og vilja nánast afnema allt skipulagsbundið vald, enda hafa anarkistar hvergi náð kosningu í heiminum frá upphafi ferils síns á 19 öld. Nema á Íslandi. Athyglisvert!

Þjóðfylkingin, flokkur fólksins

Í grunnstefnu ÍÞ er lögð megináhersla á að vera flokkur fólksins, almennings á Íslandi. Málefni fjölskyldunnar, heimilanna, smærri og meðalstórra fyrirtækja í einkarekstri, hornsteinar samfélagsins. Málefni aldraða og öryrkja setur Íslenska þjóðfylkingin ávallt í öndvegi, svo og að berjast gegn fátækt. Málefni ungs fólks, framtíðar Íslands, eru einnig í brennidepli. Afnám verðtryggingar, upptaka þjóðpeningakerfis og hækkun persónuafsláttar. Þá vill ÍÞ endurskoða fiskveiðistefnuna frá grunni og opna á frjálsar strandveiðar, er yrði mikil lyftistöng fyrir allar íslensku sjávarbyggðirnar. ÍÞ vill Landsvirkjun áfram í þjóðareigu, engan sæstreng til útlanda og Reykjavíkurflugvöll áfram. Svo dæmi séu tekin.

Þjóðfylking gegn spillingu

Þá er í grunnstefnu ÍÞ sérstaklega lögð mikil áhersla á að tekið verði af hörku á allri spillingu og fjármálamisferli. Við eigum að uppræta hverskyns skattaskjól og refsa þeim hart sem þau stunda. Þá á leynibox fyrrverandi vinstristjórnar til 110 ára tafarlaust að opna! ÍÞ vill „báknið“ birt !

Þjóðaröryggi í fyrirrúmi

Gagnstætt Pírötum og vinstrisinnuðum róttæklingum leggur ÍÞ mikla áherslu á þjóðaröryggi íslensku þjóðarinnar. Styður NATO-aðild, uppsögn á Schengen og úrsögn úr EES, en tvíhliða viðskiptasamning við ESB, hert landamæraeftirlit ásamt eflingu lögreglu, tolls, Landhelgisgæslu og að Íslendingar taki aukinn þátt í eigin vörnum. Þá vill ÍÞ herta innflytjendalöggjöf og hafnar því þverpólitískri nefndartillögu Óttars Proppés og félaga um nánast galopin landamæri. ÍÞ styður hins vegar öflugar aðgerðir til aðlögunar þess ágæta fólks sem vill setjast hér að. – Hjá ÍÞ er ESB-aðild og TISA-samningar á bannlista. Í ljósi upplausnar Schengen og íslamskrar hryðjuverkaógnar í Evrópu telur ÍÞ fulla ástæðu til að banna moskur á Íslandi eins og þegar er farið að gera í evrópskum borgum. ÍÞ hafnar íslamsvæðingunni!

Breiðfylking þjóðhollra borgaralegra afla

Hér hefur aðeins verið vakin athygli á ÍÞ, breiðfylkingu þjóðhollra borgaralegra afla. Frekar um ÍÞ má finna á fésbókarsíðu ÍÞ, en Helgi Helgason stjórnmálafræðingur er talsmaður ÍÞ fram að flokksþingi í maí þar sem endanlega verður gengið frá málum. Hvetjum því allt þjóðhollt, heiðarlegt og borgarasinnað fólk að koma til liðs við ÍÞ nú í kjölfar alþingiskosninga. Landi og þjóð til heilla!

Höfundur er bókhaldari og situr í bráðabirgðastjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Höf.: Guðmund Jónas Kristjánsson