Kristján S. Guðmundsson
Kristján S. Guðmundsson
Eftir Kristján S. Guðmundsson: "Er ráðherra heilbrigðismála á Íslandi veruleikafirrtur?"

Frumvarp ráðherrans um hækkun á kostnaði Íslendinga við læknisþjónustu lýsir þeirri kröfu ráðherrans að allir eldri borgarar, sem orðnir eru 67 ára, eigi að flýta sér að koma sjálfum sér sex fet í jörð til að tryggja launakostnað og eftirlaun ráðherra og þingmanna.

Þessi veruleikafirring brýst út hjá ráðherranum eftir svívirðilega ránsherferð þingmanna þegar þeir hirtu af eftirlaunaþegum landsins lögvörð réttindi á greiðslu sem kölluð var grunnlífeyrir og var komið á laggirnar árið 1946. Allir launamenn þurftu að greiða svokallað tryggingagjald sem átti meðal annars að tryggja öllum sem næðu 67 ára aldri ákveðna greiðslu sem lífeyrisuppbót.

Þegar laun og eftirlaun ráðherra og þingmanna ásamt æðstu starfsmönnum ríkisins voru hækkuð var nærtækast að ráðast á þá sem minnsta möguleika hafa til að verja sig, en það er eldra fólk og sjúklingar. Því voru hæg heimatökin hjá þingmönnum að afnema ákvæði laga um grunnlífeyri til allra landsmanna sem lögbundinn var 1946.

Ráðherra heilbrigðismála leggst svo lágt í sinni veruleikafirringu að með hækkun lækniskostnaðar ellilífeyrisþega er fundin auðveld leið fyrir stjórnvöld til að koma gömlu hróunum sem fyrst sex fet í jörð. Það er vitað að fyrir þessa fyrirhuguðu hækkun ráðherrans á sjúkrakostnaði ellilífeyrisþega þá leitaði fólk ekki læknis vegna bágrar fjárhagsstöðu fyrr en ástandið var orðið svo slæmt að lítið var hægt að gera fyrir það. Viðurkennt hefur verið að margt fólk hafi leitað læknis of seint vegna þess að fjárhagur leyfði það ekki.

Þrátt fyrir þessa vitneskju ráðherrans um slæma fjárhagsstöðu eldra fólks skal enn og aftur ráðist á þetta fólk með nýjum skattaálögum. Fyrirhuguð gjaldskrárhækkun er ekkert annað en skattaálagning.

Fjárhagsstaða ríkissjóðs hefur verið það góð að ástæðulaust er að misþyrma eldra fólki á kostnað amlóðanna í stólum Alþingis.

Ef þörf er á að spara væri skynsamlegast að byrja á réttum enda. Fækka má alþingismönnum niður í sjö og láta þá vinna fyrir kaupinu sínu. Þingmenn hafa ekki skilað eðlilegri vinnu ef miðað er við vinnuframlag almennings. Hinir svokölluðu þingfundir einkennast af bulli þingmanna sem ekkert á skylt við störf að setningu laga og reglna fyrir þegnana að fara eftir. Störf þingmanna einkennast af skömmum og svívirðingum úr ræðustól hver á annan sem ekkert hefur með velferð þegnanna að gera. Eftir að farið var að sjónvarpa frá þingfundum hefur komið skýrt fram að þingfundir eru tómur leikaraskapur enda hefur Alþingishúsið hlotið nafnið Leikhús fáránleikans.

Rétt þykir að geta þess að fjöldi þingmanna á Alþingi Íslendinga er í engu samræmi við fólksfjölda ef hann er borinn saman við aðrar þjóðir. Ef borinn er saman þingmannafjöldi á Íslandi og í Bandaríkjum Norður-Ameríku þá ættu þingmenn á þingi USA í hlutfalli við fjölda kjósenda að vera sem næst 4.000 en eru fimm hundruð. Þessi samanburður réttlætti sjö heiðarlega þingmenn á hinu íslenska Alþingi.

Störf Alþingis og kostnaður við þau, með 1.000 til 1.500 fermetra húsnæði á mörgum stöðum í Reykjavík, er yfirlýsing að um sé að ræða atvinnubótavinnu en ekki nauðsynleg störf. Starfsemi sem er í eðli sínu sýndarmennska í ætt við Parkinsons-lögmálið.

Það hefur verið stefna landsmanna síðan 1936 að jafna kostnaði á alla landsmenn er varðar heilbrigðismál með skattgreiðslum. Í tíð þessarar ríkisstjórnar á að breyta til og skattleggja eldra fólk og þá sem þurfa á læknishjálp að halda. Þetta gerist á sama tíma og ráðamenn þjóðarinnar lögbinda sjálftöku launa til handa þingmönnum og mönnum í stöðum sem taldar eru æðri stöður í þjóðfélaginu.

Enn er við lýði hjá ráðamönnum þjóðarinnar sá hugsanaháttur sem ríkti á öldum áður að ofbeldismenn sem telja sig vera æðri öðrum þegnum landsins eigi að njóta gæða lífsins. Þessir ráðamenn lifa ennþá í anda þeirra sem kallaðir voru kóngar, hertogar, barónar, landshöfðingjar og fleiri titlar og krefjast þess að hafa það betra en þeir sem foringjarnir líta á sem þræla.

Til þess að stöðva veruleikafirringu ráðherrans þarf öfluga sókn af hálfu samtaka aldraðra gegn þessari skattaáþján.

Höfundur er fv. skipstjóri.

Höf.: Kristján S. Guðmundsson