Hallur Hallsson
Hallur Hallsson
Eftir Hall Hallsson: "Við getum verið stolt af okkar þjóðarsögu."

Það hefur verið plagsiður sumra sagnfræðinga í seinni tíð að tala niður íslenska þjóðarsögu, ekki síst 20. aldar. Þeirra á meðal er forsetaframbjóðandinn og minn ágæti kennari við Háskóla Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur. Hér eru nokkur ummæli Guðna Th. sem sjálfsagt er að rifja upp því auðvitað verður fólk að vita fyrir hvað frambjóðendur standa.

„Fuck the foreigners-lögin“

Nokkrum dögum eftir að þjóðin hafnaði Icesave-samningi Svavars Gestssonar kallaði Guðni Th. Neyðarlögin „Fuck the foreigners-lögin“.

Guðni Th. skrifaði 10. mars 2010: „Ætli menn að halda því fram að Íslendingar séu að reyna sýna umheiminum fram á óréttlætið í því að ríkisvaldið þurfi að ábyrgjast innstæður í einkareknum bönkum verða þeir að bæta við orðum sem gætu hljómað eitthvað á þessa leið: „það er að segja í útlöndum en á Íslandi hljóta aðrar reglur að gilda“.“ Guðni Th. notaði hugtak eins og þjóðrembu í þessu samhengi.

Varist að lofa dug og þor í þorskastríðunum

Guðni Th. skrifaði um þorskastríðin sem háð voru upp úr miðri 20. öld: „Menn skyldu líka varast að lofa dug og þor íslenskra ráðamanna í þorskastríðunum...“

Og um síðari heimsstyrjöldina skrifaði Guðni Th. Jóhannesson: „Við ættum því kannski að fara varlega í að mikla okkur af fórnum í seinni heimsstyrjöldinni.“

Þetta er athygliverð afstaða forsetaefnis. Alls er talið að 229 Íslendingar hafi farist í hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar.

Sigursaga 20. aldar

Að mínu viti er saga Íslendinga á 20. öld ein hin glæstasta meðal þjóða heims. Við vorum ein fátækasta þjóð heims við upphaf 20. aldar. Barátta þjóðarinnar fyrir auðlind sinni hófst um aldamótin 1900 þegar Hannes Hafstein, þá sýslumaður á Ísafirði, fór um borð í breskan landhelgisbrjót á Dýrafirði árið 1899. Þrír fórust og sýslumanni var bjargað nær dauða en lífi.

Fyrir öld bjó fólk við harðan kost í torfbæjum en var að brjóta hlekki ánauðar og flytjast á mölina; setti vélar í báta, keypti togara og réðst í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Reykjavíkurhöfn, sem var forsenda togaraútgerðar. Og svo var það auðvitað silfur hafsins, síldin.

Þjóðin fékk heimastjórn 1904; fullveldi 1918, sjálfstæði 1944. Iðnvæðing hófst fyrir 50 árum með Búrfelli og ÍSAL.

Þorskastríðin

Þjóðin háði hatrömm þorskastríð þar sem varðskipsmenn tókust á við herskip breska heimsveldisins. Fullnaðarsigur vannst 1976 – fyrir réttum 40 árum.

Ísland var áhrifamesta smáríki veraldar á dögum kalda stríðsins. Á nýrri öld stóð þjóðin af sér atlögu Breta, Hollendinga og ESB í Icesave-deilunni. Við lifum nú mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Ísland er í öðru sæti á velsældarlista OECD.

Fórnir sjómanna

Velsæld íslenskrar þjóðar stendur á herðum sjómanna sem tókust á við veðravíti Atlantshafsins. 3.600 sjómenn fórust á 20. öldinni, gáfu líf sitt svo við mættum lifa í velsæld. Þeir verðskulda virðingu okkar.

Við getum verið stolt af okkar þjóðarsögu.

Höfundur er fréttamaður og sagnfræðingur.

Höf.: Hall Hallsson