Sveinbjörn Jónsson
Sveinbjörn Jónsson
Eftir Sveinbjörn Jónsson: "Vífilfell stefnir á 90% endurvinnsluhlutfall árið 2020 og að vera umhverfisvænasta framleiðslufyrirtæki landsins"

Meðvitund um mikilvægi þess að brugðist sé við aðsteðjandi hættu vegna loftslagsbreytinga er sem betur fer að aukast hér á landi. Stór framleiðslufyrirtæki eins og það sem ég starfa hjá þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi.

Hjá Vífilfelli er umhverfisstefnan hluti af grundvallargildum okkar.

Við vinnum stöðugt að því að draga úr áhrifum okkar á umhverfið, m.a. með því að auka endurvinnslu. The Coca-Cola Company gerir til okkar afar strangar kröfur en einnig höfum við innleitt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001. Þá hefur Vífilfell undirritað samkomulag við Reykjavíkurborg og Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, þar sem við skuldbindum okkur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr sorpi og skila skýrslu um árangur okkar. Skýrsluna fyrir síðasta ár má finna á vifilfell.is. Einnig höfum við skrifað undir Global Compact-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og eru tíu grundvallarviðmið þeirra höfð í heiðri í framleiðslu okkar.

Stefnum á 90% endurvinnsluhlutfall

Eitt af forgangsverkefnum okkar er að tryggja rétta losun úrgangs á vinnusvæði okkar og að þjálfa allt starfsfólk í meðhöndlun úrgangs. Við ætlum að leggja aukna áherslu á flokkun sorps inni á skrifstofum Vífilfells með því að innleiða einfalt flokkunarkerfi með aðstoð Gámaþjónustunnar, sem sér um að hirða sorpið okkar. Við erum einnig í samstarfi við Gámaþjónustuna um hvernig megi koma í veg fyrir sorp í landfyllingum.

Allar vörur Vífilfells eru í dag í endurvinnanlegum umbúðum og við hvetjum viðskiptavini okkar til að endurvinna. Á undanförnum árum hefur endurvinnsluhlutfall okkar hækkað jafnt og þétt og það sem af er þessu ári er heildarendurvinnsluhlutfallið 85%. Betur má ef duga skal og höfum við sett okkur það markmið að auka hlutfallið um eitt prósentustig á ári til ársins 2020, þegar það verður orðið 90%.

Einn og hálfur fótboltavöllur af áli endurunninn

Sem dæmi um áhrifin sem bætt vinnubrögð við endurvinnslu geta haft þá skilaði endurvinnsla bylgjupappa frá Vífilfelli árið 2015 minni losun koltvíoxíðs sem samsvarar útblæstri 75 bíla. Endurunnið ál, flatt út í sömu þykkt og gosdós, myndi þekja tæplega einn og hálfan fótboltavöll. Einnig endurunnum við timbur sem samsvarar yfir 3.000 Euro-vörubrettum og plastflöskur sem endurvinna má í polyesterþræði til að búa til 120.000 flíspeysur. Enn má gera betur og stefna Vífilfells er að vera eitt umhverfisvænasta framleiðslufyrirtæki landsins.

Öll þessi mikilvægu verkefni sem hleypt hefur verið af stokkunum á Íslandi og á alþjóðavísu hafa verið okkur mikil hvatning og vonandi getur þessi litla grein orðið til þess að forsvarsmenn fleiri fyrirtækja hér á landi fari að skoða hvernig þeir geti dregið úr óæskilegum áhrifum á umhverfið sem er sameign okkar allra

Höfundur er gæða-, öryggis- og umhverfisstjóri Vífilfells.

Höf.: Sveinbjörn Jónsson