Helgi K. Hjálmsson
Helgi K. Hjálmsson
Eftir Helga K. Hjálmsson: "Það er hart og lítilfjörlegt að beygja sig í duftið."

Hinn 6. og 7. maí sl. var Leikmannastefna íslensku þjóðkirkjunnar haldin í Skálholti. Í tilefni þess að þetta var þrítugasta leikmannastefnan flutti ég erindi um sögu hennar og í lok erindis míns sagði ég: Leikmannastefna þjóðkirkunnar haldin í Skálholti 7. maí 2016 vekur athygli á því hvað einstaka hópar, bæði trúarlegs eðlis og aðrir, eru að valta yfir kristið kirkjulegt starf. Hafa ber í huga að við erum kristin þjóð og störfum samkvæmt kristnum gildum, þess vegna er það sorglegt að líta til þess að fámennir hópar, svo sem Siðmennt, eru að setja okkur nýjar lífsreglur, t.d. eins og hefur átt sér stað í sumum grunnskólum landsins. Þar sem þeir hafa bannað að kristin fræði séu kennd, svo og banna hið frábæra starf Gídeon-félaga með útbreiðslu Nýja testamentisins til barna á grunnskólastigi. Svo og að banna grunnskólabörnum að sækja kirkju um jól og öðrum hátíðum. Spurt er: Hver veitir þeim slíkt leyfi?

Það er hart og lítilfjörlegt að beygja sig í duftið þegar þessir hópar eru annars vegar, að setja okkur skorður og ákveða hvað má kenna og hvað ekki.

Leikmannastefnan skorar á alla, bæði leika og lærða, að standa nú upp og sporna við þessum ósóma, sem því miður virðist fara vaxandi hjá okkar annars ágætu þjóð og styðja fast við að hin kristnu gildi, sem hafa verið í heiðri höfð hingað til og verið höfð að leiðarljósi í öllu lífi og störfum okkar og standa fast á því að helgidagar kirkjunnar verði ekki skertir.

Höfundur er fyrrverandi formaður leikmannastefnu í 20 ár.

Höf.: Helga K. Hjálmsson