Síðastliðinn fimmtudag skrifar rannsóknarblaðamaðurinn Agnes Bragadóttir alllanga grein í Morgunblaðið um stjórnmálaaflið Viðreisn. Í undirfyrirsögn er haft eftir Grétari Þór Eyþórssyni, prófessor í stjórnmálafræði, að það „hafi á sér yfirbragð félagshyggju og flokkurinn stilli sér augljóslega upp til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn, við hlið Samfylkingar“.
Þau Agnes og Grétar fundu hvorki frjálslyndi né Evrópustefnu hjá Viðreisn eftir viðamiklar rannsóknir. Prófessorinn hefur reyndar látið hafa það eftir sér að hann hafi gefið umsögn sína á „hálfgerðum hlaupum“. Það sé í raun PR-klúður Viðreisnar að hann hafi ekki kynnt sér flokkinn eða stefnu hans áður en greiningin birtist í Morgunblaðinu.
Agnes segir: „Mesta athygli vekur, þegar hin stutta stefnuskrá nýstofnaðs stjórnmálaflokks, Viðreisnar, er lesin, að ekki er minnst einu orði á nauðsyn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, né heldur á nauðsyn þess að leggja krónuna niður og taka upp evru. Hver skyldi skýringin vera?“
Síðar er haft eftir Grétari Þór: „[Hann] benti á að hvergi væri minnst á frjálslynda stefnu og eins og hann hefði áður sagt væri ekki minnst á Evrópumálin.“
Á heimasíðu flokksins eru fjórir meginpunktar settir í forgrunn undir fyrirsögninni Hvað er Viðreisn? Nýtt, frjálslynt stjórnmálafl á Íslandi. Punktarnir eru:
Réttlátt samfélag : Allir skulu hafa rétt til góðrar heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegrar þjónustu. Lífskjör á Íslandi verði svipuð og í nágrannalöndum og gróska í menningarlífi.
Jafnvægi : Stöðugt efnahagslíf og fjölbreytt atvinnutækifæri. Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar. Hallalaus fjárlög og skuldir ríkisins lækkaðar.
Viðskiptafrelsi : Markaðslausnir þar sem við á, gjaldeyrishöft felld niður, engar samkeppnishindranir. Frelsi, jafnrétti, lýðræði og jafn atkvæðisréttur fyrir alla.
Vestræn samvinna : Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu til þess að ná megi aðildarsamningi sem borinn verði undir þjóðina.
Á undirsíðum má svo kynna sér stefnuskrá flokksins í einstökum málaflokkum. Í efnahagskaflanum kemur fram; „Gengi krónunnar verði fest og tekið upp myntráð. Til lengri tíma skal stefnt að upptöku evru með stuðningi Seðlabanka Evrópu.“
Rétt er að halda því til haga að Grétar skrifar í færslu á Facebook að orðalagið „við hlið Samfylkingarinnar [sé] nú viðbót blaðamanns“.
Fyrir lesendur Morgunblaðsins, sem hafa rýmri tíma en blaðamaðurinn knái og prófessorinn, er rétt að benda á að ítarlega stefnu Viðreisnar má lesa á heimasíðunni www.vidreisn.is. Einnig má sjá upptöku af stofnfundinum á Facebook-síðu flokksins. Það er útilokað að menn komist að svipaðri niðurstöðu og blaðamaður Morgunblaðsins og viðmælandi hans eftir að hafa kynnt sér Viðreisn og stefnuna af eigin raun.
Höfundur er formaður Viðreisnar.