Með nýju aflandskrónulögunum eru Seðlabankanum veittar auknar heimildir til rannsókna. Seðlabankinn getur krafið hvern sem er um upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Ekki er skilyrði að gögnin séu nauðsynleg heldur einungis að Seðlabankanum finnist þau nauðsynleg. Engin trygging er fyrir því að slíkt varði eingöngu aflandskrónur. Seðlabankinn getur því að eigin geðþótta krafið hvern sem er um hvaða upplýsingar og gögn sem er, þar með talið geðlækna, sálfræðinga, presta, lögmenn og endurskoðendur. Til að verða við slíkum kröfum Seðlabankans getur fólk þurft að bera sakir á foreldra sína, maka, börn og systkini. Engin undantekning er gerð vegna slíkra tengsla. Seðlabankinn er í rétti svo lengi sem honum finnst sjálfum að upplýsingarnar eða gögnin séu nauðsynleg. Ákvörðunarvald Seðlabankans er endanlegt á stjórnsýslustigi því ekki er hægt að skjóta ákvörðunum Seðlabankans til ráðherra. Þá frestar málskot til dómstóla ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sá sem telur sig órétti beittan þarf að greiða allt að 50 milljónir á dag í dagsektir og sérstakar stjórnvaldssektir í þokkabót, sem geta numið allt að 65 milljónum á einstaklinga og 500 milljónum á fyrirtæki, auk dráttarvaxta.
Lögin útiloka í raun aðgengi að dómstólum. Sá sem sættir sig ekki við að vera krafinn um gögn eða upplýsingar þarf að höfða mál innan 14 daga ef stöðva á innheimtu dagsektanna. Annars verður viðkomandi orðinn gjaldþrota áður en hann fær skorið úr rétti sínum fyrir dómi sem tekur 2 til 3 ár. Nær ómögulegt er að höfða flókið dómsmál á 14 dögum.
Með lögunum eru Seðlabankanum veittar heimildir til að ákveða hvaða upplýsingar og gögn eru nauðsynleg eins og hann hafi löggjafarvald, heimildir til að rannsaka mál eins og hann væri lögregla og heimildir til að leggja á refsingar í formi óumflýjanlegra dagsekta eins og hann væri dómari. Þrískipting ríkisvaldsins er ekki virt. Þegar aðhaldið er ekkert er hætta á ferðum. Framganga Seðlabankans á undanförnum árum og athugasemdir umboðsmanns Alþingis gefa ekki beint tilefni til að auka valdheimildir bankans heldur ættu frekar að leiða til hins gagnstæða.
Höfundur er lögmaður.