Umræða er í gangi um þau forsjár- og umgengnismál þar sem börn hafna samvist við annað foreldri sitt. Í slíkum málum geta deilur orðið mjög harðvítugar. Nú er unnið að því að koma á lögum til að geta dæmt og refsað sem sakamönnum þeim foreldrum sem þessi börn óska sér að vera hjá. Það er umhugsunarvert.
Harðar deilur foreldra í fjölskyldum þar sem börn neita að fara í umgengni fá mun meiri athygli en aðrar deilur eða sættir foreldra. Umræðan um hörðu deilurnar verður stundum hástemmd og áróðurskennd, og hvorki rökleg né lausnamiðuð. Auðvelt er að espa upp illindin í þessum fjölskyldum með óvarkárum eða fljótfærnislegum afskiptum, eins og þegar menn gefa sér fyrir fram þá skýringu að annað foreldrið eigi sökina. Miklu erfiðara er að sefa deilurnar og hjálpa þessum fjölskyldum að leysa þær. Að baki hverju máli er áralöng saga. Þar hafa þróast margþætt tilfinningatengsl, flókin samskipti og ólík ábyrgð. Stundum getur skapast í fjölskyldum óvenjuleg pattstaða, þar sem meðlimir eiga hver sinn þátt en þó mismunandi.
Mismunandi ástæður eru fyrir því þegar börn neita að hitta eða umgangast annað foreldri sitt. Því er það villa að skýra þessa hegðun barnanna einfaldlega með því að foreldrið sem þau vilja vera hjá beri sök. Margt hefur þarna áhrif, m.a. persónueiginleikar og framkoma foreldra, umönnunarhæfni þeirra, geðtengslamyndun barna og ekki síst íþyngjandi áhrif af langvarandi togstreitu milli foreldra. Þessi börn búa við flókið samspil kvíða og reiði, og stundum hatur og hefnigirni. Þau eru undir miklu álagi, hafa orðið vitni að heiftarlegum rifrildum og stundum verið þátttakendur í átökum sinna nánustu. Lítið er vitað um hagi þessara barna hérlendis.
Í umræðum hefur óljós ímynd verið sköpuð af foreldrum, aðallega mæðrum, sem meint er að reyni allt til að slíta tengsl barna sinna við hina foreldrana aðallega feður. Óundirbyggð hugtök eins og mæðraveldi, foreldrafirring, tálmun eða útskúfun eru sett fram. Talað er um geðbilun, vonsku, brotavilja eða kvenrembu. Þeir foreldrar sem börn hafna samvistum við eru skilgreindir sem þolendur afbrota hinna foreldranna. Á bak við þessa óljósu ímynd eru engar rannsóknir hérlendis, en þetta styðst við úrelta kenningu um foreldrafirringu. Sú kenning féll sérstaklega vegna fordóma um geðbilun og sök sem í henni fólust.
Eftir að hafa verið lengi í miðju harðra deilna foreldra sinna sjá sum börn sér þann kost vænstan að neita að fara í umgengni. Þegar svo langt er komið er orðin veruleg hætta á því að börnin hljóti sálarmein, ef það hefur þá ekki þegar gerst. Því getur verið um sjálfsbjargarviðleitni að ræða þegar börn bregðast svona við. Stundum kemur slík harðneitun barna báðum foreldrum á óvart. Börn eru ekki viljalaus hlutur sem foreldrar geta óendanlega lengi skipt með sér út frá misskildum eignarrétti eða óviðeigandi hugmyndum um jafnrétti, heldur eru þau hugsandi verur með sitt eigið líf. Það vill stundum gleymast í deilunum. Þó svo að jafnrétti gildi um foreldra almennt á það ekki við undantekningalaust og bestu hagsmunir barna ganga fyrir.
Engin tvö þessara hörðu mála eru eins. Hvert og eitt þeirra krefst sérstakrar athugunar og varfærni í nálgun. Hafa ber í huga rétt barna til að tjá sig og virða rétt þeirra til að taka afstöðu ef því er að skipta. Til þess að börn geti tjáð hug sinn þarf að vinna traust þeirra, hlusta vel og leggja sig fram við að skilja þau. Einnig þarf að taka tillit til aldurs þeirra og þroska. Stundum fá börn nóg af hörðum deilum foreldranna eða finna fyrir vonleysi um að sátt og friður geti náðst.
Hvað skal gera þegar barn neitar að fara til annars foreldris síns? Taka þau með lögregluvaldi, segja sumir. Refsa því foreldri sem „tálmar“ segja aðrir. Hvort tveggja hefur verið reynt og með skelfilegum afleiðingum, t.d. sjálfsvígum. Svonefnd tálmun er miklu vandasamara fyrirbrigði í fjölskyldum en sumir vilja vera láta. Grunnhyggin og óvarleg inngrip gera sannarlega illt verra.
Að mörgu er að hyggja og gæta að ætli menn sér að leysa þessi vandmeðförnu mál. Á þeim er engin einföld lausn. Þetta eru snúnustu, hörðustu og fyrirferðarmestu forsjár- og umgengnisdeilurnar en þó lítill hluti af heild þeirra. Illa gengur að sætta þessi mál. Þeim lýkur yfirleitt ekki þó að úrskurðað sé eða dæmt. Stundum virðist sem deilurnar haldi sífellt áfram sama hvað er gert.
Hörðu málin eru ekki dæmigerð fyrir forsjár- og umgengnismál yfirleitt. Langflest spursmál um börn, s.s. um búsetu, uppeldi, samvistir og fleira, leysa foreldrar sjálfir sín á milli. Sum deiluefni leysa þeir með aðstoð sáttamanna á einkastofum eða í sérfræðiráðgjöf sýslumanna. Restin leysist yfirleitt með úrskurðum hjá sýslufulltrúum eða hjá dómstólum með dómi eða dómsátt. Fyrir héraðsdómstólum voru sætt 66% forsjármála á árunum 2006-2010 og fyrir Héraðsdómi Reykjaness voru sætt 87% forsjármála á árunum 2002-2005. Þannig leysast deilur um börn yfirleitt. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið í þjóðfélaginu væri annars.
Höfundur er sálfræðingur.