Spurningarnar, hvort Guð sé til og hvernig hann sé þá, hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Flestir fæðast inn í eitthvert trúarsamhengi og halda trú forfeðra sinna. Aðrir leita á önnur mið og reyna að leysa gátuna um Guð upp á eigin spýtur. Eitt er víst að til þess að trú verði sterk og persónuleg hlýtur að þurfa að fylgja einhver trúarreynsla sem staðfestir fyrir viðkomandi að það sé eitthvað meira á bak við trúna en orðin tóm.
Helsta gagnrýni sem ég hef fengið á framboð mitt til forseta er að ég sé trúuð og leiti ráða hjá Guði. Það þykir alls ekki nógu gott. En hvað ef Guð væri til og væri eins og Biblían lýsir honum, einhver sem hlustar og talar, er alvitur, almáttugur og kærleiksríkur faðir sem lætur sér annt um velferð og líðan fólks, hvernig sneri málið þá? Væri þá ekki betra að hafa hann í liði, svona eins og bakhjarl sem hægt væri að leita til, sem er alltaf á vakt og bregst aldrei? Væri maður þá ekki sterkari heldur en ef maður stæði einn með sína takmörkuðu vitneskju og sýn á málin? Jú, við hljótum að vera sammála um að ef Guð er til þá er miklu betra að hafa hann í liði, ekki síður í embætti forseta.
Ég naut þeirra forréttinda að vera alin upp í kristinni trú þannig að ég hafði grundvöll til að standa á þegar vindar lífsins fóru að blása. Ég þurfti samt sem áður að velja fyrir mig, hvort ég ætlaði að fylgja Guði eða ekki. Sem betur fer hafði ég vit til þess um fermingaraldur. Það var svo ekki fyrr en í mjög svo ævintýralegri hnattferð fyrir 30 árum að verulega reyndi á trúna. Í gegnum reynslu af ýmsum toga getur ekkert lengur haggað þeirri fullvissu minni að Guð er til og að hann er persónulegur, kærleiksríkur, máttugur og er alltaf til staðar þegar ég þarf á hjálp hans að halda og leita til hans. Ég spyr því, er það styrkleiki eða veikleiki að leita visku og ráða hjá Guði? Fyrir mér er það mikill styrkur að hafa þann möguleika sem forseti, því starfið getur oft á tíðum verið margslungið og því mikilvægt að hafa góða ráðgjafa.
Eitt af mínum uppáhaldsversum úr Biblíunni sem ég trúi að eigi erindi við íslenska þjóð í dag er í Jeremía 6.16: Nemið staðar við vegina og litist um, spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin og farið hana svo þér finnið sálum yðar hvíld.
Við sem þjóð höfum leitað langt yfir skammt. Gamla góða trúin sem forfeður okkar höfðu og hefur mótað samfélag okkar fram á þennan dag er eins og vandlega falinn fjársjóður sem þó er enn í fullu gildi og stendur öllum til boða. Ég veit ekkert betra fyrir íslenska þjóð en þennan fjársjóð sem veitir frið í sálina. Þarna eru rætur okkar, gömlu göturnar sem vísa okkur hamingjuleiðina. Sem forseti mun ég leggja mitt af mörkum til að þessi dýrmæti fjársjóður verði grafinn upp og að þjóðin fái að njóta hans.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur og forsetaframbjóðandi.