Björg Sigríður Hermannsdóttir
Björg Sigríður Hermannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björgu Sigríði Hermannsdóttur, Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur og Ólaf Þór Ævarsson: "Fjölbreytileiki í uppruna og menningarbakgrunni hefur aukist síðustu tvo áratugina og gjörbreytt vinnustöðum. Dæmi um slíkan vinnustað er skólinn."

Fjölbreytileiki í uppruna og menningarbakgrunni íbúa Íslands hefur aukist til muna síðustu tvo áratugina. Fyrir vikið erum við ríkari sem þjóð. Fjölbreytileiki veitir okkur tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn, læra hvert af öðru og nýta ólíka reynslu og sjónarmið til að takast á við sameiginlegar áskoranir. Fjölbreytt samfélag kallar á sterka samvinnu, því án hennar er hætt við að jaðarsetning og félagslegt misrétti nái fótfestu og geri okkur erfitt fyrir.

Grunnskólar eru á meðal þeirra vinnustaða á Íslandi þar sem fjölbreytileiki er hvað sýnilegastur. Börn og unglingar með margskonar menningarbakgrunn, ólíka félagslega stöðu, reynslu og fjölskylduaðstæður mæta þar daglega til starfa undir leiðsögn kennara og starfsfólks sem hafa það mikilvæga verkefni að styðja hvern og einn í að læra, þroskast og rækta hæfileika sína á eigin forsendum. Rétt eins og stjórnendur fyrirtækja þurfa að stuðla að góðum starfsanda til að koma í veg fyrir streitu og kulnun meðal starfsfólks, þurfa stjórnendur skóla að tryggja uppbyggilegt vinnuumhverfi fyrir kennara og nemendur þeirra. Kennarar og stjórnendur þurfa að geta talað opinskátt um erfið samfélagsleg málefni, tækla fordóma og eineltistilburði og rækta gott samband við foreldra með margskonar væntingar og bakgrunn. Þetta eru ekki litlar kröfur.

Samkvæmt erlendum rannsóknum þjáist um þriðjungur kennara af streitu og niðurstöður íslenskra rannsókna benda í sömu átt. Til skamms tíma getur starfstengd streita verið viðráðanleg en langvarandi streita er hins vegar alvarlegt mál. Streita til langs tíma sem fer umfram þolmörk og bjargráð einstaklings getur leitt til andlegra erfiðleika, líkamlegra veikinda og kulnunar í starfi. Vinnuálag, krefjandi samskipti og takmarkaður faglegur stuðningur eru meðal þeirra þátta sem aukið geta streitu meðal kennara og ef þeim líður ekki vel kemur það óhjákvæmilega niður á upplifun og líðan nemenda. Streitutengd heilsufarsvandamál, svo sem kvíði, depurð og svefntruflanir eru meðal algengustu orsaka veikindafjarveru og kostnaðarauka í rekstri.

Starfi kennara fylgir mikil ábyrgð. Það er í sífelldri þróun og verkefnin flókin. Á Íslandi í dag er raunin sú að stærðfræðikennarar þurfa ekki einungis að geta útskýrt algebru á einföldu máli fyrir nemendum með íslensku sem annað mál, heldur einnig að geta rætt opinskátt um kynjaðar staðalímyndir um stærðfræðigetu stráka og stelpna sem skotið geta upp kollinum í verkefnatímum. Íþróttakennarar þurfa að taka mið af misjafnri líkamlegri getu nemenda og vera vakandi fyrir einelti og meiðandi athugasemdum um útlit, kynhneigð og húðlit. Á sama hátt þurfa kennarar, sem stýra umræðutímum í samfélagsfræði, að vera viðbúnir erfiðum spurningum og athugasemdum frá nemendum með ólíkan bakgrunn sem litast geta af misskilningi og fordómum. Fjölbreytileiki í nemendahópi getur óbeint leitt til aukinnar streitu ef ekki er vel að málum staðið. Fái kennarar og starfsfólk skóla ekki næga þjálfun og stuðning er hætt við að erfitt sé að sinna nemendum með ólíkar þarfir. Ekki er sjálfgefið að allir kennarar séu undir það búnir að takast á við fordóma, staðalímyndir, einelti, hópamyndun og útilokun nemenda og að ræða við nemendur um fjölmenningu og margbreytileika. Slík verkefni krefjast oftar en ekki sjálfskönnunar meðal kennara og hæfni í að leiða umræður um viðkvæm mál svo að allir nemendur njóti góðs af. Með undirbúningi og þjálfun geta umræður í nemendahópi um flókin samfélagsmál verið gríðarlega lærdómsríkar. Ágreiningur veitir tækifæri til að skoða málefni frá ólíkum sjónarhornum og því fjölbreyttari sem bakgrunnur nemenda er, þeim mun meira geta þeir lært hver af öðrum. Nemendur sem fá þjálfun í uppbyggilegum samskiptum við samnemendur og kennara af margvíslegum uppruna eru betur í stakk búnir til að byggja upp heilsteypt samfélag þar sem misklíð er leyst á friðsaman hátt og sameiginlegir hagsmunir eru hafðir að leiðarljósi.

Í samanburði við nágrannalönd okkar er menningarlegur margbreytileiki nýtilkominn á Íslandi. Við höfum því einstakt tækifæri til að koma í veg fyrir erfiðleika sem upp hafa komið erlendis, svo sem aðgreiningu íbúa eftir uppruna, rótgróið félagslegt misrétti og útilokun jaðarsettra hópa frá virkri þátttöku í samfélaginu. Við berum samfélagslega ábyrgð á að tryggja öllum íbúum landsins jöfn tækifæri, veita hvert öðru nægan stuðning og takast á um ágreiningsmál af gagnkvæmri virðingu. Vaxandi fjölbreytileiki kallar því á sterka liðsheild – í skólastofum, á vinnustöðum og í samfélaginu í heild. Markmiðið er hins vegar ekki að byggja upp einsleitan hóp þar sem allir eru sammála. Þvert á móti þurfum við að efla samkennd og samstarf fólks sem oft sér tilveruna ólíkum augum og byggja á ólíkri reynslu og styrkleikum hvers og eins. Í skólunum okkar þurfa nemendur stuðning kennara og starfsfólks til að takast á við fjölbreytt verkefni í enn fjölbreyttari hópi og á móti þurfa kennarar og starfsfólk virkan stuðning, fræðslu og handleiðslu til að nýjar og spennandi áskoranir valdi ekki íþyngjandi streitu.

Höfundar eru sérfræðingar í sálfélagslegri vinnuvernd, forvörnum og streituvörnum.

Höf.: Björgu Sigríði Hermannsdóttur, Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur, Ólaf Þór Ævarsson